Gunnsteinn Björnsson, 3. sæti í Skagafirði:
Eins og aðrir flokkar fór Sjálfstæðisflokkurinn af stað í kosningabaráttu fyrir fjórum árum og er nú vert að skoða hvað hefur tekist og hvað ekki.
Við vildum fjölga störfum og standa vörð um opinber störf - störfum hefur fjölgað, m.a. opnaði Vinnumálastofnun útibú á Króknum og því tókst að verja þau störf sem fækkaði á móti hjá Íbúðalánasjóði.
Styðja við ferðaþjónustu - farið var í stefnumótunarvinnu með ferðaþjónustunni í Skagafirði og er starfandi starfshópur sem vinnur að því að hrinda stefnumótuninni í framkvæmd. Jafnframt heldur Sveitarfélagið Skagafjörður úti vefnum www.visitskagafjordur.is
Við vildum leggja hitaveitu í sveitirnar - hitaveita hefur verið lögð í sveitirnar og horfir nú þannig að það verkefni muni klárast á næstu árum.
Við vildum leggja háhraðanet í dreifbýlinu - lagning ljósleiðara er í gangi og lokið á nokkrum svæðum.
Við vildum finna leið til að fá áætlunarflug til Sauðárkróks og gera Alexandersflugvöll að varaflugvelli fyrir millilandaflug – það er komið á áætlunarflug sem mun halda áfram í haust og hefur verið unnið að því að afla hugmyndinni um Alexandersflugvöll sem varaflugvöll fylgis.
Gamla barnaskólanum verði fundið nýtt hlutverk – það hefur verið gert og vonandi fara framkvæmdir í gang á næstu vikum.
Gamli bærinn á Sauðárkróki verði lagfærður – farið var í verkefnið ,,verndarsvæði í byggð“ og svo eru í gangi framkvæmdir við að koma húsunum við Aðalgötu 21 í stand.
Úrbætur verði gerðar á sorpmálum – verið er að undirbúa tunnuvæðingu í sveitum og uppbygging á gámasvæði í Varmahlíð er á leið í útboð.
Stuðla að auknu framboði íbúðarhúsnæðis s.s. með byggingu á leiguhúsnæði - félagið Skagfirskar leiguíbúðir hefur verið stofnað og samið hefur verið um byggingu átta leiguíbúða. Jafnframt hefur orði sú ánægjulega þróun að íbúar hafa gripið tækifærið og tekið tilboði sveitarfélagsins um fríar lóðir og er því mörg íbúðarhús í byggingu.
Stuðla að byggingu búseturéttaríbúða – búseturéttaríbúðir hafa verið byggðar og eru í byggingu.
Leitað verði lausna í málefnum leikskólanna í Varmahlíð og Hofsósi – stofnsett var ný deild við leikskólann í Varmahlíð til að leysa úr brýnum vanda foreldra, hönnun á viðbygging leikskóla við Gunnskólann á Hofsósi er á lokametrum og verður boðin út á næstunni.
Lokið verði við frágang lóðar við Árskóla – vinnan er í gangi og mun ljúka á næstu vikum.
Tryggja metnaðarfullt skólastarf í Skagafirði - sveitarfélagið hefur staðið að ipad-væðingu í skólunum og með því og fleiru stutt við þróun skólastarfs.
Fara í samvinnu við íþróttafélög um uppbygginu knattspyrnuaðstöðu á Sauðárkróki – sú vinna sem farið var í með hagsmunaaðilum leiddi til ákvörðunar um byggingu á gervigrasvelli sem verður tilbúinn á næstu dögum.
Okkar stærsta baráttumál fyrir síðustu kosningar var að fara í löngu tímabærar endurbætur á Sundlaug Sauðárkróks – sú endurbygging er hafin og verður haldið áfram á næstu árum ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst í meirihluta.
Þetta og margt fleira hefur verið gert í ágætu samstarfi við Framsóknarflokkinn á líðandi kjörtímabili. Þó virðist að á ræðu og riti samstarfsflokksins að þeir hafið verið aleinir í þessu öllu, en við leggjum þá pælingu í hendur kjósenda.
Greinin birtist fyrst í Feyki 23. maí 2018