Borgin hefur vanrækt viðhald

Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Talið er að það kosti að jafnaði 4 krón­ur að fresta eðli­legu viðhaldi upp á 1 krónu. Það er því skamm­góður verm­ir að fresta því að gera við. Verm­ir jafn­vel enn skem­ur en þegar pissað er í skó­inn sinn sér til hita. Van­rækt viðhald er ekk­ert annað en dýrt lán á vöxt­um. Nú hef­ur komið fram að skólastarf í Foss­vogs­skóla hef­ur rask­ast og húsið verið rýmt. Raka­skemmd­ir og myglu er að finna í mörg­um öðrum bygg­ing­um borg­ar­inn­ar. Meðvituð ákvörðun um að fresta viðhaldi var tek­in fyr­ir átta árum síðan. Þessi frest­un sparaði borg­inni marga millj­arða, en sam­kvæmt þekktri reikni­reglu má segja að þetta sé eitt dýr­asta lán sem hægt er að taka. Ef þakið lek­ur og ekki er gert við það fylgja raka­skemmd­ir, fúkki og mygla ásamt óskemmti­leg­um fylgi­fisk­um með til­heyr­andi van­líðan. Á sama tíma og sparað var í viðhaldi í skóla­bygg­ing­um var ákveðið að fjár­festa í bragg­an­um í Naut­hóls­vík og öðrum ólög­bundn­um gælu­verk­efn­um á borð við pálma­tré í gleri.

Eft­ir höfðinu dansa lim­irn­ir

Sama á við um dótt­ur­fé­lög borg­ar­inn­ar. Fé­lags­bú­staðir hafa van­metið viðhaldsþörf íbúða í eigu fé­lags­ins. Ný­lega leiddi út­tekt innri end­ur­skoðunar Reykja­vík­ur­borg­ar í ljós að viðgerðir á íbúðum í Írabakka fóru 330 millj­ón­um fram úr áætl­un. Hætta er á að viðhaldsþörf annarra íbúða í eigu fé­lags­ins sé van­met­in. Fræg­asta dæmið er þó aðal­stöðvar Orku­veitu Reykja­vík­ur, hús sem talið er nær ónýtt. Enn er óljóst hvað olli þessu gríðarlega tjóni en viðhaldi kann að vera um að kenna. Við sjá­um dæmi um vanda­mál með frá­veitu, kalda vatnið og nú síðast skort á heitu vatni. Ljóst er að teflt er á tæp­asta vað í end­ur­nýj­un innviða og viðhaldi. Það er akkúrat eng­inn sparnaður í því að fresta nauðsyn­legu viðhaldi. Þvert á móti er ámæl­is­vert að trassa það. Foss­vogs­skóli er skóla­bók­ar­dæmi um það. Við það bæt­ist svo vandi for­eldra, barna og kenn­ara, þegar skóla­húsið er ekki til staðar, og sá kostnaður sem fylg­ir at­vinnu­tapi þeirra for­eldra sem verða að vera heima með börn­un­um vegna þessa. Þörf er á heild­ar­út­tekt á viðhaldi borg­ar­inn­ar og höf­um við lagt til að hún fari fram. Fyrst þarf að kanna ástandið á skóla­hús­næði borg­ar­inn­ar og svo öllu hús­næði borg­ar­inn­ar. Í ljós hef­ur komið að fyr­ir­liggj­andi út­tekt­ir hafa ekki verið í lagi. Heil­brigðis­eft­ir­litið gaf hús­næði Foss­vogs­skóla næst­hæstu ein­kunn í út­tekt sinni í nóv­em­ber. Þrem­ur mánuðum síðar er það talið óhæft til kennslu. Það kann víðar að vera mygla í mos­an­um hjá borg­inni.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. mars 2019.