Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og ritari Sjálfstæðisflokksins:
Þannig hljómar fyrirsögn auglýsingar frá lögreglunni í Vestmannaeyjum, ÍBV, Bleika fílsins og öðrum samstarfsaðilum fyrir verslunarmannahelgina sem nú er að ganga í garð. Verslunarmannahelgin er ein mesta ferðahelgi ársins, Íslendingar flykkjast um allt land, flestir með fellihýsi eða tjald og góða skapið í eftirdragi. En þrátt fyrir að stærstur hluti Íslendinga skemmti sér konunglega, bæði fallega og kurteislega, virðast alltaf vera einhverjir sem ekki geta virt mörk í samskiptum, beita ofbeldi og valda varanlegu tjóni á lífi einstaklinga eftir helgina.
Skilaboðin sem koma frá Vestmannaeyjum eru skýr og fræðandi og gefa fólki tækifæri til að opna á umræðu um nauðganir og hvar mörkin liggja. Enn eru of margir sem átta sig ekki á því hvar línan er dregin og að samræði við sofandi fólk er ekki kynlíf heldur refsiverð nauðgun. Allt að helmingur tilkynntra nauðgana er brot gegn rænulausu fólki sem ekki getur spornað við verknaðinum. Hvar sem við erum er fátt mikilvægara en að fólk virði samskiptareglur svo að við getum skemmt okkur saman. Þær mega ekki falla úr gildi þegar inn í tjaldið er komið frekar en annars staðar.
Druslugangan var gengin víðs vegar um landið fyrir örfáum dögum. Druslugangan er einfaldlega samstöðu- og mótmælaganga sem hefur það markmið að uppræta fordóma varðandi klæðaburð kvenna og ástand þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi en ekki síst til að minna á að gerendur eru þeir sem bera fulla ábyrgð á kynferðisofbeldi. Þar finna þolendur fyrir miklum stuðningi og samstöðu þúsunda manna gegn hvers kyns ofbeldi. Fjöldi fólks á enn erfitt með að skilja mikilvægi göngunnar, kannski fyrst og fremst því að orðið drusla er almennt neikvætt og ekki talið orð sem þú átt að nota um sjálfa þig. En það er einmitt sá hugsunarháttur sem er verið að reyna uppræta, að brandarinn um að það sé ekki hægt að nauðga lauslátri konu (druslu) hætti að vera fyndinn og að við sjáum öll sem eitt að það er á ábyrgð gerandans að virða ekki mörk, að beita ofbeldi og nauðga.
Við skulum fara inn í helgina með hugann við hvað eru eðlileg samskipti og hvar mörkin liggja. Við eigum að þora að ræða þessa hluti, vera vakandi yfir velferð og ástandi hvert annars og umfram allt bera ábyrgð á hegðun okkar. Allir þurfa að vita hvar mörkin liggja og það á að vera alveg kristaltært að enginn samþykkir neitt sofandi.
Lífið er yndislegt og við eigum að geta fylgst að í því ferðalagi á meðan hjörtun slá í takt. Við skulum vinna saman í því að tryggja að svo verði áfram.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. ágúst 2018.