Óli Björn Kárason alþingismaður:
Kjarabarátta getur ekki snúist um að rýra kjör þeirra sem standa ágætlega. Markmiðið er að bæta kjör alls launafólks og þá fyrst og síðast þeirra sem lakast standa. Barátta fyrir auknum tækifærum þeirra sem eru á lægstu laununum er réttlát barátta. Hugmyndir um hvernig hægt er að auka ráðstöfunartekjur almennings með breytingum á skattkerfinu, eru eðlilegur og nauðsynlegur hluti af kjarabaráttu. Forystumenn launafólks eiga að hafa skoðun á uppbyggingu skattkerfisins – það er hlutverk þeirra. Skattkerfi og lífskjör verða ekki aðskilin.
Hagsmunir launafólks gagnvart ríkisvaldinu eru margþættir. Að ríkisvaldið gæti hófsemdar í skattheimtu á fyrirtæki ræður miklu um svigrúm þeirra til að greiða hærri laun. Ráðstöfunartekjur ráðast af því hversu miklu launamaðurinn heldur eftir af launum sínum eftir að skattar og gjöld hafa verið greidd. Þess vegna skiptir tekjuskattskerfið miklu. Með einu pennastriki er hægt að éta upp launahækkanir í formi breytinga á sköttum og bótum. Með sama hætti getur ríkið – löggjafinn – ákveðið að sníða skattkerfið þannig að dregið sé úr jaðarskattheimtu og hætt að refsa launafólki fyrir að bæta sinn hag. Þannig eru ráðstöfunartekjur auknar.
En ríkið situr ekki eitt um launin. Sveitarfélögin taka sinn skerf og raunar stærri sneið af launum landsmanna en ríkissjóður. Meirihluti sveitarfélaga leggur á hámarksútsvar, sem er þungur baggi, ekki síst fyrir láglaunafólk. Í Reykjavík er útsvarsprósentan í hámarki. Reykjavíkurborg gæti bætt hag tugþúsunda launamanna með því að lækka útsvarið.
Vandrataður vegur
Ríkisvaldið hefur reglulega komið með óbeinum hætti að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Reynt hefur verið að leysa hnútinn eða liðka fyrir samningum með ýmsum hætti. Sköttum hefur verið breytt, bætur hækkaðar o.s.frv. Oft hefur góður vilji ríkisvaldsins hins vegar leitt til þess að aðilar vinnumarkaðarins hafa freistast til að gera samninga sem lítil innistæða er fyrir. Afleiðingarnar þekkja allir, ekki síst þeir sem lægstu tekjurnar hafa.
Vegurinn sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þarf að feta til að „liðka“ fyrir kjarasamningum er vandrataður. En það er ekkert óeðlilegt og langt í frá einsdæmi að verkalýðshreyfingin leggi fram hugmyndir um til hvers er ætlast af ríkisvaldinu. Engu skiptir hvort slíkar hugmyndir eru kallaðar kröfur, óskir eða tillögur. Þetta eru hugmyndir sem þarf að ræða og taka afstöðu til – ekki undir hótunum heldur af yfirvegun og sanngirni. Fyrr eða síðar þurfum við sem sitjum á Alþingi að hafa burði til að taka afstöðu m.a. til hugsanlegra skattkerfisbreytinga, breytinga á bóta- og stuðningskerfum og á skipulagi húsnæðismála.
Það er jafn eðlilegt að verkalýðshreyfingin setji fram tillögur í skattamálum og að atvinnurekendur berjist fyrir hugmyndum (kröfum) um að skattar á atvinnurekstur séu lækkaðir og regluverk allt einfaldað.
Vitlausir hvatar
Ég er sammála þeim forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar sem halda því fram að tekjuskattskerfi einstaklinga sé ranglátt og að hvatar kerfisins séu vitlausir. Launafólki er oft refsað fyrir að bæta sinn hag. Við eigum samleið í baráttunni um að lækka skatta á venjulegt launafólk. Ég hef lagt fram ákveðnar tillögur um kerfisbreytingu, en þær eru langt í frá að vera þær einu sem gætu verið skynsamlegar.
En ég á hins vegar enga samleið með þeim sem telja nauðsynlegt að láta kjarabaráttu snúast um að rýra kjör annarra. Hugmyndir um margþrepa tekjuskatt með sérstöku hátekjuþrepi 55% (og jafnvel hærra) er dæmi um hvernig höfð eru endaskipti á hlutunum. Kjarabaráttan sem miðar að því að jafna lífskjör niður á við leiðir okkur í efnahagslegar ógöngur. Markmiðið á að vera að jafna upp á við – lyfta þeim upp sem lökust hafa kjörin – létta undir með þeim og fjölga tækifærunum.
Tvær stoðir eignamyndunar
Rauði þráðurinn í hugsjónum mínum – í ræðu og riti – er sú sannfæringin að gera eigi sem flestum kleift að verða eignamenn. Ég lít svo á að stjórnmálamanna hafi fáar mikilvægari skyldur en að stuðla að fjárhagslegu öryggi einstaklinga og fjölskyldna. Hið sama á við um verkalýðshreyfinguna og forystumenn hennar. Fjárhagslegt sjálfstæði íslensks launafólks á að vera eitt helsta baráttumálið.
Þess vegna eru það vonbrigði hve lítil umræða er um hvernig fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga og fjölskyldna er best tryggt. Eignamyndun íslensks launafólk hefur fyrst og fremst byggst á tveimur meginstoðum; á lífeyrisréttindum og á verðmæti eigin húsnæðis. Ég óttast að áhersla verkalýðsforystunnar á uppbyggingu félagslegs húsnæðis í formi leigu kippi annarri meginstoðinni undan eignamyndun launafólks, ekki síst þeirra sem lægstu launin hafa. Um leið er valfrelsi í húsnæðismálum skert en ekki aukið. Hættan er sú að millistéttin og launamenn með lágar tekjur verði leiguliðar og aðeins hinir efnameiri búi í eigin húsnæði.
Verkalýðshreyfingin hefur með réttu ítrekað nauðsyn þess að gengið sé hreint til verks við að leysa þann vanda sem glímt er við í húsnæðismálum. Ríki og sveitarfélög leika þar lykilhlutverk. Ríkið getur endurhannað allt regluverkið þannig að raunhæft sé að byggja ódýrar íbúðir. Sveitarfélögin geta lagt sitt af mörkum með því að tryggja nægjanlegt framboð af lóðum á verði sem er ekki ofviða venjulegum Íslendingi.
Hið opinbera má hins vegar ekki búa til fjárhagslegar þumalskrúfur til að neyða launafólk til að „velja“ búsetuform í samræmi við pólitískan rétttrúnað. Auðvitað vilja ekki allir eignast eigið húsnæði – sumir velja leigu. Með sama hætti og enginn hefur rétt til þess að neyða þann sem vill leigja til að ráðast í íbúðakaup, má ríkisvaldið, verkalýðshreyfingin eða atvinnurekendur, aldrei taka sér það vald að beina einstaklingum og fjölskyldum inn á leigumarkaðinn með fjárhagslegum þvingunum. Raunverulegt valfrelsi í húsnæðismálum er eitt stærsta hagsmunamál launafólks.
Tækifæri í minni hagvexti
Við Íslendingar höfum notið gríðarlegs uppgangs efnahagslífsins síðustu ár. Tímabil mikils hagvaxtar er hins vegar að baki. Í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 1,8% á þessu ári. Þetta er minnsti vöxtur frá 2012 og töluvert minni en áður hafði verið reiknað með. Frá 2012 hefur hagvöxtur verið að meðaltali nærri 4,5% á ári. Umskiptin ættu því að vera öllum augljós ekki síst þeim sem sitja við samningaborð vinnumarkaðarins.
Aukinn slaki í efnahagslífinu er áskorun sem þarf að mæta en um leið gefst ríki og sveitarfélögum tækifæri til að slaka á klónni. Lækkun tekjuskatts og útsvars einstaklinga er skynsamleg og hleypir auknu súrefni inn í efnahagslífið. Hið sama á við um lækkun skatta á fyrirtæki. Umskiptin í hagkerfinu skapa svigrúm fyrir ríkið til að ráðast í arðbærar innviðafjárfestingar sem meðal annars er hægt að fjármagna með því að umbreyta eignum (m.a. í fjármálakerfinu) í samfélagslega innviði. Sé rétt á málum haldið er því hægt að nýta minni spennu í efnahagslífinu til að leggja grunn að nýju hagvaxtartímabili.
Ein krafa sem atvinnurekendur og launafólk ættu að sameinast um er að komið verði á stöðugleika í skattkerfinu, jafnt er snýr að fyrirtækjum sem almenningi. Ég lít á það sem samstarfsverkefni stjórnvalda – þingmanna og ríkisstjórnar – og aðila vinnumarkaðarins að marka stefnu í skattamálum til langs tíma. Þar skiptir mestu að hugað sé að samkeppnishæfni landsins, jafnt atvinnulífsins og heimilanna.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar 2019.