HEILSUEFLANDI TÆKIFÆRI UM ALLAN BÆ
'}}

Sif Huld Albertsdóttir, 3. sæti í Ísafjarðarbæ:

Sjálfstæðisflokkurinn í Ísafjarðarbæ vill að miðstöð íþrótta í sveitarfélaginu verði á Torfnesi. Til að svo megi verða þarf að marka skýra stefnu og skipuleggja svæðið í heild til framtíðar, líkt og flokkurinn var með á stefnuskrá sinni fyrir fjórum árum og hafði eyrnamerkt fé til. Ekkert varð af þeirri vinnu því nýr meirihluti valdi þessi í stað að fara í samkeppni um heita potta við sundlaugina á Austurvegi. Þær tíu milljónir sem áttu að fara í að skipuleggja Torfnes til framtíðar voru notaðar í hönnunarsamkeppni um breytingar á húsnæðinu við Austurveg; ásamt tíu milljónum til viðbótar í sama verkefni. Þessar hugmyndir virðast þó hafa fallið í grýttan jarðveg því ekkert hefur til þeirra spurst nema í undarlegri skoðanakönnun meðal íbúa, sem skilur eftir sig fleiri spurningar en svör.

Skipulag Torfness

Íþróttahreyfingin kallar eftir fjölnota íþróttahúsi. Hefja skal byggingu á fjölnota íþróttahúsi strax á þessu ári, um leið verður farið í skipulag fyrir Torfnessvæðið í heild. Fjölnota íþróttahús gerir það að verkum að tímar fótboltans í íþróttahúsinu á Torfnesi losna og nýtast þá öðrum greinum. Nýja húsið mun einnig nýtast hinum almenna íbúa, t.d. til göngu eða hlaupa og ýmissa mannamóta.

Þegar fjölnota íþróttahúsið er risið þarf að huga að því að setja gervigrasvöll á aðalleikvöllinn þannig að hægt sé að nota þann völl sem æfinga- og keppnisvöll. Eins og grasvöllurinn er á sig kominn í dag getur einungis meistaraflokkur, og einstaka sinnum aðrir flokkar, spilað heimaleikina sína á vellinum.

Torfnesið býður upp á mikla möguleika til framtíðar í uppbyggingu íþróttaaðstöðu enda miðsvæðis í bænum og aðgengi að því gott. Svæðið er til dæmis tilvalið fyrir sundlaugar- og líkamsræktaraðstöðu til framtíðar og ber að hafa það í huga við skipulagningu á svæðinu.

Sundlaugar, skíði og fólkvangur í brennidepli

En þótt Torfnesið verði íþróttamiðstöðin eru tækifærin óteljandi um allt sveitarfélagið. Við viljum að Ísafjarðarbær allur sé ímynd heilsueflingar. Við viljum að sundlaugunum okkar verði vel við haldið og opnunartímar lengdir. Við ætlum að koma upp heitum pottum á útisvæði við sundlaugina á Þingeyri. Við teljum að laugarnar á Flateyri og Suðureyri þurfi aukna athygli en sú síðarnefnda er sú laug í sveitarfélaginu sem er mest notuð af almenningi og ferðamönnum yfir sumartímann.

Hugað verði að uppbyggingu á íþrótta- og útivistarsvæðum í öllum byggðakjörnum bæjarins í góðu samráði við íbúa. Í Tungudal og nágrenni er kjörið tækifæri til að koma upp fólkvangi. Skíðasvæðin okkar eru okkur öllum til sóma en alltaf má gera betur. Við viljum fara í endurskipulagningu á skíðasvæðinu með það í huga að gera það að útivistarparadís allt árið um kring. Við viljum bæta aðstöðu til skíðagöngu í öllum byggðakjörnum og gera Ísafjarðarbæ að gönguskíðamiðstöð Íslands.

Það felast heilsueflandi tækifæri um allan Ísafjarðarbæ og við ætlum að grípa þau!

Greinin birtist fyrst á vef Bæjarins besta 15. maí 2018 (sjá hér).