„Sá málflutningur stenst enga skoðun“
'}}

„Það er í raun örstutt síðan Ísland var eitt fátækasta ríki Evrópu. Hið öfluga og góða samfélag okkar féll ekki af himnum ofan heldur var það byggt upp með þrotlausri verðmætasköpun fyrri kynslóða. Við getum ekki viðhaldið því, hvað þá betrumbætt það, nema með því að halda áfram að skapa sem mest verðmæti. Einn liður í því er að búa atvinnulífi okkar skynsamleg og sanngjörn skilyrði,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.

„Þessa dagana reynir hluti stjórnarandstöðunnar að þyrla upp moldviðri vegna þeirrar skynsamlegu og eðlilegu tillögu, að miða veiðigjald útgerðarfyrirtækja við nýjar upplýsingar um afkomu greinarinnar frekar en gamlar. Það eru vonbrigði að sumum virðist ómögulegt að komast úr skotgröfunum. Þáverandi sjávarútvegsráðherra studdi það markmið, í viðtali við RÚV síðastliðið sumar, að veiðigjöldin yrðu miðuð við nýrri upplýsingar en verið hefur. Enda hefur þetta verið nokkuð almennt viðurkenndur galli á álagningunni. En núna tala forsvarsmenn sama flokks eins og hér sé ægilegt hneyksli á ferðinni. Sá málflutningur stenst enga skoðun,“ sagði ráðherra.

Ráðherra ræddi frelsi og réttlæti í ræðu sinni og sagði m.a.: „Það er einmitt gæfa Íslands að okkur hefur tekist flestum þjóðum betur að sameina hin tvö göfugu markmið um annars vegar frelsi einstaklingsins og hins vegar félagslegt réttlæti og félagslega sátt.“

Þá sagði ráðherra einnig: „Kannski eru það óblíð náttúruöflin sem hafa kennt okkur, að frammi fyrir ógnarkröftum náttúrunnar er enginn sterkari en annar, og allra hagur að standa saman.“

Hún sagði að þetta skýrði m.a. hvers vegna við Íslendingar skipum eitt af efstu sætunum þegar gerður er samanburður á milli þjóða á eftirsóknarverðum árangri og lífsgæðum.

„Hér er mikið frelsi, mikil verðmætasköpun, mikill frumkvöðlakraftur, en líka mikill jöfnuður og mikill árangur af sterku velferðarkerfi,“ sagði ráðherra og bætti við: „Það þarf ekki að koma neinum á óvart að ég tel hugsjónir Sjálfstæðisflokksins hafi hér leikið lykilhlutverk með sinni óvenjulega breiðu skírskotun til allra stétta og áherslu á að sameina fremur en að sundra. En auðvitað er þetta þegar öllu er á botninn hvolft sameiginlegur árangur allra Íslendinga.“

Ráðherra sagði að Íslandi muni áfram farnast vel ef haldið verður áfram að skapa fólki um allt land gott samfélag til að búa í.

„Í því felst að hver einasti einstaklingur hafi tækifæri til að vera sinn eigin gæfu smiður og fullnýta hæfileika sína, á hvaða sviði sem þeir kunna að liggja,“ sagði ráðherra.

Ráðherra sagði Íslendinga standa frammi fyrir miklum áskorunum.

„Tækniframfarir munu á næstu árum gjörbylta atvinnuháttum okkar, með meira afgerandi hætti en við höfum áður séð. Þær krefjast þess af okkur að við leggjum enn meiri áherslu á að rækta sköpunargleði, frumkvæði, gagnrýna hugsun, nýsköpun, athafnagleði, athafnafrelsi og sjálfstæði. Þær kalla á að einstaklingsfrelsi og athafnafrelsi fái að blómstra, en þær kalla líka á að við hugum vel að félagslegum þáttum, gagnvart þeim sem mögulega ná ekki að fóta sig nógu vel í nýjum heimi. Það er mikilvægt að tryggja að enginn fari halloka í þeim umskiptum sem standa fyrir dyrum,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Ráðherra sagði að ríkisstjórnin hefði efnt fyrirheit sín um að vinna mál í sem víðtækastri pólitískri samvinnu og nefndi aðild allra þingflokk að starfshópi um langtíma- orkustefnu fyrir Ísland.

„Stjórnarmyndun þriggja flokka þvert yfir ás pólitískrar hugmyndafræði, ásamt tilboði til stjórnarandstöðunnar um aukna samvinnu, hafi hún áhuga á því, þetta hvort tveggja markar nýja tíma í íslenskum stjórnmálum og gefur okkur tækifæri til að móta sterka stefnu til lengri tíma,“ sagði ráðherra.

Hún sagði einnig: „Það tekur langan tíma að byggja upp en skamman tíma að rífa niður. Okkur hefur tekist að byggja upp gott samfélag sem er í fremstu röð í heiminum. Það er staðreynd. Langtímahugsun og stefnufesta, á grundvelli víðtækrar sáttar á milli ólíkra sjónarmiða, er sú nálgun sem ein mun tryggja Íslandi áframhaldandi árangur á komandi árum – árangur fyrir okkur öll“.

Lesa má alla ræðu ráðherra hér.