Hvers vegna hjóla ég?
'}}

Katrín Atladóttir, 6. sæti í Reykjavík:

Hjólreiðar eru vaxandi samgöngumáti. Í síðustu könnun á ferðavenjum Reykvíkinga var hlutdeild hjólreiða sjö prósent ferða. Í Vesturbæ og Hlíðum fóru tíu prósent íbúa ferða sinna hjólandi.

En af hverju hjóla Reykvíkingar? Ímynd hjólreiða sem samgöngumáta virðist hjá sumum Reykvíkingum vera börn og sérvitringar. Við hjónin hjólum töluvert til vinnu og nýtum hjólin oftar en ekki til styttri ferða.

Ástæðan er hagkvæmni og jafnvel má segja að í mínum huga sé lúxus að hjóla. Að hjóla til vinnu á fallegum vormorgni eru lífsgæði, ekki kvöð. Þarna fást fimmtán mínútur til að hugsa málin, hlaða andlegar rafhlöður fyrir vinnudaginn, fá blóðið smá á hreyfingu og roða í kinnar. Engin bið í umferðarhnútum og ég legg við dyrnar á áfangastað án þess að leita að bílastæði. Ég get ekki hugsað mér betra upphaf á deginum.

Þeir sem vilja ekki hjóla þurfa ekki að hjóla. Þessi sjö prósent heildarferða okkar Reykvíkinga eru farnar utan umferðaræða, svo þær létta á bílaumferðinni. Með því að auka hlutfall annarra samgöngumáta en bílferða minnkar mengun og svifryk, sem fer oftar yfir viðmiðunarmörk í Reykjavík en í sumum erlendum stórborgum.

Sumir geta kosið að eiga einn bíl þegar þeir þyrftu ella tvo. Sumir kjósa að eiga engan bíl. Málið snýst um valkosti. Val til þess að ganga, hjóla, keyra eða nota almenningssamgöngur. Frelsi til að blanda þessu öllu saman eftir hentugleika.

Hjólreiðar eru hagkvæmar fyrir Reykvíkinga og öllum til bóta. Líka fyrir þá sem stunda þær ekki. Ég hyggst beita mér fyrir því að Reykvíkingar hafi val um fjölbreyttar samgöngur.

Greinin birtist fyrst á Vísir.is 22. maí 2018.