Svigrúm til að styrkja innviði
Þessi árangur hefur leitt til þess að nú fer að sjá til sólar í fjármálum bæjarfélagsins. Framundan er hraðari niðurgreiðsla óhagstæðustu skulda bæjarins og þar með lækkun fjármagnskostnaðar sem hefur verið einn af stærstu útgjaldaliðum bæjarfélagsins.Það léttir talsvert á rekstrinum og skapar jafnframt svigrúm til að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir sem verða fjármagnaðar með eigin fé.
Nýlega var opnaður nýr leikskóli í Hafnarfirði sem eingöngu var byggður fyrir eigið fé sveitarfélagsins. Yfirstandandi ár er það fyrsta í hálfan annan áratug sem bærinn þarf ekki að taka lán til framkvæmda eða til að borga af lánum. Á árinu hefur búnaður eins og tölvur inni í leik- og grunnskólum bæjarins verið endurnýjaður að hluta eftir uppsafnaða þörf. Stefnt er að því að gera enn betur í þeim efnum ásamt því að auka fjármagn til viðhalds. Spjaldtölvuvæðing nemenda er hafin og áætlað að í byrjun árs 2018 verði allir nemendur í 5.-10. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar komnir með slík tæki. Þá hefur kennsluúthlutun verið aukin umfram fjölgun nemenda í grunnskólum bæjarins og þar með stöðugildum kennara verið fjölgað, leikskólagjöld ekki hækkað í þrjú ár, niðurgreiðslur auknar til dagforeldra og frístundastyrkir auknir.
Lægri álögur og gjöld
Þessi breytta staða sýnir okkur að með markvissum og vel ígrunduðum aðgerðum er hægt að ná árangri í opinberum rekstri án þess að bitni á þjónustu. Að mínu mati á það jafnan að vera keppikefli kjörinna fulltrúa að fara vel með fjármuni skattgreiðenda. Að nýta þá fyrst og fremst í þau verkefni sem hinu opinbera ber að sinna og gera það þá af metnaði.Í Hafnarfirði munum við halda áfram á sömu braut, sýna ábyrgð og ráðdeild í rekstrinum til hagsbóta fyrir Hafnfirðinga og framtíð þeirra. Þá fer líka að verða grundvöllur til þess að lækka álögur og gjöld í bæjarfélaginu.
Höfundur er formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.