Sesselía Dan Róbertsdóttir, 6. sæti í Ölfusi:
Síðastliðna þrjá mánuði hef ég verið á flakki um Suðaustur Asíu ásamt kærastanum mínum. Á þessu tímabili höfum við heimsótt samtals sex lönd. Hvert land er dásamlegt á sinn hátt og það er alltaf jafn magnað að fara úr öðru landi yfir í það næsta, upplifa eitthvað glænýtt og kynnast nýjum menningarheimum. Það eru sannarlega forréttindi að fá tækifæri til að ferðast og skoða heiminn og á meðan á svona ferðalagi stendur finnur maður einnig hversu mikil forréttindi það eru að búa á Íslandi.
Ísland hefur nefnilega ótrúlega marga kosti sem aðrar þjóðir hafa ekki. Margt sem meðal annars ég, tek oft sem sjálfsögðum hlut. Tökum rafmagn sem dæmi en það er sannarlega ekki sjálfsagður hlutur alls staðar í heiminum. Hreint vatn sömuleiðis, hvergi er hreinna eða betra vatn en á Íslandi og eins furðulega og það nú hljómar þá kann ég mun betur að meta góðar skólplagnir en áður. Ef við skoðum umhverfismálin aðeins betur þá er hægara sagt en gert að finna ruslatunnur í mörgum löndum Asíu, hvað þá flokkunartunnur. Plastnotkun er einnig gríðarstórt vandamál en það sést kannski best þegar verslað er í matvörubúðum þar sem hver hlutur er settur í plastpoka, algjörlega óháð stærð. Til að toppa það er jafnvel nokkrum plaströrum hent með. En þó að umhverfisvernd sé vissulega mikilvæg þá er ekki síður vert í þessu samhengi að minnast þess að Ísland er ljósárum á undan hinum ýmsu þjóðum hvað varðar jafnrétti í sinni víðustu mynd þó enn sé töluvert í land. Við búum nefnilega við þau forréttindi að allir þeir sem hafa náð 18 ára aldri, konur jafnt sem karlar, mega kjósa og geta þannig haft áhrif á samfélagið sitt.
Nú þegar styttist í sveitarstjórnarkosningar finnst mér ég því knúin til þess að tala um mikilvægi þess að hver og einn nýti sinn kosningarétt. Að hver einstaklingur finni út hvað höfði til hans og taki meðvitaða og upplýsta ákvörðun. Í því sambandi langar mig ekki síst að beina orðum mínum til unga fólksins. Þar sem ég tilheyri þeim hópi þá hef ég fullan skilning á að það geti verið hinn mesti hausverkur að finna út hvað maður á að kjósa. Það þarf að leggjast í smá rannsóknarvinnu, skoða hvað hver listi hefur upp á að bjóða og mynda sér skoðun út frá því. Það er stutt síðan ég fékk að kjósa í fyrsta skipti og á þeim tíma fannst mér þetta heldur flókið. Ég skildi ekki allt sem hver og einn flokkur lofaði og átti því í stökustu vandræðum með að velja á milli. Mitt besta ráð við þessu er að nýta hvert tækifæri sem gefst til að afla sér upplýsinga, mæta á opna fundi og aðra viðburði, tala við frambjóðendur og heyra hvað þeir hafa að segja. Þrátt fyrir algengan misskilning þá eru málefni okkar unga fólksins nefnilega ÖLL réttmæt málefni og hver spurning á rétt á sér. Við búum jú í þjóðfélagi þar sem lýðræði er veruleiki og við eigum virkilega kost á því að hafa áhrif í sveitarfélaginu okkar. Ég hvet ykkur því til að nýta kosningaréttinn ykkar.
Þetta er í fyrsta sinn sem ég býð mig fram í sveitarstjórnarkosningum og ferlið er allt saman frekar nýtt fyrir mér. Í gegnum tíðina hef ég þó setið í hinum ýmsu ráðum og byrjaði ung að koma mínum skoðunum og hugmyndum á framfæri. Skólaárið 2013-14 gegndi ég stöðu formanns nemendaráðs Grunnskólans í Þorlákshöfn ásamt því að sitja í Ungmennaráði Ölfuss á árunum 2013-2015. Seinna var ég kjörin varaformaður nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands 2016-17. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á því að hafa áhrif á umhverfi mitt, koma skoðunum mínum og annarra á framfæri og almennt láta gott af mér leiða. Það var því rökrétt skref að bjóða mig fram á lista XD í Ölfusi með öllu því klára og frábæra fólki sem þar situr með mér. Ég hlakka til komandi tíma og vona að við fáum tækifæri til að gera gott samfélag ennþá betra.
Greinin birtist fyrst í Hafnarfréttum 16. maí 2018