Borgaryfirvöld virðast ekki hafa áhuga á hverfinu okkar
'}}

Egill Þór Jónasson, 4. sæti í Reykjavík:

Hverfi borgarinnar mynda nærsamfélög þeirra einstaklinga sem þar búa. Nærsamfélag tekur til ýmissa þátta í nánasta umhverfi einstaklinga, eins og vegamála, bygginga, skipulagðrar opinberrar starfsemi, þjónustu og innbyrðis tengsl við aðra íbúa. Borgaryfirvöld hafa því mikið að segja um nærsamfélag einstaklinga en áhugavert er að íhuga hvernig borgaryfirvöldum hefur tekist að rækja það hlutverk sitt á undanförnum árum.

Í samtölum mínum við fjölda fólks í mínu nærsamfélagi í gegnum tíðina, þ.e. Breiðholti, og þá sérstaklega síðustu ár, hljómar alltaf sama stefið: Borgaryfirvöld virðast ekki hafa jafnmikinn áhuga á hverfinu okkar og öðrum hverfum borgarinnar. Það er auðvitað ekki vísindaleg aðferð að vísa í samtöl við fólk þegar málefni hverfisins eru rædd en á meðan Reykjavíkurborg neitar að taka þátt í þjónustukönnunum er fátt annað í stöðunni. Gallup sá um framkvæmd þjónustukönnunarinnar og hafði Reykvíkinga inn í úrtakinu til þess eins að fá samanburðarniðurstöður. Niðurstaða könnunarinnar var sláandi en Reykjavík kom langverst út af öllum sveitarfélögum á landinu. Í stað þess að finna lausnir og bæta þjónustu við ósátta borgarbúa voru viðbrögð borgarfulltrúa úr meirihlutanum við niðurstöðunni á þá leið að gera lítið úr umræddri þjónustukönnun. Þessi viðbrögð borgarfulltrúa meirihlutans renna stoðum undir upplifanir íbúa í Breiðholti sem minnst var á hér að framan.

Kosið um sjálfsagt viðhald

Viðhaldsleysi í hverfinu hefur einnig verið til umræðu, m.a. í tengslum við rafræna kosningu „Betri Reykjavík“ sem fór fram nýlega. Í þeirri kosningu voru íbúar hverfisins svo „heppnir“ að fá að velja á milli sjálfsagðs viðhald og um nýframkvæmdir í hverfinu. Vilt þú sparkvöll fyrir barnið þitt í hverfið eða lagfæra svæði við færanlegar kennslustofur við Seljaskóla? Auðvitað vil ég sparkvöll en geri um leið kröfu um að aðbúnaður barna og starfsmanna Seljaskóla sé í lagi. Það er öllum ljóst að nauðsynlegt viðhald á eignum borgarinnar ætti að vera sjálfsagt mál en ekki valkostur sem stillt er upp á móti öðrum kosti með ósanngjörnum hætti þannig að íbúar í hverfinu standa frammi fyrir valkreppu.

Til þess að skapa gott nærsamfélag í hverfum borgarinnar er mikilvægt að öll hverfi borgarinnar hafi málsvara í borgarstjórn, hlustað sé á þarfir íbúa og hverfum sýndur sá áhugi og virðing sem þau eiga skilið. Þessu þarf að breyta!

Birtist fyrst í Breiðholtsblaðinu  16. mars 2018