Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins:
Fyrir síðustu kosningar lofaði Samfylkingin 3.000 leiguíbúðum fyrir „venjulegt fólk“. Fjórum árum síðar bólar ekkert á þeim. Í stað þess að nú séu íbúðir á hagstæðara verði en fyrir fjórum árum er reyndin önnur.
Hvar eru íbúðirnar?
Verðið er 50% hærra. Íbúðirnar skiluðu sér ekki á markaðinn. Íbúðirnar finnast bara í kynningarefni. Búið er að úthluta fjölda lóða, en þær eru bundnar skilyrðum og hafa ekki verið byggðar. Það skiptir litlu máli hverju er lofað en öllu hvað er efnt. Húsnæðisstefna núverandi borgarstjórnar hefur skilað dýrum og fáum íbúðum. Uppsöfnuð þörf fyrir húsnæði hefur aukist á hverju ári. Í fyrra voru tíu nýir íbúar um hverja íbúð í Reykjavík. Ekki minnkaði markaðsbresturinn við það.
Borgin bjó til húsnæðisskort
Á ráðstefnu Samtaka atvinnulífsins í gærmorgun kom skýrt fram hvernig tafir við skipulagsvinnu í Reykjavík hafa valdið skorti á húsnæðismarkaði. AirBnB hefur tekið til sín mikið af íbúðum og hefur ráðaleysi borgarinnar leitt til þess að íbúum í miðborg Reykjavíkur hefur fækkað mikið á síðustu árum. Skortur á nýjum íbúðum ásamt mikilli álagningu borgarinnar á húsnæði hefur hrakið marga úr borginni. Ungt fólk er í vaxandi mæli heima hjá foreldrum. Byggingarréttur á íbúð getur kostað 7-10 milljónir. Nærri helmingur kostnaðar við nýja íbúð í Reykjavík er fólginn í gjöldum borgarinnar, vaxtakostnaði og öðrum gjöldum. Aðeins helmingur kostnaðarins er hinn eiginlegi byggingarkostnaður; steypa, lagnir og innréttingar.
Raunsæjar lausnir
D-listi Sjálfstæðisflokksins hefur boðað hagkvæmar húsnæðislausnir á hagstæðum svæðum. Spennandi húsnæðiskostir í Örfirisey við Granda sem henta vel fyrir fyrstu kaup munu rísa ef við fáum til þess umboð í kosningunum 26. maí. Sama er að segja um Keldur þar sem þjónusta og byggð fara vel saman. Við horfum ennfremur til þess að efla Breiðholtið og þá ekki síst með uppbyggingu við Mjódd sem liggur á frábærum stað í miðju höfuðborgarsvæðisins með góðar tengingar. Allir þessir kostir munu að sama skapi létta á umferð, sem er mjög mikil í vesturátt á morgnana og í austur síðdegis. Með því að íbúðarbyggð sé í nálægð við vinnustaði minnkar álag á vegakerfið. Þessar lausnir eru nauðsynlegar til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaðnum. Með þessu verður Reykjavík aftur samkeppnishæf. Það er það sem þarf.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. maí 2018