Fjölmennur fundur þingflokks á Laugarbakka
'}}

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hélt sinn fyrsta fund á hringferð um landið á Laugarbakka í Húnaþingi vestra í dag. Fjölmenni var á fundinum og góðar umræður um málefni líðandi stundar, málefni héraðsins og um landsmálin.

Fjölmörg mál komu til umræðu á fundinum, landbúnaðarmál, búvörusamningar, samgöngumál, umhverfismálin, fjármálakerfið, ferðamál, atvinnumál almennt, fjarskipti, skólamál, innviðamál o.fl.

Þetta er í fyrsta skipti sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ferðast allur saman í kjördæmi landsins í kjördæmaviku Alþingis. Þingflokkurinn mun í ferð sinni heimsækja alls um 50 staði á landinu, ýmist með opna fundi eða vinnustaðaheimsóknir.

Fundirnir eru með óformlegra sniði en oft áður þar sem lögð er áhersla á að skapa umhverfi fyrir spjall milli þingmanna flokksins og heimamanna á hverjum stað um það sem skiptir máli, stjórnmálin, atvinnulíf og mannlíf. Ekkert verður undanskilið og bæði horft til þess sem varðar nærsamfélagið og landið allt.

Nú í eftirmiðdegið mun þingflokkurinn heimsækja vinnustaði á Blönduósi og Skagaströnd og funda á Sauðárkróki kl. 17:30 í Félagsheimilinu Ljósheimum.

Dagskrá ferðarinnar má finna á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins hér þar sem einnig verða birtar fréttir úr hringferðinni sem og á samfélagsmiðlum.