Óli Björn Kárason alþingismaður:
Samfélagið í Venesúela er komið að hruni eftir áralanga óstjórn og spillingu sósíalista. Efnahagslífið er í rúst. Landsframleiðslan hefur dregist saman um nær helming frá 2013. Verðbólga er yfir milljón prósent, skortur er á flestum nauðsynjum; mat, neysluvatni, lyfjum og rafmagni. Einn af hverjum tíu íbúum landsins hefur flúið til annarra landa. Þrátt fyrir rjúkandi rústirnar ætlar Nicolás Maduro, forseti landsins, að halda áfram og mætir andstöðu af hörku.
Sósíalistar náðu völdum í Venesúela þegar Hugo Chavez var kjörinn forseti árið 1998 með ágætum meirihluta atkvæða. Hann var í upphafi vinsæll. Lofaði nýjum og betri tímum. Chavez var byltingarmaður sem barðist fyrir lýðræðislegum sósíalisma 21. aldarinnar. Venesúela býr yfir gríðarlegum olíuauðlindum – þeim mestu í heiminum. Í upphafi nutu Chavez og ríkisstjórn hans þess að olíuverð var hátt og tekjurnar streymdu inn í landið.
Til að koma á sósíalísku skipulagi 21. aldarinnar taldi forsetinn nauðsynlegt að hafa alla þræði í sinni hendi; löggjafann, dómstólana og framkvæmdavaldið að ógleymdum hernum. Í reynd var þrískiptingu ríkisvaldsins hent út í hafsauga. Dómstólar voru hreinsaðir og hæstiréttur skipaður þeim sem eru stjórnvöldum þóknanlegir og þjóðþingið gert valdalítið. Komið var á sérstöku stjórnlagaþingi sem afgreiddi nýja stjórnarskrá sem Chavez var sérlega stoltur af.
Lagt var til atlögu við einkafyrirtæki. Þúsundir fyrirtækja voru þjóðnýttar í nafni lýðræðislegs sósíalisma. Eignarrétturinn var virtur að engu. Þannig var hægt og bítandi grafið undan stoðum efnahagslífsins. Nú er svo komið að efnahagslegt frelsi í Venesúela er minna en í nokkru öðru ríki Suður-Ameríku. Frelsið er minna en á Kúbu og litlu meira en í Norður-Kóreu samkvæmt árlegri úttekt Heritage-stofnunarinnar.
Eitt ríkasta land heims
Um 1950, þegar flest lönd heimsins voru að jafna sig eftir hrylling seinni heimsstyrjaldarinnar, var Venesúela meðal ríkustu landanna. Landsframleiðsla á mann var sú fjórða mesta í heiminum. Landið var tvisvar sinnum auðugra en Síle, fjórum sinnum ríkara en Japan og 12 sinnum auðugra en Kína. Árið 1982 var Venesúela enn auðugasta land Suður-Ameríku, en síðan hefur hallað undan fæti.
Á hverju einasta ári frá 2014 hefur efnahagur Venesúela dregist saman og á síðasta ári um liðlega 16%. Og á þessu ári reikna sérfræðingar með enn meiri samdrætti.
Verðbólga er fyrir löngu komin úr böndunum. Undir lok síðasta árs tvöfaldaðist verðlag á 19 daga fresti. Alþjóðastofnanir áætla að raunverðbólga sé um og yfir milljón prósent á ári. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að verðbólga geti farið yfir 10 milljónir prósenta á næstu mánuðum. Í ágúst á liðnu ári ákvað ríkisstjórn sósíalista að klippa fimm núll aftan af gjaldmiðlinum.
Samkvæmt rannsókn þriggja háskóla í Venesúela berjast 80% heimila við daglegt mataróöryggi – árið 2017 léttust landsmenn að meðaltali um 11 kíló. Um 17% barna eru vannærð. Háskólarnir hafa unnið að lífskjararannsóknum frá 2014 undir heitinu Encovi (Encuesta de Condiciones de Vida) og ná til um 6.200 einstaklinga um land allt. Sex af hverjum tíu hafa farið hungraðir að sofa þar sem þeir hafa ekki haft efni á mat.
Alvarlegt bakslag hefur orðið í heilbrigðismálum. Staðan hefur ekki verið verri í áratugi. Nú er að nýju barist við malaríu, berkla, mislinga og barnaveiki.
Ólíkt nágrannaríkjunum hefur malaríutilfellum fjölgað verulega í Venesúela. Það er af sem áður var þegar landið var í fararbroddi í baráttunni við malaríu en árið 1961 tókst að útrýma sjúkdómnum. Ástandið versnar stöðugt þar sem skortur er á lyfjum. Jose Felix Oletta, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, hefur spáð því að ástandið eigi enn eftir að versna og segir það orðið svipað því sem það var í upphafi 20. aldarinnar.
Tekið til fótanna
Nicolás Maduro tók við forsetaembættinu árið 2013, eftir að Chavez féll frá. Hann hélt embættinu eftir sýndarkosningar á síðasta ári. Í skjóli hæstaréttar og hersins stjórnar Maduro landinu með forsetatilskipunum. Spilling er landlæg á öllum stigum stjórnkerfisins.
Frá 2014 hafa yfir 13 þúsund manns verið handtekin í mótmælum gegn stjórnvöldum. Um 7.500 hafa verið leyst úr haldi en eiga enn yfir höfði sér saksókn. Þvert á alþjóðalög hafa 800 óbreyttir borgarar verið dregnir fyrir herdómstól frá 2017. Í liðinni viku féllu 26 manns í mótmælum og Sameinuðu þjóðirnar vara við því að ástandið verði stjórnlaust.
Eins og oft áður hafa óbreyttir borgarar tekið til fótanna til að komast burt úr draumaríki sósíalismans sem einkennist af hungri, lyfjaskorti, atvinnuleysi og vaxandi ofbeldi. Á fjórðu milljón íbúa hafa flúið land á síðustu árum.
Meirihluti þeirra sem hafa flúið land hafa leitað til Kólumbíu, en einnig hafa margir farið til Ekvador, Perú og Síle. Í könnun sem gerð var í lok árs 2017 sagðist um helmingur íbúa á aldrinum 18 til 29 ára vilja yfirgefa landið og 55% millistéttarinnar áttu sér þann draum að komast í burtu.
Enn eitt draumaríkið fallið
Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hefur lýst því yfir að hann hafi tekið tímabundið við embætti forseta af Nicolás Maduro. Hann nýtur stuðnings þjóðþingsins.
Bandaríkin, fleiri en 12 ríki Suður-Ameríku og Kanada hafa þegar lýst yfir stuðningi við Guaidó. Um helgina lýstu ríkisstjórnir Spánar, Þýskalands, Frakklands og Bretlands því yfir að þau myndu viðurkennda Guaidó sem forseta ef ekki yrði boðað til nýrra forsetakosninga innan átta daga.
Boðað hefur verið til allsherjarverkfalls í Venesúela í dag. Með því ætla Guaidó og fylgismenn hans að auka þrýstinginn á herinn. Stuðningur hersins er forsenda þess að Maduro geti setið áfram í embætti en herinn hefur stutt stjórn sósíalista allt frá því að Hugo Chavez komst til valda.
Enn eitt draumaríki sósíalismans hefur breyst í martröð – auðlegð hefur orðið að örbirgð alþýðunnar. Margir vinstri menn á Vesturlöndum létu glepjast, ekki síst stjórnmálamenn og menntamenn. Noam Chomsky, Jeremy Corbyn og Jesse Jackson voru í hópi aðdáenda. Í borg kvikmyndanna, Hollywood, var Chavez hafinn upp til skýjanna. Sean Penn, Oliver Stone, Michael Moore og Danny Glover létu blekkjast. Nú er þögn þeirra æpandi.
Hrun samfélagsins í Venesúela mun að líkindum ekki sannfæra hina heittrúuðu um að sósíalisminn sé vegurinn til glötunar. Að tilraunin í Venesúela hafi mistekist er ekki sósíalismanum að kenna, heldur kom alþjóðlegt samsæri (undir forystu Bandaríkjanna) í veg fyrir að draumaríkið fengi að lifa og dafna. Og þess vegna verður enn ein tilraunin gerð.
Hvaða land verður fyrir valinu?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. janúar 2019.