Hagsmunagæsla Íslands í Brussel efld verulega
'}}

Íslendingar munu efla hagsmunagæslu sína í EES-samstarfinu til muna á næsta ári, m.a. er gert ráð fyrir fjölgun fulltrúa fagráðuneyta í sendiráði Íslands í Brussel úr þremur í tíu. Heildarfjárframlög sem falla til hjá utanríkisráðuneytinu vegna þessa nema alls 162 milljónum króna og er gert ráð fyrir þeim í fjárlagafrumvarpinu sem bíður þriðju og síðustu umræðu á Alþingi

Þetta er í samræmi við áherslu ríkisstjórnarinnar um að efla hagsmunagæslu vegna EES-samningsins. Um er að ræða bætta framkvæmd EES-samningsins. Hagsmunagæslan snýr m.a. að mótun EES-löggjafar og innleiðingu allra reglna EES-samningsins tímanlega svo tryggt sé að íslenskt atvinnulíf búi við sama rekstrarumhverfi og samkeppnisaðilar á evrópska efnahagssvæðinu.

Meðal helstu áherslna á málasviði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra á árinu 2019 og koma fram í fjárlagafrumvarpinu eru auk ofangreinds formennska Íslands í Norðurskautsráðinu og norrænu ráðherranefndinni og aukin framlög til þróunarsamvinnu. Heildarútgjöld utanríkismála árið 2019 eru áætluð 16,7 milljarðar króna.

Sjá nánar hér á vef utanríkisráðuneytisins.