Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
„Ég held bara með fótboltanum.“ Þetta segir yngri bróðir minn stundum þegar hann horfir á fótboltaleik án þess að halda með öðru hvoru liðinu. Honum er þá mest umhugað um að leikurinn sé góður, leikmenn beggja liða sýni góða takta, fái nóg af færum og skori mörk á báða bóga. Hvort hann fagnar tilteknu marki fer aðallega eftir því hvort markið var „gott fyrir leikinn“, eins og sagt er. Ef annað liðið kemst yfir vill hann að hitt jafni sem fyrst. Síst af öllu vill hann að annað liðið nái algjörum yfirburðum. Það væri ekki gott fyrir leikinn og myndi sennilega eyðileggja hann.
Frábær árangur
Kjarasamningar eru viðureign þar sem mikilvægt er að báðir skori. Það er best fyrir leikinn. Hagsmunir allra eru að hvorugur tapi. Til að tryggja þetta er auðvitað frumskilyrði að það liggi fyrir hver staðan er.
Einn mikilvægur mælikvarði á stöðuna er hversu stór hluti virðisaukans sem til verður í landinu fer í vasa vinnandi fólks og hversu stór hluti fer í vasa þeirra sem eiga fyrirtækin og fjármagnið. Á þennan mælikvarða er íslenskt vinnuafl heimsmeistari í OECD-deildinni. Hér fer um 63% virðisaukans til launafólks en 37% til þeirra sem eiga fyrirtækin og fjármagnið. Í þeirri ábendingu felst engin afstaða til þess hvaða hlutfall er sanngjarnt. Hér er eingöngu bent á það er hvergi hærra en hér. Í mörgum OECD-löndum fær launafólk aðeins um helming virðisaukans og sums staðar jafnvel minna en þriðjung.
Ísland er ótvíræður Norðurlandameistari í kaupmáttaraukningu á árunum 2014-2017 og vinnur það mót með allmiklum yfirburðum. Það segir sitt um stöðuna.
Sem og það að á Íslandi eru bæði meðallaun og lægstu laun með þeim allra hæstu sem þekkjast í heiminum.
Fleiri alþjóðlegir titlar
Gylfi Zoega benti á það á liðnu ári, í greiningu sinni á stöðu efnahagsmála í aðdraganda kjarasamninga, að fátækt hér væri lítil í alþjóðlegum samanburði; hlutfall þeirra sem hefðu innan við 50% af miðtekjum hefði verið 6,5% á Íslandi árið 2014 en til samanburðar 9% í Svíþjóð, 10,5% á Bretlandi og 17,5% í Bandaríkjunum.
Tölur Hagstofunnar sýna okkur að Ísland er Evrópumeistari í tekjujöfnuði, mælt á gini-stuðul.
Þá sýna tölur OECD að munurinn á þeim sem eru nálægt hæstu tekjum annars vegar (lægstir í hópi 10% tekjuhæstu) og þeim sem eru nálægt lægstu tekjum hins vegar (hæstir í hópi 10% tekjulægstu) er næstminnstur hér á landi. Við erum því silfurverðlaunahafar í OECD-deildinni hvað þetta varðar, næst á eftir Danmörku. Munurinn er u.þ.b. þrefaldur hér á meðan algengur munur í öðrum OECD-löndum er fjórfaldur og fimmfaldur og þaðan af meiri.
Viðkvæm staða
Við verðum að verja ofangreindan árangur og hann sýnir að það er ekki tilefni til að skipta um kúrs með róttækum hætti. Ennþá síður í ljósi þess hve viðkvæm staðan er. Óvenjulegar aðstæður hafa valdið því að launahækkunum undanfarinna ára hefur ekki fylgt verðbólga og viðskiptahalli með tilheyrandi gengissigi og enn meiri verðbólgu, sem rýrt hefði kaupmátt. Ein meginástæðan fyrir þessu er vöxtur ferðaþjónustunnar, sem hefur styrkt gengi krónunnar og þannig lækkað verð innfluttra vara. Nú er hins vegar farið að draga verulega úr vexti hennar. Þá eru blikur á lofti í flugrekstri eins og allir vita. Ferðaþjónustan er auk þess mannaflsfrek atvinnugrein og því munu launahækkanir hafa meiri áhrif á samkeppnishæfni hennar en annarra stærstu útflutningsgreina okkar. Staðan er því viðkvæm og vandséð að sömu þættir og áður geti gefið okkur skjól fyrir verðbólgu í annað sinn.
Höldum með knattspyrnunni
Ekkert af þessu breytir því að við leggjum öll áherslu á að lífskjör haldi áfram að batna. Samtök launafólks eiga að sjálfsögðu að sækja þær fast. Það verður hins vegar að vera innistæða fyrir þeim.
Stjórnvöld halda ekki með öðru liðinu umfram hitt í þessari viðureign. Stjórnvöld halda einfaldlega með knattspyrnunni. Það er að segja: Við höldum með verðmætasköpun, hagvexti, bættum lífskjörum og auknum kaupmætti alls almennings.
Til að þetta markmið náist má hvorugur aðilinn valta yfir hinn. Það myndi eyðileggja leikinn.
Greinin birtist fyrst í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 13. janúar 2019.