Skattar verða lækkaðir á heimili og fyrirtæki, skuldir ríkissjóðs lækkaðar enn frekar, Þjóðarsjóði komið á fót, fæðingarorlof lengt í 12 mánuði og átak gert í samgönguframkvæmdum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2020 til 2024. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, kynnti fjármálaáætlunina í dag (23. mars 2019).
Fjármálaáætlunina má finna í heild sinni hér.
Fjármálaáætlunin endurspeglar sterka stöðu og festu í stjórn opinberra fjármála og vegur þungt í því mikilvæga verkefni opinberra fjármála, peningastefnunnar og vinnumarkaðarins að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og hagsæld landsmanna nú þegar tekið er að hægja á takti hagkerfisins.
Fæðingarorlof lengt í 12 mánuði
Í megindráttum eru útgjöld málefnasviða með svipuðu sniði og í fjármálaáætlun fyrir árið 2019 til 2023 en með sérstökum ráðstöfunum, almennu aðhaldi og viðbótararðgreiðslum hefur skapast svigrúm til að auka framlög til nokkurra málaflokka í áætluninni.
Meðal annars má nefna:
- Fæðingarorlof lengt í 12 mánuði
- Stofnframlög til almennra íbúða hækkuð
- Fjórum milljörðum til viðbótar varið á ári til samgönguframkvæmda
- Framlög til nýsköpunar aukin verulega
- Fjárfest fyrir ríflega 74 milljarða í sjúkrahúsþjónustu á tímabilinu
- Aukin framlög til byggingar nýrra hjúkrunarrýma
- Nýtt námsstyrkjakerfi kynnt til sögunnar með breytingum á námslánakerfinu
- Nýtt hafrannsóknarskip smíðað á áætlunartímabilinu
Lesa má nánar um útfærslu ofangreindra atriða á vef Stjórnarráðsins.
Stutt við gerð ábyrgra kjarasamninga
Á hagvaxtartímabilinu sem nú hefur varað samfellt frá árinu 2011 hafa launahækkanir skilað heimilum meiri kjarabótum en nokkru sinni fyrr. Þær hafa hins vegar leitt til hækkunar launakostnaðar umfram það sem hefur verið í helstu viðskiptalöndum Íslands og þar með skert verulega samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.
Allt bendir til að frekari launahækkanir við þessar aðstæður leiði til verðbólgu og aukins atvinnuleysis og hafa stjórnvöld lagt fram ýmsar tillögur sem ætlað er að styðja við gerð ábyrgra kjarasamninga.
Stefnt er að auknum stuðningi við byggingu húsnæðis fyrir lágtekjufólk og við fyrstu kaupendur á húsnæðismarkaði í ljósi hækkana húsnæðis- og leiguverðs umfram launaþróun í landinu undanfarin ár. Einnig felast lífskjarabætur í hækkun fæðingarorlofsgreiðslna og lengingu fæðingarorlofs sem ríkisstjórnin stefnir á að taki gildi á kjörtímabilinu.
Áframhaldandi skattalækkanir á almenning og fyrirtæki
Á undanförnum árum hefur hagur þeirra sem á mestri aðstoð þurfa á að halda verið bættur með breytingum á bóta- og skattkerfum, en breytingarnar hafa að sama skapi auðveldað atvinnulífinu að standa undir því háa launahlutfalli sem einkennir íslenskan atvinnurekstur.
Frá 2014 hefur tekjuskattur á millitekjur lækkað um rúmlega þrjú prósentustig í þremur skrefum, 2014, 2015 og 2017. Framundan eru frekari breytingar á tekjuskatti einstaklinga, sem beinast að því að auka verulega ráðstöfunartekjur heimila, einkum þeirra tekjulægstu.
Fyrsti áfangi þessara ráðstafana tók gildi um síðustu áramót þegar persónuafsláttur hækkaði um eitt prósentustig til viðbótar við lögbundna verðlagshækkun og 3,7 prósent hækkun þrepamarka. Áhrif fyrsta áfangans eru hagstæðari tekjulægri hópum en þeim tekjuhærri.
Í febrúar 2019 kynnti Bjarni Benediktsson fyrirætlanir um veigamiklar breytingar til lækkanir á tekjuskatti einstaklinga. Meðal þeirra er innleiðing á nýju lægsta þrepi og breytingar á viðmiði þrepamarka og persónuafsláttar. Markmiðið er að koma sérstaklega til móts við tekjulægstu hópana á vinnumarkaði.
Áætlunin g.r.f. að seinni hluti 0,5% lækkunar tryggingagjalds komi til framkvæmda á árinu 2020, en gjaldið var lækkað um 0,25% í upphafi þessa árs. Lækkuninni er ætlað að styrkja rekstrarforsendur og samkeppnishæfni fyrirtækja og gefa þeim aukið svigrúm í rekstri, m.a. til að koma til móts við launakröfur.
Gert er ráð fyrir að bankaskattur verði lækkaður í fjórum áföngum yfir tímabilið 2020 til 2023, úr 0,376% í 0,145%, en ætla má að áhrifin af lækkuninni veiti bönkunum svigrúm til að lækka útlánavexti. Slík bætir afkomu heimila og rekstrarumhverfi fyrirtækja.
Áformaðar skattkerfisbreytingar á árunum 2020 til 2024:
- Breytingar á tekjuskatti einstaklinga fela í sér nýtt lægsta þrep, breytt vísitöluviðmið persónuafsláttar, skattleysismarka og þrepamarka og brottfall á samnýtingu skattþrepa sambúðaraðila
- Endurskoðun á stofni fjármagnstekjuskatts með hliðsjón af möguleikum á að skattleggja raunávöxtun
- Lækkun bankaskatts úr 0,376% í 0,145% í fjórum áföngum
- Breytingar á skattlagningu höfundaréttargreiðslna sem verða álitnar staðgreiðsluskyldar fjármagnstekjur
- Breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis