Ljósaperur og girðingar
'}}

Katrín Atladóttir, frambjóðandi í 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins til borgarstjórnar Reykjavíkur:

Síðastliðin ár hefur Reykjavíkurborg staðið fyrir verkefninu Betri Reykjavík. Tilgangur verkefnisins er að gefa íbúum borgarinnar tækifæri til að setja fram hugmyndir um framkvæmdir í sínum hverfum og kjósa um þær. Ætla má að nokkur kostnaður sé við verkefnið. Það krefst óneitanlega utanumhalds, starfsmanna, vinnu við vefsvæði og kosningakerfi, auglýsingagerðar og fleira. Því er eðlilegt að það skili tilætluðum árangri.

En hver er árangurinn? Ef þær nítján hugmyndirnar sem koma til framkvæmda á árinu 2018 í hverfinu okkar eru skoðaðar sést að algengustu tegundir verkefna eru stígar (4), leiktæki (3), gróður (3), ruslatunnur og gámar (2) og lýsing (2). Meirihluti framkvæmda snýst sem sagt um venjubundna hluti sem borgin sér um, eða ætti að sjá um, nú þegar. Einnig er áhugavert að tæp 60% hugmyndanna sem koma til framkvæmda, eða ellefu af nítján, snúast um viðhald, að snyrta, bæta, fegra og endurbæta. Dæmi eru endurbætur á framhlið Laugardagslaugar, ný girðing við Bústaðaveg og ruslatunnur í Vogahverfi.

Ferlið gengur þannig fyrir sig að íbúar setja inn hugmyndir sem síðan er kosið um. Sumar hugmyndir komast síðan í aðra umferð, einskonar úrslit. Þar er kosið aftur, nú til að ákveða hvaða hugmyndir verða framkvæmdar. En í millitíðinni taka starfsmenn borgarinnar út allar þær hugmyndir sem þeim líst ekki á. Niðurstaðan virðist því að miklu leyti snúast um að kjósa um ýmiskonar smáverkefni og viðhald. Þannig hafa ágætis hugmyndir í efstu sætum fyrri umferðar síðustu árin aldrei komið raunverulega til álita fyrir íbúa hverfanna því þeim er kippt út. Þetta eru örlög spennandi hugmyndanna.

Er raunverulegt íbúalýðræði að íbúar fái að kjósa um viðhaldsverkefni og smáverk sem henta starfsmönnum borgarinnar? Fyrst tilgangurinn er þessi, væri mögulega hægt að leysa verkefnið Betri Reykjavík af hólmi með einföldu verkbeiðnakerfi? Lækka þannig kostnað, þar sem framkvæmdirnar snúast að miklu leyti um viðhaldsverkefni sem borgin ætti að sinna hvort sem er?

Greinin birtist fyrst í hverfisblaði Laugardals, Bústaða og Háaleitis 1. maí 2018