Marta Guðjónsdóttir, 5. sæti í Reykjavík:
Borgarbúar hafa mátt þola mikla þjónustuskerðingu á ýmsum sviðum. Þetta kemur auðvitað niður á daglegu lífi íbúa eins og sjá má á manneklunni í leikskólunum. Þessi vandi birtist í því að fleiri hundruð börn voru send heim í vetur á miðjum degi. Þá þurftu sum börn jafnframt að vera heima nokkra daga í mánuði. Þessi mál verða ekki leyst nema laun þeirra lægstlaunuðu á leikskólunum verði hækkuð og starfsaðstæður leikskólanna bættar.
Þessi vandi er svo sem ekki nýr af nálinni, því haustið 2016 stefndi í mikla manneklu án þess að brugðist væri við ástandinu og álaginu var velt yfir á þá starfsmenn sem fyrir voru. Enn hefur ekki tekist að manna allar stöður og enn er ekki hægt að nýta öll þau lausu pláss sem eru á leikskólunum.
Boð um leikskólarými með fyrirvara
Nú eru 179 laus leikskólarými sem ekki er hægt að nýta og nú fá foreldrar boð um pláss í haust með fyrirvara um að hægt sé að manna leikskólana. Þá hafa bæði leikskólar og skólar mátt þola langvarandi viðhaldsleysi. Sums staðar er húsnæðið heilsuspillandi eins og kom í ljós sl. sumar í Kvistaborg þegar upp kom mygla og mölflugur flugu um allt hús með þeim afleiðingum að starfsmaður veiktist og neyddist til að hætta þar störfum.
Það er ekki boðlegt að við bjóðum leikskólabörnum og starfsmönnum upp á heilsuspillandi húsnæði. Sömuleiðis er það lágmarkskrafa að leiksvæðum barna á skólalóðum sé haldið við og þær ekki látnar drabbast niður eða að slæmt viðhald leiktækja bitni á öryggi barnanna.
Biðlistarnir hafa ekki bara verið að lengjast í leikskólunum heldur einnig eftir skóla- og sérfræðiþjónustu en um áramótin var 441 eitt barn á biðlista eftir sérfræðiþjónustu. Þannig má sjá að víða er pottur brotinn í rekstrinum og löngu er kominn tími á að forgangsraðað verði í þágu grunnþjónustu. Það geta ekki talist ábyrg stjórnvöld sem taka lúxusverkefni fram yfir nauðsynlega þjónustu og sópa vandanum undir teppi.
Greinin birtist fyrst á visir.is þann 16. maí 2018.