Tækifæri til aukinnar framleiðslu
'}}

„Dettur mönnum í hug að menn hætti að éta skyr þó að Bretar gangi úr Evrópusambandinu? Það er einfaldlega verkefnið að semja þá við Breta um áframhaldandi aðgengi að þessari gæðavöru. Ég hef fulla trú á því að bændur hér á Íslandi séu að vinna mjög góða vinnu, í garðyrkjunni, mjólkinni, hrossum, kjúklingum, svínum,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í sérstakri umræðu á Alþingi í dag um tollasamning Íslands og ESB um landbúnaðarvörur. Málshefjandi var Birgir Þórarinsson.

„Erfiðleikarnir eru í sauðfénu en í flestum öðrum greinum er unnin frábær vinna og besta leiðin til að styrkja þetta enn frekar er að efla og ýta undir stuðning og styrk neytenda í samstarfi við bændur,“ sagði ráðherra.

Hann sagði að samningsgerð um tollasamninginn hefði hafist af hálfu íslenskra stjórnvalda árið 2012 að frumkvæði sláturleyfishafa og samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði til að opna á aukinn markaðsinngang til Evrópu. Samningurinn hafi síðan verið gerður í september árið 2015.

„Það tók tíma að koma þessum samningi til enda, þrjú til fjögur ár. Af því að hér var spurt hvort möguleiki sé á því að segja honum upp þá er það örugglega, vegna breyttra forsendna eins og ég skildi háttvirtan þingmann. Hann er þá að vísa til þess að Bretland er í útgönguviðræðum við Evrópusambandið,“ sagði Kristján Þór.

Síðan sagði hann um útgönguviðræður Breta: „Ég held að ég geti fullyrt að Bretar sjá ekki einu sinni fyrir endann á því samtali og þaðan af síður Evrópusambandið og hvað þá við Íslendingar sem sitjum ekki einu sinni á hliðarlínunni þar.“

Hann sagði of snemmt væri að spá fyrir um hvernig við gætum tekið upp slíka samninga við Breta.

„Ég […] held að það sé ágætt að hafa það á hreinu, að samkvæmt þessum samningi voru felldir niður tollar á rúmlega 340 tollskrárnúmerum, lækkaðir á 23. Af þessum 340 númerum báru þá þegar 244 númer engan toll. Þetta hafði því engin áhrif á þann stabba,“ sagði ráðherra.

Hann sagði Ísland hafa skuldbundið sig til að halda áfram þessum 244 tollnúmerum í núlltolli.

„Af hinum 100 númerunum sem eftir standa er um að ræða unnar landbúnaðarvörur svokallaðar og stærstu flokkarnir þar eru pítsur, pasta, súkkulaði, bökunarvörur, kökur, brauð, kex, súpur,“ sagði Kristján Þór.

Ráðherra sagði að innflutningur á kjöti hefði vaxið ört. „Við flytjum t.d. inn á árinu 2017 3.600–3.700 tonn af nauta-, svína- og alifuglakjöti þrátt fyrir að kvótinn sé ekki nema 778 tonn. Eftirspurninni innan lands er mætt með innflutningi á kjöti t.d. á fullum tollum. Það er umhugsunar virði, bæði fyrir okkur sem hér stöndum og ekki síður bændur. Ég veit til þess að bændur sjá í þessu tækifæri til að auka framleiðslu sína innan lands og hækka jafnvel verð ef því er að skipta,“ sagði ráðherra.

„Þegar það er síðan fullyrt hér að ekki hafi verið gripið til mótvægisaðgerða af hálfu ríkisins, á grundvelli þeirra tillagna sem landbúnaðarráðherra bárust 2016, þá er það rangt. Það voru átta tillögur í þessum pakka. Tvær eru komnar til fullra framkvæmda. Verið er að vinna á fullu gasi í þremur þeirra og þá standa væntanlega þrjár út af,“ sagði Kristján Þór við umræðuna á Alþingi í dag.

Alla umræðuna má finna hér.