Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:
Eins og gefur að skilja hefur gjaldþrot WOW air áhrif á líf margra. Gjaldþrot fyrirtækja eru alltaf sársaukafull fyrir þá sem eiga hlut að máli – ekki aðeins fyrir eigendur og lánardrottna heldur ekki síður fyrir starfsmenn og fjölskyldur þeirra. Þegar umsvifamikið og stórt fyrirtæki líkt og WOW fer í þrot snertir það svo gott sem allt þjóðarbúið um stundarsakir. Þótt gjaldþrot WOW hafi tímabundin áhrif á íslenskt þjóðarbú er hugurinn fyrst og síðast hjá þeim sem nú hafa misst vinnuna og þurfa að takast á við nýjar áskoranir.
Eðli málsins samkvæmt var töluvert rætt um endalok WOW á samfélagsmiðlum. Þar var áberandi söknuður og sorg þeirra starfsmanna sem áttu hlut að máli, baráttukveðjur til þeirra frá öðrum og þannig mætti áfram telja. Aðrir höfðu uppi miklar yfirlýsingar og fyrrverandi borgarfulltrúi VG sagðist ekki hafa neina samúð með mönnum sem hefðu ótakmarkaða möguleika á að ógna stöðugleika og velferð okkar hinna. Í frekari umræðu sagði hún að flugfélagið hefði þurfti „sanngjörn verð sem standa undir sjálfbærum rekstri“ og vísaði þar til þess að fargjöld félagsins hefðu verið of lág (undirboð).
Stjórnmálamenn þurfa ekki að fella neina dóma um rekstur einstakra fyrirtækja – hinn frjálsi markaður sér um það; hann refsar bæði þeim sem verðleggja sig of lágt og þeim sem verðleggja sig of hátt. Markaðurinn verðlaunar aftur á móti þá sem finna jafnvægið þarna á milli samhliða því að bjóða upp á góða og áreiðanlega þjónustu.
Það má að vissu leyti heimfæra þetta upp á stjórnmálin. Aftur og ítrekað hafa komið fram á sviðið stjórnmálamenn sem lofa alls konar þjónustu og það gjaldfrjálst (undirboð) vitandi að það er og getur aldrei verið raunhæft loforð. Gott dæmi um þetta eru loforð vinstrimanna í Reykjavík um gjaldfrjálsa leikskóla. Með undirboði á opinberri þjónustu hafa stjórnmálamenn komist til valda með svo gott sem „ótakmarkaða möguleika á að ógna stöðugleika og velferð okkar hinna“. Spyrjið bara foreldra ungra barna í Reykjavík.
Sem fyrr segir refsar hinn frjálsi markaður þeim sem stunda undirboð, bjóða upp á lélega þjónustu og svo framvegis. Það gerist hratt og markaðurinn fellir sína dóma á hverjum degi. Svo vikið sé stuttlega aftur að flugrekstri þá stefnir í að yfir 25 flugfélög fljúgi hingað til lands í sumar. Á skömmum tíma nær markaðurinn jafnvægi og þeir sem bjóða upp á áreiðanlega þjónustu á réttu verði standa eftir og eiga vonandi eftir að blómstra. Enginn getur ákveðið hverjir það verða nema frjáls markaður.
Það er hins vegar enginn nema skattgreiðendur sem situr uppi með lélegan rekstur hins opinbera. Það reynist oft erfitt fyrir kjósendur að refsa stjórnmálamönnum sem stunda undirboð, því þeir geta alltaf rétt reikninginn af með aukinni skattheimtu eða aukinni skuldasöfnun hins opinbera.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. mars 2019.