Undirboð stjórnmálamanna
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Eins og gef­ur að skilja hef­ur gjaldþrot WOW air áhrif á líf margra. Gjaldþrot fyr­ir­tækja eru alltaf sárs­auka­full fyr­ir þá sem eiga hlut að máli – ekki aðeins fyr­ir eig­end­ur og lán­ar­drottna held­ur ekki síður fyr­ir starfs­menn og fjöl­skyld­ur þeirra. Þegar um­svifa­mikið og stórt fyr­ir­tæki líkt og WOW fer í þrot snert­ir það svo gott sem allt þjóðarbúið um stund­ar­sak­ir. Þótt gjaldþrot WOW hafi tíma­bund­in áhrif á ís­lenskt þjóðarbú er hug­ur­inn fyrst og síðast hjá þeim sem nú hafa misst vinn­una og þurfa að tak­ast á við nýj­ar áskor­an­ir.

Eðli máls­ins sam­kvæmt var tölu­vert rætt um enda­lok WOW á sam­fé­lags­miðlum. Þar var áber­andi söknuður og sorg þeirra starfs­manna sem áttu hlut að máli, bar­áttu­kveðjur til þeirra frá öðrum og þannig mætti áfram telja. Aðrir höfðu uppi mikl­ar yf­ir­lýs­ing­ar og fyrr­ver­andi borg­ar­full­trúi VG sagðist ekki hafa neina samúð með mönn­um sem hefðu ótak­markaða mögu­leika á að ógna stöðug­leika og vel­ferð okk­ar hinna. Í frek­ari umræðu sagði hún að flug­fé­lagið hefði þurfti „sann­gjörn verð sem standa und­ir sjálf­bær­um rekstri“ og vísaði þar til þess að far­gjöld fé­lags­ins hefðu verið of lág (und­ir­boð).

Stjórn­mála­menn þurfa ekki að fella neina dóma um rekst­ur ein­stakra fyr­ir­tækja – hinn frjálsi markaður sér um það; hann refs­ar bæði þeim sem verðleggja sig of lágt og þeim sem verðleggja sig of hátt. Markaður­inn verðlaun­ar aft­ur á móti þá sem finna jafn­vægið þarna á milli sam­hliða því að bjóða upp á góða og áreiðan­lega þjón­ustu.

Það má að vissu leyti heim­færa þetta upp á stjórn­mál­in. Aft­ur og ít­rekað hafa komið fram á sviðið stjórn­mála­menn sem lofa alls kon­ar þjón­ustu og það gjald­frjálst (und­ir­boð) vit­andi að það er og get­ur aldrei verið raun­hæft lof­orð. Gott dæmi um þetta eru lof­orð vinstrimanna í Reykja­vík um gjald­frjálsa leik­skóla. Með und­ir­boði á op­in­berri þjón­ustu hafa stjórn­mála­menn kom­ist til valda með svo gott sem „ótak­markaða mögu­leika á að ógna stöðug­leika og vel­ferð okk­ar hinna“. Spyrjið bara for­eldra ungra barna í Reykja­vík.

Sem fyrr seg­ir refs­ar hinn frjálsi markaður þeim sem stunda und­ir­boð, bjóða upp á lé­lega þjón­ustu og svo fram­veg­is. Það ger­ist hratt og markaður­inn fell­ir sína dóma á hverj­um degi. Svo vikið sé stutt­lega aft­ur að flugrekstri þá stefn­ir í að yfir 25 flug­fé­lög fljúgi hingað til lands í sum­ar. Á skömm­um tíma nær markaður­inn jafn­vægi og þeir sem bjóða upp á áreiðan­lega þjón­ustu á réttu verði standa eft­ir og eiga von­andi eft­ir að blómstra. Eng­inn get­ur ákveðið hverj­ir það verða nema frjáls markaður.

Það er hins veg­ar eng­inn nema skatt­greiðend­ur sem sit­ur uppi með lé­leg­an rekst­ur hins op­in­bera. Það reyn­ist oft erfitt fyr­ir kjós­end­ur að refsa stjórn­mála­mönn­um sem stunda und­ir­boð, því þeir geta alltaf rétt reikn­ing­inn af með auk­inni skatt­heimtu eða auk­inni skulda­söfn­un hins op­in­bera.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. mars 2019.