Sáttmáli um óbreytt ástand

Borgarstjórn kom saman til fyrsta fundur eftir sumarleyfi í gær. Venju samkvæmt, þegar nýr meirihluti tekur við, fara fram oddvitaumræður um samstarfssáttmála meirihlutans. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn Reykjavíkur, gagnrýndi sáttmálann í ræðu sinni sem hann segir sáttmála og samkomulag um óbreytt ástand. Hægt er að horfa á ræðu Eyþórs í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

Ræða Eyþórs í heild sinni:

Forseti, ágætu borgarfulltrúar.

Þessi meirihlutasáttmáli sem við erum með hér er sáttmáli og samkomulag um óbreytt ástand. Það er fátt sem vekur von um að þær stóru breytingar sem að margir kölluðu eftir í vor verði að veruleika.

Nafnið „Meirihlutasáttmáli“ vekur athygli. Það eru til margs konar sáttmálar, það eru til Parísarsáttmálar, Viðeyjarsáttmálar, það eru til alls konar sáttmálar en þessi sáttmáli er kenndur við meirihluta. Það er skondið að þetta nafn hafi verið valið, þar sem á bak við „meirihlutann“ eru 45% atkvæða. Heitið meirihlutasáttmáli vísar þess vegna meira í það markmið að halda völdum í meirihluta frekar en áhersla sé á málefnin. Það má segja að nafnið sjálft lýsi valdsækni frekar en öðru.

En ef farið er yfir þennan sáttmála, fyrst umhverfismálin, þá vekur það athygli að það eru engin mælanleg markmið í þessum sáttmála. Þegar samningar eru gerðir eða sáttmálar, í þessu tilfelli umhverfissáttmálar, þá setja menn markmið. Hvort sem það er í KYOTO, París eða í hér í Reykjavík þá ná menn ekki árangri ef þeir setja sér ekki markmið. Fallegar setningar duga skammt. Til að Reykjavík verði leiðandi í loftgæðum, eins og það er kallað í sáttmálanum, þarf fyrst að setja markmið.

Það er þess vegna okkar trú að tillaga okkar Sjálfstæðismanna, sem liggur fyrir þessum fundi geti fyllt í eyðurnar, og verði samþykkt hér á þessum fundi, enda ætti að vera full samstaða um hana. Hún er skýr og þarf ekki rýni í kerfinu. Borgarstjórn ber ábyrgð á loftgæðum í Reykjavík.

Án stefnumiða munum við áfram sætta okkur við að fara ítrekað yfir lögbundin heilsufarsmörk. Án markmiða er hætta á að framkvæmdin verði, bæði ómarkviss og marklaus.

Húsnæðiskaflinn, hann er næstur og þar er rétt að vísa í forsíðuna, þar sem stendur, með leyfi forseta: „Við eigum öll að geta fundið okkur stað í tilverunni í Reykjavík“. Og í fáum málaflokkum á það jafn vel við, í bókstaflegri merkingu, eins og húsnæðismálunum.

Við vitum það að heimilislausum hefur fjölgað á síðustu árum. Utangarðsfólki hefur fjölgað um 95% á fimm árum (frá 2012-2017). 349 manns voru utangarðs þegar við fengum síðast formlegar tölur. „Við eigum öll að geta fundið okkur stað í tilverunni í Reykjavík,“ hugsar þetta fólk. Ungt fólk dvelur lengur heima. Aldrei hafa fleiri flutt burt í góðæri. Lengsta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar er í gangi og við sjáum að aukningin er mest í nágrannasveitarfélögunum og lengra, jafnvel Reykjanesbær og Árborg eru að tútna út á þessum tíma, þar finna margir Reykvíkingar sér stað í tilverunni. Það er þess vegna ekki þétting heldur dreifing fólks. Öfugt við þau markmið sem voru sett.

Eldri borgarar kvarta bæði yfir heimaþjónustu, hærri gjöldum og hærri leigu en hún hefur hækkað um 80 – 100% hjá mörgum. Meira að segja hefur leigan hjá Félagsbústöðum hækkað allhressilega en þetta fólk þarf allt saman að finna sér stað í tilverunni í Reykjavík.

Í Ríkisútvarpinu í morgun var borgarstjóri að setja tóninn fyrir þennan fund og starfið í vetur. Það má segja að hann hafi verið að setja tóninn fyrir kjörtímabilið. Þar talaði hann um, með leyfi forseta, „upphlaup eða hávaði eða óróa“ okkar, sem höfum bent á þennan brýna vanda og sagt að umræðan snúist um, með leyfi forseta, „einhver formsatriði og svona týpískar lýðskrumslegar upphrópanir“

Þá vaknar spurningin: Er staða húsnæðislausra formsatriði? Eru tillögur um úrræði fyrir húsnæðislausa „lýðskrumslegar upphrópanir“? Eða er óþarfi að hans mati að ræða um málefni húsnæðislausra? Er það bara „upphlaup“?

Tillögur um að skipuleggja húsnæði á hagstæðum svæðum er málefnalegt innlegg sem var lagt fyrir 1. fund borgarstjórnar.

Þá vaknar spurningin: Hvort flokkast slík tillaga um þúsundir íbúða á hagstæðum og skynsamlegum svæðum undir „formsatriði” eða „svona týpískar lýðskrumlegar upphrópanir“?

Tillögur okkar hafa verið lagðar fram vegna þess að þær er ekki að finna í þessum „meirihlutasáttmála“.

Við lögðum fram tillögur á fyrsta fundi borgarstjórnar og við höfum lagt fram tillögur á fundum fagnefnda. Það er ekki lýðskrum það er hins vegar okkar skylda og okkar verkefni.

Skólamál, stærsti málaflokkurinn í borginniLofað var leikskólaplássum fyrir 12 mánaða börn í kosningabaráttunni í vor. Margir keyptu þessi loforð en samt sem áður er staðan núna í haust þannig að það fá ekki öll 18 mánaða börn pláss. Spurningin er: Hvernig rímar þetta saman, þetta loforð sem að þessi meirihluti gaf, og sérstaklega Samfylkingin, sem setti það á strætóskýlin, hvernig rímar það við raunveruleikann?

Mannekla er á frístundaheimilum borgarinnar en fólki sagt að „ástandið hafi batnað“ í útvarpinu. Það er ekki góð lenska að bæta böl með því að benda á annað verra.

12 mánaða börnum var lofað plássi í vor. Og 18 mánaða börnum var lofað plássi árið 2002, það var árið sem núverandi borgarstjóri tók sæti í borgarstjórn. Síðan eru liðin 16 ár og enn þá komast ekki öll 18 mánaða börn á leikskóla. Og 4 ár eru framundan.

Börn hafa mismunandi þarfir – sveigjanleiki og sjálfstæðir skólar er eitthvað sem við köllum eftir. Koma þarf til móts við þarfir barna með sérþarfir, líka þau sem skara fram úr. Þetta er sérstaklega mikilvægt á tölvuöld. Barn sem hefur nám í dag útskrifast tuttugu árum síðar. Hvernig búum við börnin okkar undir árið 2038? Hvernig undirbýr borgin börnin undir þær breytingar sem eru fyrirséðar? Því er ekki svarað í þessu plaggi.

Börn af erlendum uppruna eru yfir 10% í skólum borgarinnar. Samkvæmt PISA er mesti munur í OECD á milli barna á Íslandi, þar er mest mismunun. Útkoma barna innflytjenda er fjórðungi lakari en barna innfæddra. Í þessu efni fær borgin falleinkunn.
„Við eigum öll að geta fundið okkur stað í tilverunni í Reykjavík“.

Atvinnumál eru hér á blaðiMargir bundu vonir við að Viðreisn myndi huga að þörfum atvinnulífsins. Eitt af því sem er að sliga fyrirtæki í Reykjavík eru háir fasteignaskattar sem hafa hækkað mikið. Í sáttmálanum er lækkun um 0,05% lofað í lok kjörtímabilsins. Það er sem sagt verið að lofa lækkun á næsta kjörtímabili. Það er loforðið sem við sjáum í þessu öfugt við það sem var sagt í kosningabaráttunni. Það gagnast lítið núna þeim sem eru að sligast. Og það gagnast seint.

Afar fáir möguleikar eru fyrir stofnanir og fyrirtæki að fá lóðir í Reykjavík. Íslandsbanki fór í Kópavog. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu fór í Kópavog. WOW er að fara í Kópavog.

Lóðaskortur fyrirtækja og stofnanna er þríþættur vandi:

Í fyrsta lagi missum við störf annað og veikjum þar með borgina sem búsetukost. Í öðru lagi missum við tekjur af fyrirtækjunum. Í þriðja lagi aukum við enn á samgönguvandann sem er í eðli sínu skipulagsvandi.

Við lögðum til að Keldur og Keldnalandið yrði skipulagt meðal annars fyrir stofnanir og fyrirtæki. Þannig gætum við endurheimt samkeppnishæfni borgarinnar í atvinnumálum sem hefur hrakað á síðustu árum. Ekkert slíkt er að finna í þessum sáttmála.

Síðan eru það mannréttinda- og lýðræðismál. Lofað er auknu gagnsæi, enda veitir ekki af. Boðuð er áhersla á samráð við hagsmunaaðila og einstaklinga við alla stefnumótun. Og það á samræmdri gátt á vef borgarinnar. Því miður er reyndin önnur á fyrstu mánuðum þessa kjörtímabils. Þrátt fyrir að samþykkt hafi verið að auglýsa dagskrá funda fyrirfram, sem er eitt lítið framfaraskref, eru flest stór mál unnin án samráðs. Á þessum fundi borgarstjórnar er tillaga um endurskoðun á fyrirkomulagi göngugatna. Þar er ekki gert ráð fyrir samráði, nema að takmörkuðu leyti, við einn hagsmunahóp. Þar að auki gerir tillagan ráð fyrir því að gengið sé fram hjá fagnefndinni sem fjallar um skipulag og samgöngur. Þar með er verið að takmarka aðkomu kjörinna fulltrúa fólksins að þessu ferli. Þessi málsmeðferð er ekki í anda þessa sáttmála þar sem segir með leyfi forseta: „Lögð verði áhersla á samráð við hagsmunaaðila og einstaklinga við alla stefnumótun og eftirfylgni stefnu í öllum málaflokkum.“ Skýrara verður það vart. Og ekki er farið eftir því.

Nú á fyrstu þremur mánuðum vantar mikið upp á að farið sé eftir þessum fyrirheitum.

Í dag á þessum öðrum borgarstjórnarfundi er tækifæri til að gera betur, breyta. Auka samráð við hagsmunaaðila í stefnumótun og í framkvæmd eins og lofað er hér.

Rekstur borgarinnar. Skuldir borgarsjóðs hafa hækkað gríðarlega á síðustu árum. Um það verður ekki deilt. Stjórnkerfið er stórt og allir tekjustofnar eru í botni. Sumir á jaðri þess sem er löglegt. Kjósendur Viðreisnar sem margir reka fyrirtæki bundu vonir við að einhverjum böndum yrði komið á reksturinn. Fátt er að finna um slíkar breytingar í „meirihlutasáttmálanum“. Þar sem segir þó er þetta með leyfi forseta: „Borgin skal rekin með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Skuldir skulu greiddar niður meðan efnahagsástandið er gott.“ Í dag eftir þrjá mánuði hefur ekkert gerst til að tryggja þetta. Þvert á móti hafa skuldir verið að þokast upp milli ára í borgarsjóði og fjárfestingar eru langt umfram þess sem afkoma borgarsjóðs leyfir. Ekkert hefur verið hagrætt í kerfinu. Borgarstjóri gengur svo langt að segja í útvarpinu í morgun að hann hafi bara einn aðstoðarmann. Það stangast allverulega á við þann raunveruleika að skrifstofa hans er með tugi starfsmanna og kostar hundruð milljóna króna á ári hverju.

En það vekur mesta athygli í þessum sáttmála hvað vantar í hann.Það sem vantar í þennan sáttmála eru mörg kosningaloforð. Það er ekki bara að helsta kosningaloforð Samfylkingarinnar „Miklabraut í stokk“ sem hvarf og finnst hvergi í þessum sáttmála. Lítið er að finna um áherslur Viðreisnar í skólamálum en fyrir kosningar var þessu lofað með leyfi forseta: „Við ætlum að draga úr miðstýringu og auka faglegt frelsi grunnskólakennara til að gera tilraunir með ólík kennsluform.” Í meirihlutasáttmálanum segir hins vegar: „Megináhersla verður lögð á borgarreknar menntastofnanir“. Ekki er að sjá að draga eigi úr miðstýringu. Ekki er að sjá að auka eigi faglegt frelsi og ekki er að sjá að gera eigi “tilraunir með ólík kennsluform”.

Það sem vantar líka eru mælanleg markmið.

Það eru engin markmið um skuldalækkun.

Það eru engin markmið um hagræðingu.

Það eru engin markmið um skilvirkari stjórnsýslu.

Það eru engin markmið um árangur í skólamálum.

Það eru engin markmið um bættan ferðatíma og lækkun tafatíma.

Það eru engin raunveruleg markmið í umhverfismálum.

Forseti, ágætu borgarfulltrúar.

Við munum veita þeim sem nú fara með völd málefnalegt aðhald.

Við munum koma með tillögur að úrbótum.

Við munum styðja þau mál sem eru skynsamleg en jafnframt koma með ábendingar til úrbóta.

Á bak við þá fjóra flokka sem eru í stjórnarandstöðu eru fleiri atkvæði en á bak við „meirihlutasáttmálann“. Við óskum eftir því að vilji þess fólks sem kaus þessa 11 borgarfulltrúa verði virtur en ekki svívirtur með ummælum á borð við það sem borgarstjóri kaus að hefja daginn á í Ríkisútvarpinu. Stjórnarandstaðan í borgarstjórn samanstendur af fjölbreyttum hópi með mikla reynslu úr sveitastjórn og atvinnulífi. Það er skylda okkar að gagnrýna það sem miður fer og koma með tillögur til hins betra. Það munum við gera.