Óli Björn Kárason alþingismaður:
Förum aftur til ársins 1980. Íslendingar voru tæplega 227 þúsund. Verg landsframleiðsla nam alls 878 milljörðum króna á verðlagi síðasta árs. Það ár heimsóttu tæplega 66 þúsund erlendir ferðamenn landið. Lágmarkstaxti verkamannalauna var tæpar 16 krónur sem jafngilda rúmum 872 krónum á verðlagi síðasta árs.
Verðbólga frá upphafi til loka árs 1980 var um 56%. Íslendingum hafði ekki tekist vel upp við að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum og allt frá 1971 hafði verðbólgudraugurinn herjað á landsmenn. Verðbólga var krónísk. Árin 1980, 1981 og 1982 var verðbólga alltaf yfir 50% og árið 1983 var verðbólga 84% og fór á tímabili upp í 130%. Á sex árum frá 1980 til loka árs 1985 liðlega ellefufaldaðist verðlag – hækkaði um meira en 1.000%. Myntbreytingin árið 1981 skipti engu en þá voru felld brott tvö núll af verðgildi krónunnar, þannig að 100 gamlar krónur urðu að 1 nýkrónu.
Hrunadans í tuttugu ár
Íslenskur veruleiki einkenndist af gengisfellingum og til að „lina“ sársaukann töluðu stjórnmálamenn um gengissig og gengisaðlögun. Gengi krónunnar var helsta stjórntæki efnahagsmála. Vanda útflutningsgreina – ekki síst útgerðar og fiskvinnslu – var velt yfir á almenning með reglulegum gengisfellingum. Óhagkvæmni og stöðnun í sjávarútvegi, fyrir innleiðingu kvótakerfisins, var þungur baggi sem launafólk þurfti að bera í formi lakari lífskjara. Hækkun launa var brennd á báli óðaverðbólgu.
Eftir hrunadans í tuttugu ár, á áttunda og níuna áratug síðustu aldar, voru aðilar vinnumarkaðarins búnir að fá nóg. Þeir tóku málin í sínar hendur, Einar Oddur Kristjánsson, formaður Vinnuveitendasambandsins, Ásmundur Stefánsson, formaður ASÍ, og Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Dagsbrúnar, lögðu grunninn að þjóðarsáttarsamningunum í febrúar 1990. Markmiðið var að treysta undirstöður atvinnulífsins og rjúfa víxlverkun verðlags og launa. Komið var í veg fyrir að verðbóga æti launahækkanir upp.
Hægt og bítandi tókst að leggja grunn að nýju framfaraskeiði á síðustu árum 20. aldarinnar. Meiri festa komst á ríkisfjármálin, kvótakerfi í sjávarútvegi leiddi til aukinnar hagkvæmni og arðsemi, samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið opnaði áður óþekkta möguleika og styrkti efnahagslega stöðu landsins.
Hættur og gamlar grillur
Þrátt fyrir alvarleg áföll í kjölfar falls bankanna 2008 hefur íslenskt samfélag gjörbreyst frá árinu 1980 og lífskjör eru allt önnur og betri. Ísland er í hópi mestu velmegunarsamfélaga í heimi og skiptir engu hvaða mælikvarða stuðst er við.
Síðustu ár hafa verið Íslendingum sérlega hagfelld í flestu. Staða ríkissjóðs er sterk og kaupmáttur launa hefur aldrei verið meiri. Lífskjör langflestra landsmanna hafa batnað verulega þótt enn glími sumir við fjárhagslega erfiðleika. Markmið komandi kjarasamninga hlýtur fyrst og síðast að miða að því að styrkja stöðu þeirra sem lakast standa um leið og stöðugleiki síðustu ára er endanlega festur í sessi.
Í velgengni felast hins vegar hættur og gamlar grillur fá stundum nýja vængi. Herskáar yfirlýsingar um stéttabaráttu eru endurómur fyrri tíma. Athafnamenn og fyrirtæki eru tortryggð. Kapítalismi – frjáls markaðsbúskapur – með sínum „endalausa hagvexti“, er sagður leiða Íslendinga og mannkynið allt til glötunar. Vegna þessa er því haldið fram að koma verði böndum á frjáls viðskipti og takmarka hinn „endalausa hagvöxt“. Þegar horft er á hálftómt glasið blasa endimörg hagvaxtarins við.
Verri lífskjör án hagvaxtar
Árið 1980 nam verg landsframleiðslan hér á landi um 878 milljörðum króna á verðlagi síðasta árs. Þetta jafngilti tæpum 3,9 milljónum króna á hvern Íslending. Á þeim 38 árum sem liðin eru hefur Íslendingum fjölgað um 111 þúsund og á síðasta ári nam landsframleiðslan um 2.615 milljörðum króna eða rúmlega 7,7 milljónum á hvern íbúa. Án hins „endalausa hagvaxtar“ hefði landsframleiðslan á mann aðeins numið tæpum 2,6 milljónum króna – nær 1,3 milljónum króna minna að raunvirði en 1980.
Þetta þýðir einfaldlega að án hagvaxtar hefðu lífskjör hér á landi versnað. Velferðarkerfið stæði á brauðfótum. Möguleikar okkar að halda úti öflugu samtryggingakerfi, heilbrigðis- og menntakerfi væru ekki fyrir hendi.
Bætt lífskjör samfélaga verða ekki sótt annað en í aukna verðmætasköpun – hagvöxt. Stöðnun eða minni aukning verðmætasköpunar, en nemur fjölgun íbúanna, leiðir til lakari kjara. Kökusneiðin sem kemur í hlut hvers og eins verður minni.
Þeir sem alltaf sjá glasið hálftómt eiga erfitt með átta sig á eðli frjáls markaðar og skynja ekki hugvit mannsins sem er ótakmörkuð auðlind. Skilja ekki samhengið milli framboðs og eftirspurnar, hvernig verð leikur þar lykilhlutverk.
Hugmyndasmiðir sem tala af fyrirlitningu um hinn „vonda hagvöxt“ kapítalismans hafa alltaf verið blindir á drifkraft mannshugans og framþróun í vísindum og tækni. Hafa aldrei komist til botns í því hvernig frjálsum markaði tekst stöðugt að finna hagkvæmari leiðir til framleiða lífsgæðin.
Verkefni stjórnvalda
Dómsdagsspámenn sjá ekki tækifæri framtíðarinnar. Dökk óveðursský byrgja þeim sýn. Við því er lítið að gera annað en koma í veg fyrir að þeir hafi áhrif á stefnu stjórnvalda eða á störf aðila vinnumarkaðarins á hverjum tíma.
Eitt helsta verkefni stjórnvalda, hér eftir sem hingað til, er ekki aðeins að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum heldur standa þannig að málum að til sé frjór jarðvegur frjálsra viðskipta og hagvaxtar. Þannig stækkum við kökuna og komum í veg fyrir síminnkandi sneið sem annars kæmi í hlut hvers og eins.
Það tekur 70 ár að tvöfalda landsframleiðsluna ef hagvöxtur er að meðaltali 1% á ári. Takist að tryggja 3% vöxt efnahagslífsins tvöfaldast verðmætin á 23 árum. Á tæpum 18 árum tvöfaldast verðmætin – kakan verður tvöfalt stærri – ef hagvöxtur er að meðaltali 4%.
Höfum við nokkuð með hagvöxt að gera? Hver og einn verður að svara þessari spurningu fyrir sig og sína.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. nóvember 2018.