Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:
Eitt af því sem ég hef töluvert verið spurð um er hvernig samstarf ríkisstjórnarflokkanna gangi. Svarið er einfalt; samstarfið gengur vel. Þrátt fyrir ólíka flokka þá hefur Katrínu, Bjarna og Sigurði Inga tekist að leiða saman öflugan stjórnarmeirihluta sem náð hefur að afgreiða hvert stóra málið á fætur öðru. Samstarfið á þinginu almennt gengur vel og ég hygg að allir séu sammála um mikilvægi þess að vinna að því að auka traust almennings á okkur og störfum okkar. Þriðja fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar liggur nú fyrir þinginu og þar sést glöggt að áhersla er lögð á ábyrg ríkisfjármál og uppbyggingu innviða, bæði félagslegra og efnislegra. Mikil áhersla er á heilbrigðismál, umhverfismál, nýsköpun og samgöngur.
Ógnanir í kjölfar loftslagsbreytinga
Loftslagsmálin eru án efa stærsta áskorunin, við einfaldlega verðum að ná markmiðum okkar í Parísarsáttmálanum. Fyrsta aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum var metnaðarfull en nú er unnið að annarri útgáfu þeirrar áætlunar og við vitum að hún þarf að vera enn metnaðarfyllri. Nauðsynlegt er að við leggjumst öll á eitt. Atvinnulífið þarf að koma að málum ásamt ríki, sveitarfélögum, almenningi og félagasamtökum. Aldrei hefur meiri fjármunum verið varið til umhverfismála en nú er gert enda verkefnið brýnt. Til að leiða saman atvinnulífið og stjórnvöld hefur verið stofnaður samráðsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs. Samráðsvettvanginum er ætlað að vinna að auknu samstarfi og lausnum á sviði loftslags- og umhverfismála.
Á sama tíma og ég ítreka mikilvægi þess að draga úr losun og auka bindingu þá þurfum við líka að búa okkur undir þær breytingar sem óhjákvæmilega verða og eru þegar orðnar. Miklar öfgar í veðurfari, hækkun yfirborðs sjávar, bráðnun jökla og súrnun sjávar svo eitthvað sé nefnt. Skortur er á rannsóknum og vöktun á lífríki landsins og hafsins í tengslum við loftslagsbreytingar og brýnt er að bæta úr því. Ef ekki er nægileg þekking á líklegum afleiðingum loftslagsbreytinga og súrnun hafsins er ekki hægt að aðlaga samfélagið að væntanlegum breytingum. Einnig er þá erfitt að byggja ákvarðanir, svo sem í skipulagsmálum og varðandi varnir gegn náttúruvá, á bestu mögulegu upplýsingum um væntanlegar breytingar á sjávarstöðu, vatnafari o.fl. þáttum.
Tækifæri sem geta fylgt í kjölfarið
Það kunna líka að vera tækifæri mitt í ógninni, eins og oft er. Breytingar á norðurslóðum auka enn mikilvægi Íslands út frá staðsetningu okkar á jarðarkúlunni. Mikilvægi þess að við leggjum okkar af mörkum við að tryggja frið og öryggi á norðurslóðum er mikið. Opnun siglingaleiða getur skapað hér á landi mikil tækifæri fyrir umskipunarhöfn. Við sjáum núna svart á hvítu í tengslum við loðnubrest mikilvægi þess að auka enn frekar hafrannsóknir og þekkja þau áhrif sem loftslagsbreytingar og nýting auðlinda hefur á matarkistuna í kringum okkur. Sjávarútvegur er, og verður, ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs og því verðum við að tryggja öflugar hafrannsóknir. Nýtt hafrannsóknaskip mun skipta miklu máli í þessum efnum.
Rannsóknir, nýsköpun og þróun
Áhersla á rannsóknir og nýsköpun er mikil í stjórnarsáttmálanum. Hækkað hefur verið endurgreiðsluþak vegna rannsókna, unnið er að nýsköpunarstefnu og umtalsverðum fjármunum verður varið á næstu árum í nýsköpun, rannsóknir og þróun. Það mun leiða af sér fjölgun stoða í atvinnulífinu og vonandi færa okkur frá því að vera fyrst og fremst auðlindadrifið hagkerfi í að verða meira hugvitsdrifið hagkerfi. En þegar kemur að rannsóknum og nýsköpun geta núverandi stoðir atvinnulífsins skipað stóran sess. Þannig hefur á síðustu árum nýsköpunarfyrirtækjum sem tengjast sjávarútvegi fjölgað mikið. Bæði eru það fyrirtæki sem fullnýta hráefnið og vinna, t.d. læknavörur og fæðubótarefni úr hráefni sem áður var fleygt. Einnig fyrirtæki sem þróa hugbúnað, veiðarfæri og framleiðslukerfi fyrir fiskvinnslur. Ísland á tækifæri til að verða einskonar kísildalur sjávarútvegs í heiminum.
Það sem er að gerast á norðurslóðum gefur okkur líka tækifæri til að verða leiðandi í rannsóknum, vísindum og tækniyfirfærslum á málefnum tengdum norðurslóðum, þá sérstaklega umhverfismálum og málefnum hafsins. Ísland getur leitt saman vísindamenn alls staðar að úr heiminum. Stundum flækjast stjórnmálin fyrir vísindunum, sem þau eiga auðvitað ekki að gera, en er þó staðreynd oft á tíðum. Hér á landi gætum við búið til hlutlausan vettvang rannsókna á málefnum tengd norðurslóðum. Þátttaka okkar í Norðurslóðaráðinu er lykillinn að þessu og formennska okkar í ráðinu eykur möguleika á því að leiða saman ólíka aðila til samstarfs á þessum vettvangi. Ísland hefur alla burði til að verða vagga rannsókna, vísinda og nýsköpunar í málefnum tengd norðurslóðum.
Okkur gengur vel en verkefnin eru og verða ærin en tækifærin eru líka næg.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. mars 2019.