Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Í kjaraviðræðunum hefur verið leitað eftir stuðningi ríkisins. Talað hefur verið um lækkun skatta og stuðning í húsnæðismálum. Þegar horft er til umsvifa Reykjavíkurborgar er ljóst að borgin er í hvað bestum færum að auka kaupmátt og létta byrðar á húsnæði. Borgin tekur meira til sín af launum fólks en ríkið. Það er staðreynd sem mikilvægt er að hafa í huga. Nágrannasveitarfélögin taka öll minna til sín en borgin. Við leggjum til lækkun á útsvar sem nemur 84 þúsund krónum á heimili á ári þegar miðað er við meðallaun og tvær fyrirvinnur. Þá hefur Reykjavík algera sérstöðu með Orkuveitunni og getur létt heimilisreksturinn með því að lækka gjaldskrá. Við leggjum til lækkun sem nemur 36 þúsund krónum á ári. Báðar tölurnar eru eftir skatta og þyrftu tekjur að vera 200 þúsund krónum hærri fyrir skatta til að skila sama ávinningi.
Hagstæðara húsnæði
Þá er ljóst að ríkið hefur ekki skipulagsvaldið, en borgin hefur vanrækt að skipuleggja lóðir fyrir hagstætt húsnæði. Við leggjum til að farið verði í að skipuleggja Keldnalandið fyrir stofnanir, fyrirtæki og hagstætt húsnæði án fyrirvara. Núverandi stefna hefur leitt til dreifingar byggðar, enda hefur meiri fjölgun verið á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu vegna þessarar stefnu. Hagstætt byggingarland í Reykjavík léttir á húsnæðismarkaðnum, ekki síst hjá fyrstu kaupendum en ungt fólk býr í vaxandi mæli heima hjá foreldrum vegna húsnæðisvandans. Betri byggingarvalkostir í Reykjavík munu líka létta á umferðinni, en í dag hafa stofnanir og fyrirtæki farið t.d. í Kópavog og íbúar flutt í Árborg og Mosfellsbæ. Uppbygging á hagstæðum svæðum í Reykjavík myndu því létta á umferðinni, en hún hefur þyngst umtalsvert vegna núverandi stefnu. Allt þetta léttir á íbúum. Allt þetta er gerlegt. Það sem það eina sem þarf er viljinn. Við leggjum fram tillöguna. Nú er í höndum borgarstjórnar að taka hana áfram.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. mars 2019.