„Það hefur verið forgangsverkefni stjórnvalda í þessu máli að standa við alþjóðlegar skuldbindingar en á sama tíma að tryggja öryggi matvæla og dýraheilbrigði. Það er jafnframt mikilvægt að gera Evrópusambandinu og Eftirlitsstofnun EFTA grein fyrir þeim ráðstöfunum sem við ætlum að grípa til, enda allra hagur að við getum átt uppbyggilegt samstarf um farsæla lausn þessa máls. Á þessum fundum í gær skynjaði ég skilning á stöðu Íslands og er bjartsýnn á næstu skref,“ sagði Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráherra eftir fund með Vytenis Andriukaitis, framkvæmdastjóra Evrópusambandsins á sviði heilbrigðis og matvæla sem fram fór í gær.
Á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins segir að megintilgangur fundarins hafi verið að ræða stöðu mála varðandi innflutning á ófrystu kjöti, eggjum og ógerilsneyddum mjólkurafurðum til Íslands og dóma EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar Íslands sem hafa komist að þeirri niðurstöðu að núgildandi leyfisveitingakerfi og frystiskylda brjóti gegn skuldbindingum Íslands gagnvart EES-samningnum.
Kristján Þór greindi framkvæmdastjóranum frá því að frumvarp um að afnema leyfisveitingakerfið hefði verið lagt fram á Alþingi. Hann nefndi einnig þær ráðstafnanir sem íslensk stjórnvöld muni grípa til samhliða, m.a. þá kröfu að innflutt alifuglakjöt fullnægi sömu körfum og innlend framleisðla síðustu tvo áratugi.
Nánar má lesa um málið hér á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.