Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins:
Borgin þarf á breytingum að halda í vor. Við núverandi ástand í húsnæðismálum, samgöngumálum, leikskólamálum og málefnum eldri borgara og stjórnsýslunnar verður ekki unað mikið lengur. Jafnframt er ekki hægt að sætta sig við að rekja megi 60-80 ótímabær dauðsföll árlega til svifryksmengunar. Þess vegna höfum við í Sjálfstæðisflokknum lagt til skýr markmið sem munu breyta borginni en þau skipta alla íbúa Reykjavíkur höfuðmáli.
Leysum húsnæðisvandann
Á síðasta ári voru aðeins 322 íbúðir byggðar í Reykjavík. Það er langt undir öllum markmiðum. Við viljum bæta við hagstæðum svæðum eins og Keldum og Örfirisey og ná þannig jafnvægi í framboð lóða og húsnæðis. Borgin leggur of háar fjárhæðir á húsnæðislóðir og þess vegna er húsnæði dýrt. Við stefnum á að ná jafnvægi í húsnæðismálum með 2.000 einingum á ári og Reykjavík verði aftur samkeppnishæf.
Styttum ferðatíma fólks
Sífellt meiri tími fer í ferðir. Umferðarteppan er stundum eins og í stórborg. Núverandi meirihluta hefur algerlega mistekist að ná tökum á vandanum og hefur ferðatími aukist um 26% á fjórum árum. Við leggjum til fjölþættar aðgerðir til að leysa þennan vanda: Fækka ljósastýrðum gatnamótum, bæta ljósastýringu, efla almenningssamgöngur. Bæta borgarskipulagið þannig að fleiri stofnanir og fyrirtæki fái lóðir austar í borginni. Allt þetta mun hafa stórbætandi áhrif á umferðina og þar með stytta vinnuvikuna, enda fer allt of mikill tími í tafir.
Leysum leikskólavandann
Þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur ekki tekist að manna leikskólana í Reykjavík. Engin mannekla er í stjórnkerfinu en leikskólarnir glíma við fjárskort og skilningsleysi núverandi meirihluta. Við viljum spara í stjórnkerfinu og nútímavæða það. Hækka laun lægst launuðu starfsmanna leikskólanna. Fjölga dagforeldrum og minnka þannig biðlistana. Auka sjálfstæði leikskólanna. Þetta er raunhæf áætlun sem við munum hrinda af stað ef við fáum ykkar stuðning.
Tökum til í Reykjavík
Borgin okkar er ekki eins hrein og við viljum. Hún er illa hirt. Við munum leggja áherslu á aukna flokkun og skilvirkari sorphirðu. Götur verði sópaðar og þrifnar mun oftar en nú er. Stuðla að rafbílavæðingu. Og tryggja það að svifryksmengun fari aldrei yfir heilsufarsmörk. Þá er hreint vatn og hreinar strendur lágmarkskrafa. Gerum Reykjavík að grænustu borg í Evrópu.
Bætum kjör eldri borgara
Borgin hefur hækkað gjöld á íbúana á síðustu átta árum. Á sama tíma hafa eldri borgarar orðið fyrir skerðingum. Við viljum koma til móts við eldri borgara og veita 100% afslátt fyrir þá sem eru orðnir 70 ára. Þetta er réttlætismál þar sem hér er verið að draga úr tekjuskerðingum. En þetta er jafnframt skynsamlegt þar sem það er mun hagstæðara að þeir sem geta og vilja búa heima eigi þess kost. Það er dýrt og óskynsamlegt að stofnanavæða heilu hópana. Og það er engin lausn í húsnæðismálum að skattleggja eldri borgara út úr húsum sínum.
Minnkum stjórnkerfið
Afgreiðslutími í borgarkerfinu er allt of langur. Stýrihópar skipta hundruðum. Ákvörðunum er frestað. Það þarf að færa stjórnkerfi Reykjavíkurborgar inn í 21. öldina. Einfalda afgreiðslu og stytta boðleiðir. Innleiða sjálfsafgreiðslu og svara íbúunum fljótt og vel. Við ætlum að stytta afgreiðslutíma borgarinnar strax um helming. Með þessu munum við spara umtalsverða fjármuni sem nýtast í raunverulega þjónustu við íbúana. Þetta er okkar stefna. Með þínum stuðningi verður hún að veruleika.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. apríl 2018