Vegið að Laugardalnum
'}}

Marta Guðjónsdóttir, 5. sæti í Reykjavík:

Grænu svæðunum í borginni fer stöðugt fækkandi vegna þéttingar og þrengingar byggðar.

Stefna  Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og Hjálmars Sveinssonar, formanns umhverfis- og skipulagsráðs, hefur verið skýr hvað þetta varðar. Varla er til sá græni blettur hér í borg að þeir hafi ekki hugleitt að troða þar niður byggingum.

Þá er nú ekki verið að leita eftir íbúasamráði sem þeim er svo tamt í munni þegar kemur að kosningum. Dæmin sanna, því miður, að athugasemdir borgarbúa skipta þá engu máli.

Laugardalurinn er ein af náttúruperlum borgarinnar miðstöð íþróttagreina af ýmsu tagi.  Fjöldi fólks nýtur þar útivistar á hverjum degi, sækir þangað sund, líkamsrækt og æfir þar hinar ýmsu greinar íþrótta, meðan aðrir njóta útverunnar, ganga um lystigarðinn og heimsækja Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Þeim borgarbúum sem stunda íþróttir og útivist fer stöðugt fjölgandi og því nauðsynlegt að hlúð sé vel að þeim opnu útvistarsvæðum sem eru í borginni.

Nú hafa þeir Dagur B. og Hjálmar Sveinsson í hyggju að byggja meðfram Suðurlandsbrautinni ofan í Laugardalinn og gera Suðurlandsbrautina að einni akrein í sitthvora áttina. Þessi skammsýnu áform verða því miður óafturkræf.  Með slíkum framkvæmdum verður komið í veg fyrir stækkunarmöguleika  íþróttasvæða og íþróttamannvirkja á þessum slóðum í framtíðinni. Þetta er eitt af þeim fjölmörgu skipulagaslysum sem kjósendur geta komið í veg fyrir með atkvæði sínu á kjördag.

Greinin birtist fyrst í Laugardalsblaðinu 24. maí 2018.