Fíllinn og rekstur sjálfstæðra fjölmiðla

Óli Björn Kárason þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar 

„Við eig­um að búa til um­hverfi þar sem frjáls­ir fjöl­miðlar, sjálf­stæðir fjöl­miðlar, ná að blómstra, ná að festa ræt­ur þannig að þeir geti sinnt hlut­verki sínu. Það er staðreynd að miðað við það fyr­ir­komu­lag sem við höf­um haft er búið að skekkja stöðuna á þann hátt að ekki verður við unað.“

Þannig komst und­ir­ritaður að orði í sér­stök­um umræðum um stöðu einka­rek­inna fjöl­miðla á þingi síðastliðinn fimmtu­dag. Ég bætti við:

„Fíll­inn í stof­unni heit­ir Rík­is­út­varpið.“

Fyr­ir­ferð Rík­is­út­varps­ins á ís­lensk­um fjöl­miðlamarkaði er mik­il og því úti­lokað að ræða stöðu einkarek­inna fjöl­miðla án þess að beina at­hygl­inni að rík­is­miðlin­um. Ef það er ein­læg­ur vilji stjórnvalda og þing­manna að styðja við fjöl­breytni í fjöl­miðlum og búa svo um hnút­ana að einka­reknir fjöl­miðlar fái þrif­ist, verður ekki hjá því kom­ist að skil­greina hlut­verk og skyld­ur Ríkisútvarpsins. Tryggja að rík­is­rekst­ur ryðji ekki sjálf­stæðum fjöl­miðlum úr veg­in­um.

Spurn­ing­um sem er ósvarað

Í októ­ber 2015 skilaði nefnd mennta­málaráðherra skýrslu um starf­semi og rekst­ur Rík­is­út­varps­ins. Þar var varpað fram ákveðnum spurn­ing­um, sem flest­ir hafa forðast að svara:

  • Er ohf. rekstr­ar­formið heppi­legt fyr­ir starf­semi Rík­is­út­varps­ins?
  • Á Rík­is­út­varpið að vera á aug­lýs­inga­markaði?
  • Er Rík­is­út­varpið best til þess fallið að ná fram mark­miðum sem snúa að ís­lenskri menn­ingu, tungu og lýðræðisum­ræðu?
  • Er hægt að fá betri nýt­ingu á sam­eig­in­leg­um fjár­mun­um lands­manna (út­varps­gjaldið) en að láta það renna til rík­is­rek­ins fjöl­miðils?

Efn­is­leg umræða um skýrsl­una var tak­mörkuð og frem­ur reynt að skjóta formann nefnd­ar­inn­ar á færi. En spurn­ing­arn­ar eru jafn­gild­ar í dag og þegar skýrsl­an var lögð fram. Lík­lega er mik­il­væg­ara en áður að spurn­ing­un­um sé svarað þegar stöðugt flæðir und­an sjálf­stæðum fjöl­miðlum.

Ég hef aldrei farið leynt með efa­semd­ir mín­ar um rétt­mæti þess að ríkið reki og eigi fjölmiðlafyrirtæki. En ég geri mér fylli­lega grein fyr­ir því að seint verður sátt um að leggja niður ríkisrekst­ur á öld­um ljósvak­ans. Og ekki skal gera lítið úr ein­lægri sann­fær­ingu margra um að nauðsyn­legt sé að ríkið eigi og reki fjöl­miðil til að standa við bakið á ís­lenskri menn­ingu, list­um, sögu og tungu.

Útvist­un eða sam­keppn­is­sjóðir

Ef til­gang­ur­inn er sá að styðja við ís­lenska menn­ingu, tungu og lýðræðisum­ræðu, eru aðrar leiðir færar en rík­is­rekst­ur, eins og Þor­steinn Víg­lunds­son, þingmaður Viðreisn­ar, benti á í umræðum síðasta fimmtu­dag. „Ég velti því fyr­ir mér hvort aðkoma rík­is­ins að því að skaffa ís­lenskt hágæða dagskrárefni geti frek­ar verið í gegn­um sam­keppn­is­sjóði held­ur en að reka fjöl­miðil,“ sagði Þor­steinn sem tel­ur það miklu heil­brigðara að styðja alla fjöl­miðla við fram­leiðslu á ís­lensku efni og tryggja bæði „fram­boð ís­lensks efn­is og vernda tung­una okk­ar, en þá ættu all­ir fjöl­miðlar að sitja við sama borð um aðgang að fjár­magni til fram­leiðslu á slíku efni, ekki ein­ung­is einn í krafti rík­is­stuðnings“.

Til­laga Þor­steins um sam­keppn­is­sjóð fjöl­miðla er í takt við hug­mynd­ir sem ég hef áður sett fram enda virðumst við vera sam­mála um að verk­efnið sé að finna leiðir til að tryggja lif­andi öfl­uga fjölmiðlun og byggja und­ir grósku­mikið menn­ing­ar- og list­a­líf.

Í grein sem birt­ist í tíma­rit­inu Þjóðmál­um árið 2010 lagði ég til að spil­in væru stokkuð upp – hlut­verk Rík­is­út­varps­ins yrði sniðið að breytt­um aðstæðum. „Nýtt Rík­is­út­varp“ hætti allri dag­skrár­gerð fyr­ir utan að reka frétta­stofu. Allt dag­skrárefni út­varps og sjón­varps verði keypt af sjálf­stæðum framleiðend­um, fyr­ir utan kaup á hágæða er­lendu efni.

Við Íslend­ing­ar eig­um ótrú­lega hæfi­leika­ríkt fólk á öll­um sviðum lista og menn­ing­ar. En við erum að sóa fjár­mun­um og nýt­um því hæfi­leik­ana ekki.

Til­lög­ur um sam­keppn­is­sjóð og/​eða út­vist­un alls dag­skrárefn­is utan frétta miða að því að nýta fjármuni bet­ur og efla dag­skrár­gerð og al­menna fjöl­miðlun. Í áður­nefndri Þjóðmála­grein var full­yrt að allt þjóðfé­lagið myndi krauma ef hug­mynd­ir af þessu tagi næðu fram að ganga:

„Við mun­um leysa úr læðingi krafta og hug­mynda­sköp­un sem auðgar ís­lenskt menn­ing­ar- og viðskipta­líf langt um­fram drauma. Íslend­ing­ar verða í sér­flokki þegar kem­ur að list­um og menn­ingu. Eng­in þjóð í heim­in­um mun verja jafn­mikl­um fjár­mun­um með bein­um hætti til lista og menn­ing­ar og varðveislu eig­in sögu og tungu. Við mun­um sjá spreng­ingu sem á sér vart líka og skapa áður óþekkt skil­yrði fyr­ir full­huga á öll­um sviðum sköp­un­ar. Best af öllu er að þjóðfé­lagið allt verður skemmtilegra.“

Mér hef­ur alltaf fund­ist sú hug­mynd heill­andi að á hverju ári geti ís­lensk­ir kvik­mynda- og dagskrárgerðar­menn um allt land átt mögu­leika á því að sjá góðar hug­mynd­ir ræt­ast, hvort held­ur þeir eru bú­sett­ir í Reykja­vík, á Þórs­höfn eða í Stykk­is­hólmi.

Friðhelgi og ægi­vald

Þeir eru marg­ir sem leggj­ast gegn öll­um hug­mynd­um af þessu tagi. „Fíll­inn“ í stof­unni skal friðhelg­ur. En um leið eru gef­in fyr­ir­heit um að tryggja rekst­ur einka­rek­inna fjöl­miðla.

Auðvitað er hægt að jafna leik­inn – gera sam­keppn­is­um­hverfi fjöl­miðla lít­il­lega heil­brigðara. Nefnd um rekstr­ar­um­hverfi einka­rek­inna fjöl­miðla skilaði í síðustu viku til­lög­um um aðgerðir í sjö liðum sem geta lag­fært rekstr­ar­skil­yrði fjöl­miðla að nokkru. Til­lög­urn­ar eru ágæt­ar svo langt sem þær ná en munu vart leggja grunn að öfl­ug­um sjálf­stæðum fjöl­miðlum til framtíðar. Um­hverfi sjálf­stæðra fjölmiðla verður ekki heil­brigt fyrr en hlut­verk Rík­is­út­varps­ins verður skil­greint að nýju og a.m.k. þeim fjór­um spurn­ing­um sem varpað var fram hér á und­an verður svarað. Um leið verða stjórn­völd að gera sjálf­stæðum fjöl­miðlum kleift að mæta harðri sam­keppni er­lendra sam­fé­lags­miðla um auglýs­ing­ar og efni.

Ég vona að ægi­vald rík­is­rek­ins fjöl­miðils sé ekki orðið svo mikið að stjórn­mála­menn treysti sér ekki til að breyta leik­regl­un­um. Veigri sér við að jafna stöðu sjálf­stæðra og rík­is­rek­inna fjöl­miðla. Komi sér hjá því að plægja jarðveg fyr­ir öfl­uga einka­rekna fjöl­miðla – ekki síst þeirra sem vilja veita mót­vægi við ríkj­andi viðhorf sam­fé­lags­ins og stinga á graft­arkýl­um. Fær­ist und­an því mik­il­væga verk­efni að stuðla að fjöl­breytni í flóru fjöl­miðla með líf­legri þjóðfé­lagsum­ræðu og öfl­ugu lista- og menn­ing­ar­lífi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 31. janúar 2018.