Skagafjörður til framtíðar – gerum gott samfélag enn betra
'}}

Regína Valdimarsdóttir, 2. sæti í Skagafirði:

Þar sem yfirstandandi kjörtímabil er senn á enda, er vert að staldra við og horfa yfir farinn veg. Mikill uppgangur hefur átt sér stað í íslensku samfélagi og er Skagafjörður engin undantekning frá því. Atvinnulíf hefur blómstrað, mikil uppbygging hefur verið í firðinum og íbúðarhúsnæði hafa risið upp úr moldinni sem aldrei fyrr – lífið hefur verið svo sannarlega gott í Skagafirði.

Skagafjörðurinn hefur ávallt togað mig til sín. Ég er ættuð úr Skagafirði og hef alla mína tíð verið hér með annan fótinn, bæði dvalið í sveit víðsvegar um fjörðinn og í sumarhúsi fjölskyldu minnar á Steinsstöðum í Lýtingsstaðarhreppi.

Jólin 2016 flutti ég í Skagafjörðinn ásamt fjölskyldu minni og fljótlega kom í ljós að hér vildum við byggja upp okkar heimili. Það var tekið vel á móti okkur er við komum norður og var reynsla okkar af þjónustu sveitarfélagsins góð. Við vorum heppin að fá íbúð á leigu, dóttir okkar fékk leikskólapláss og tveimur mánuðum síðar fengum við úthlutun á lóð þar sem við reisum nú okkar framtíðarheimili. Nú hafa aðstæður hins vegar breyst. Skortur er á dagvistunar- og leikskólaplássum, takmarkað framboð á leiguhúsnæði og engar lausar lóðir á Sauðárkróki. Þetta eru vandamál sem eru ekki viðunandi og úr þeim verður að leysa.

Á nýju kjörtímabili verðum við leita að víðtækum lausnum fyrir sveitarfélagið okkar. Skagafjörðurinn hefur svo margt upp á að bjóða og leynast hér ýmiss konar tækifæri til sóknar, bæði til uppbyggingu atvinnu- og fjölskyldulífs. Til að svo geti orðið og sveitarfélagið haldi áfram að dafna verða grunnstoðirnar samfélagsins að vera í lagi. Við viljum geta boðið nýtt fólk velkomið í samfélagið okkar og að ungt fólk sjái hag sinn í því að flytja aftur heim að námi loknu. Því er mikilvægt að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu til að unnt sé að fjárfesta í Skagafirði til framtíðar.

Það er stefna Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði að veita fjölskyldufólki betri þjónustu með því að fjölga dagvistunar- og leikskólaplássum. Tryggja nægt lóðaframboð og auka þannig aðgengi að húsnæði fyrir alla íbúa sveitarfélagsins. Sjálfstæðisflokkurinn mun setja þessi mál í forgang – þannig gerum við gott samfélag enn betra.

Greinin birtist fyrst í Feyki 15. maí 2018