Við – Hvað viljum við gera?
'}}

Anton Kári Halldórsson, 1. sæti og Elín Fríða Sigurðardóttir, 2. sæti í Rangárþingi eystra:

Við – Hvað viljum við gera? Já, við frambjóðendur D-lista og annarra lýðræðissinna í Rangárþingi eystra segjum við, íbúarnir í Rangárþingi eystra, því allt snýst þetta um samstöðu fólksins. Saman getum við gert svo ótal margt og nýtt okkur þau gríðarlegu tækifæri sem framundan eru.

En það gerir engin ein sveitarstjórn eða einn sveitarstjóri heldur er það samvinna okkar allra í sveitarfélaginu sem gildir. Þannig náum við bestum árangri fyrir okkur öll.

Við þurfum að færa stjórnsýsluna til nútímans og nýta okkur alla möguleika til þess að fá sem flesta að borðinu þegar teknar eru ákvarðanir fyrir sveitarfélagið. Við þurfum ekki alltaf að vera sammála um útfærslur og leiðir. Það væri í rauninni mjög skrýtið ef allir væru alltaf sammála, því það er nauðsynlegt fyrir okkur að takast á, virða skoðanir hvers annars, rökræða þær og enda svo með bestu mögulegu lausnina.

D- listinn í Rangárþingi eystra er eina framboðið sem býður fram sveitarstjóraefni í komandi kosningum. Við viljum hins vegar ítreka að sveitarstjórinn er bara einn einstaklingur í stóra púslinu. Sveitarstjóri, hvort sem hann er pólitískur eða ekki, vinnur við að framkvæma það sem honum hefur verið falið af sveitarstjórn og þar af leiðandi íbúum, ef stjórnsýslan virkar sem skyldi.

Við teljum mjög mikilvægt að sveitarstjóri sé í góðum tengslum við sitt nærumhverfi þ.e. íbúa og sveitarfélagið sjálft, þekki innviði þess og taki virkan þátt í samfélaginu. Hvers vegna þurfum við að ráða „sérfræðing að sunnan“ til þess að vera í frontinum fyrir sveitarfélagið okkar ?

Við frambjóðendur D-lista bjóðum fram öflugan lista sem leggur höfuðáherslu á málefnin. Við leggjum á borðið fyrir kjósendur metnaðarfulla stefnuskrá sem við brennum fyrir að hrinda í framkvæmd.

Með því að setja X við D á kjördag í Rangárþingi eystra, veistu hvað þú færð. Við höfum sett fram skýra stefnu og erum svo sannarlega tilbúin að vinna með og í þágu íbúa til uppbyggingar sveitarfélagsins til framtíðar.

Birtist fyrst í Dagskránni 17. maí 2018.