#brúumbilið

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi:

Þeir foreldrar sem hyggja nú á vinnumarkað í kjölfar fæðingarorlofs eru í vanda. Umræðan sprettur upp árlega og aldrei virðist ástandið batna. Í Reykjavík ríkir gríðarlegt úrræðaleysi fyrir börn á aldrinum 9-18 mánaða. Við njótum góðs af þjónustu dagforeldra, en þjónustan annar ekki eftirspurn. Litlar framfarir verða í daggæslu- og leikskólamálum enda virðast borgaryfirvöld treysta á þá staðreynd að foreldrar barnanna staldri stutt við í þrýstihópnum. Börn eldast og í hvert sinn sem vandinn skýtur upp kollinum tilheyra aðrir og nýir foreldrar þessum hópi.

Það er skortur á dagforeldrum í borginni og leikskólavist nær ómöguleg hugmynd fyrir 18 mánaða aldur. Fjölmargir foreldrar ílengjast frá vinnu eftir fæðingarorlof – sem er fjárhagslega íþyngjandi fyrir fjölskyldufólk og sligandi óvissa fyrir flesta. Þrátt fyrir mikinn árangur í jafnréttisbaráttunni taka konur enn meiri ábyrgð á umönnun barna. Dagvistunarvandi lendir því oftar á konum og dregur úr framgangi þeirra á vinnumarkaði. Það hefur aftur áhrif á launaþróun og ýtir undir kynbundinn launamun. Samfélagið verður að leggja sitt af mörkum við lausn þessa vanda.

Einkaframtakið gæti tekið enn myndarlegri þátt í lausn leikskólavandans, ef borgin myndi bara ryðja veginn fyrir þá sem vilja sækja fram. Í borginni eru þegar starfandi einkareknir leikskólar sem gjarnan hafa verið leiðandi í framþróun leikskólastarfs. Þeir hafa mætt eftirspurn sem borgaryfirvöld gátu ekki mætt. Leggjum ekki stein í götu þeirra sem vilja skapa verðmæti úr góðum og gagnlegum hugmyndum.

Við verðum að brúa bilið – lengja fæðingarorlof og hækka þak á orlofsgreiðslur. Skapa umhverfi sem hvetur báða foreldra til töku orlofs. Að fæðingarorlofi slepptu verða börn að eiga daggæslu vísa – og foreldrar að eiga val um daggæslukosti. Við verðum að efla bæði leikskólastigið og dagforeldrastigið. Leysa mannekluvanda leikskólanna og draga úr brottfalli dagforeldra. Veita einkaframtakinu aukið svigrúm, svo svara megi eftirspurn eftir framsækinni leikskólaþjónustu.

Þetta eru jafnréttismál – þetta eru forgangsmál.

Greinin birtist á frettabladid.is 15. febrúar 2019.