Hildur Björnsdóttir, 2. sæti í Reykjavík:
Um hverfið leggur ljúfan angan af nýbökuðu brauði. Ferskan fisk og afskorin blóm má nálgast við næsta götuhorn. Helstu nauðsynjar og góðir nágrannar mætast í öngþveiti Melabúðar. Rjúkandi kaffi og ljúffengur ís innan seilingar. Nærþjónustu má nálgast í góðu göngufæri. Fólk mætir fólki – og á samskipti. Vesturbærinn er lifandi.
Hverfið okkar blómstrar sem aldrei fyrr. Það er á ýmsan hátt fyrirmynd annarra borgarhluta. Vesturbærinn er nú sjálfbær um heilmikla þjónustu og aðstæður kjörnar til útivistar og hreyfingar. Við íbúar hverfisins höfum ærna ástæðu til að fyllast stolti.
Þessi mikla gróska veldur því að íbúar annarra borgarhluta telja Vesturbæinn hljóta sérmeðferð hjá borgarsjóði. Að hverfið hafi undirgengist dekurmeðferð frá borgaryfirvöldum. Sú er þó ekki raunin. Sannleikurinn er sá að hverfið okkar hefur setið á hakanum.
Öflug nærþjónusta hverfisins byggir fyrst og fremst á framtakssemi einstaklinga. Hugmyndaauðgi og dugnaði – sem borgaryfirvöld hafa raunar fremur veitt fyrirstöðu en hvatningu. Það tók til að mynda Borðið við Ægisíðu heila 724 daga að fá vínveitingaleyfi. Skrifræði og flækjustig sem eflaust olli vandræðum. Þetta er ekkert einsdæmi.
Við eigum heilmargt sem fyllir okkur stolti. Melaskóli er ein sögufrægasta bygging borgarinnar. Viðhaldi er ábótavant og byggingin ræður illa við nemendafjöldann. Ægisíðan er þekkt útivistarparadís. Skolp og sorp flæða um fjörurnar með tilheyrandi umhverfistjóni. Hjarta hverfisins slær hjá KR í Frostaskjóli. Sennilega hefur ekkert íþróttafélag borgarinnar upplifað annað eins fjársvelti síðustu ár. Á sama tíma gera borgaryfirvöld milljarða samninga við önnur íþróttafélög.
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík vill styðja betur við Vesturbæinn. Við viljum stækka húsnæði Melaskóla svo aðstaða kennara og nemenda verði viðunandi. Við viljum veita KR þá aðstöðu og stuðning sem félaginu ber. Tryggja þarf eðlilega starfsemi dælustöðva svo skolp og annar úrgangur rati ekki í fjörur hverfisins. Stórbæta þarf aðgengi að endurvinnslu sorps. Hreinsa þarf bæjarhlutann – og borgina alla.
Stöndum vörð um hverfið okkar. Gerum betur fyrir Vesturbæinn.
Birtist fyrst í Vesturbæjarblaðinu 26. apríl 2018