Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins:
Það var eitthvað svo viðeigandi að Samfylkingin skyldi velja Gamla bíó til að kynna kosningaloforð sín. Mörg þeirra hafa nefnilega verið sýnd áður en ekki kláruð. Gömul loforð eins og að tryggja 18 mánaða börnum leikskólapláss hafa verið sýnd á fjögurra ára fresti allt frá árinu 2002 þegar núverandi borgarstjóri tók fyrst sæti í borgarstjórn í meirihluta. Það hefur þó ekki gengið betur að efna þetta 16 ára gamla loforð en svo að nú eru alls 1.629 börn á biðlistum.
Endursýning
Fyrir síðustu kosningar lofaði Samfylkingin 3.000 leiguíbúðum „fyrir venjulegt fólk“ en lítið bólar á þeim. Þvert á móti hefur fasteignaverð snarhækkað í Reykjavík og margir flytja annað. Leigan hefur nefnilega snarhækkað og húsnæðislausum hefur fjölgað mjög mikið. Í stað þess að endursýna þetta loforð í Gamla bíó kom Dagur með aðra útgáfu og lofaði 1.000 íbúðum fyrir ungt fólk. Það er sá hópur sem á erfitt með fyrstu kaup þar sem nýjar íbúðir fást varla fyrir minna en 40 milljónir króna í dag. Það er ljóst að húsnæðismarkaðurinn hefur farið úr skorðum á síðustu fjórum árum, enda allt of lítið verið byggt af hagstæðu húsnæði í Reykjavík. Af hverju ætti fólk að trúa þessu núna? Er þetta ekki fullreynt?
Nýju fötin keisarans
En svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað segir máltækið. Í stað þess að viðurkenna vandann og axla ábyrgð á ástandinu er farin önnur leið. Núverandi meirihlutaflokkar sömdu við ríkið um að setja allar stórar framkvæmdir á ís árið 2012. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að við erum nú með gríðarlegar umferðartafir. Ekkert hefur gengið að efla almenningssamgöngur sem eru enn þá aðeins 4% ferða í borginni. Borgin ætti að forgangsraða skynsamlegum framkvæmdum og bæta ljósastýringu. Efla leiðakerfi Strætó svo það nýtist fleirum og bæta aðstöðu í biðskýlum í Mjódd, Kringlunni og víðar. En í staðinn er lofað upp í ermi ríkisins um Miklubraut í stokk og Borgarlínu. Þessi stóru verkefni munu saman kosta vel yfir hundrað milljarða en leysa samt aðeins hluta vandans.
Allt bendir til þess að loforð þessi verði því ekki að veruleika á næsta kjörtímabili. Líkt og loforðin um leikskólana sem hafa verið endursýnd á fjögurra ára fresti, loforðin um hagstæðu leiguíbúðirnar og samgönguloforðin eru eins og nýju fötin keisarans: Það sést í gegnum þau.
Birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. apríl 2018