Styrking löggæslunnar

Sigríður Ásthildur Andersen, dómsmálaráðherra:

Lögreglan er ein af grunnstoðum réttarríkisins og gætir öryggis þeirra sem hér búa og sækja landið heim. Hún kemur fólki til aðstoðar á þeirra erfiðustu tímum og tryggir að lögum sé framfylgt. Starf hennar er mikilvægt í þágu okkar allra og það hefur verið áhersla mín frá því ég tók við sem dómsmálaráðherra í janúar 2017 að efla löggæsluna; fjölga lögreglumönnum og öðrum sérfræðingum hjá embættunum, standa betur að meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu, bæta aðbúnað lögreglunnar, styrkja landamæragæslu og tryggja almannaöryggi.

Framlög til löggæslumála voru aukin um milljarð króna á þessu ári og 2019 verða framlögin aukin um rúman milljarð króna til viðbótar.

Á þessu ári hafa embættin getað fjölgað í lögregluliðum sínum, einkum með tilliti til bættrar meðferðar kynferðisbrota og vegna fjölgunar ferðamanna. Þá eru ótaldar auknar fjárheimildir til annarra þátta sem lúta að öryggi almennings og sem einskorðast ekki við löggæslu.

Ég hef einnig leitað til lögregluembættanna um land allt til að vinna með okkur í dómsmálaráðuneytinu að því að greina hvernig fjárframlögum ríkisins til löggæslu er best varið á næstu árum með tilliti til álags. Þessi vinna er grundvöllur að löggæsluáætlun sem verið er að leggja lokahönd á og tekið hefur breytingum eftir ábendingar og sjónarmið lögreglunnar. Fjárlögin sem kynnt verða við upphaf þings í september munu taka mið af þessari vinnu.

Verkefni lögreglunnar hafa aukist að undanförnu, meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna með tilheyrandi álagi um allt land. Því hefur verið mætt með auknu fjárframlagi en betur má ef duga skal. Það verður áfram kappsmál mitt að renna styrkum stoðum undir löggæsluna í landinu.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 22. ágúst 2018