Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins:
Borgin á að þjóna íbúum sínum. Það er hennar eina hlutverk. Þannig sinna skólar borgarinnar börnunum okkar á mikilvægustu mótunarárum þeirra. Þá ber Reykjavíkurborg að tryggja að fólk komist greiðlega á milli staða. Enn fremur á borgin að gæta þess að framboð lóða og húsnæðis sé nægt. Fjölmargt annað ber borginni að gera en víða er misbrestur á að þjónustan sé í lagi. Þetta staðfesta þjónustukannanir Gallup, en þar er Reykjavík langneðst á meðan íbúar í nágrannasveitarfélögunum eru hæstánægðir með sín sveitarfélög.
Á síðustu árum hefur kerfið vaxið og versnað, enda er stórt kerfi og flókið ólíklegt til að virka vel. Á öllum sviðum stjórnsýslunnar hefur stjórnkerfið orðið þyngra. Á sama tíma og flest fyrirtæki einfalda þjónustu sína og notast við rafræn og sjálfvirk kerfi fer Reykjavík í átt til gamaldags stjórnsýslu. Erindum er svarað seint. Stundum alls ekki. Þegar við ferðumst til útlanda er allt ferlið rafrænt, frá miðakaupum til innritunar. Því er öfugt farið í Reykjavík. Í stað þess að kostnaður lækki með því að nota rafræna stjórnsýslu vex hún hratt. Eitt dæmi er „skrifstofa um miðlæga stjórnsýslu“ sem kostaði heilar 1.872 milljónir árið 2011 og þótti mörgum nóg um. Nú er talið að „skrifstofa um miðlæga stjórnsýslu“ kosti tvisvar sinnum meira á þessu ári eða þrjú þúsund fjögur hundruð tuttugu og eina milljón!
Kostnaðurinn heldur áfram aukast. Á næsta ári á svo að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 23. Það kostar sitt. Skrifstofa borgarstjóra kostaði 157 milljónir árið 2009 en áætlaður kostnaður við skrifstofuna nú er 820 milljónir á þessu ári. Það er nokkuð hressileg hækkun. Þó verið geti að fleiri verkefni séu komin á skrifstofu borgarstjóra er ljóst að þessi útþensla stjórnsýslunnar skilar sér ekki til íbúa borgarinnar. Í fjárhagsáætlun fyrir síðasta ár var gert ráð fyrir 700 fullbyggðum íbúðum í Reykjavík en eins og alkunna er urðu þær aðeins 322. Það er ekki víst að fjölmennari miðstýrðar skrifstofur skili sér í bættri útkomu, að minnsta kosti skriplar stjórnkerfið hér á skötunni í eigin áætlunum.
Nútímavætt og einfalt stjórnkerfi er mun vænlegra til árangurs. Minnkum kerfið, enda kostar það sitt og setjum fjármagnið í þjónustu við íbúana.
Birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. apríl 2018