Allt á einum stað í íbúagátt Reykjanesbæjar
'}}

Andri Örn Víðisson, 5. sæti í Reykjanesbæ:

Hvað ef strætókortið væri samtengt sundkortinu og bókasafnskortinu og á heimasíðu Reykjanesbæjar væri rafræn íbúagátt þar sem hægt væri að kaupa og endurnýja áskriftir að þessum þjónustum bæjarins. Og hvað ef þú gætir séð stöðuna og notkun á kortunum, hvar og hvenær börnin fóru í strætó eða í sund og hvort þú sér komin fram yfir skiladag á bókinni af bókasafninu eða ættir bara þrjú skipti eftir í sund.

Svo útvíkkum við hugmyndina og gerum kortið að snjallsíma-appi svo þú getir notað símann þinn í staðinn fyrir hefðbundið kort og tengjum aðra þjónustuþætti og upplýsingar frá bænum við „notendareikninginn“ að íbúagáttinni; eins og til dæmis skólamatinn í grunnskólum, hvatagreiðslurnar, ferðaþjónustu fatlaðra og fasteignagjöld. Framtíðarsýn okkar sjálfstæðismanna fyrir þjónustu Reykjanesbæjar er að hafa allt á einum stað og einfalda samskiptin við stjórnsýsluna með nútímalegri og öflugri íbúagátt.

Stafræn umbreyting fellst í því að endurhugsa hvernig við höfum alltaf gert hlutina og nálgast viðfangsefni frá sjónarhorni notenda. Þannig leitum við leiða til að bjóða upp á aukna sjálfsþjónustu og sjálfvirkni og um leið styrkja starfsmenn bæjarins með réttum upplýsingum og tólum til að geta veitt bestu mögulegu þjónustu til íbúa.

Á komandi kjörtímabili þarf að samræma hin ýmsu umsóknareyðublöð, sérstaklega er snúa að byggingar- og skipulagsmálum. Það þarf að gera stórátak í að veita þjónustu í gegnum netið til íbúa sem ekki lesa eða skrifa íslensku. Það þarf að stórbæta upplýsingagjöf til íbúa með skýrari og efnismeiri fundargerðum nefnda og ráða meðal annars til að auka gagnsæi í stjórnsýslunni.

Sjálfstæðisflokkurinn vill marka langtíma stefnu um stafræna umbreytingu hjá Reykjanesbæ með það að markmiði að gera Reykjanesbæ að leiðandi sveitarfélagi á sviði rafrænar stjórnsýslu og fyrirmynd annarra. Þannig viljum við vinna saman með stofnunum sveitarfélagsins í að veita framúrskarandi þjónustu til íbúa.

Greinin birtist fyrst á vef Víkurfrétta 18. maí 2018 (sjá hér).