Háir skattar eru ekki heilbrigðismál

Sumir meta það sem svo að ekki verði stemning fyrir því að ræða skattalækkanir í aðdraganda næstu kosninga. Heilbrigðismálin þurfi að setja í forgang og það rými illa við loforð um skattalækkanir.

Ég tek undir þá spá að heilbrigðismál verði mjög til umræðu í komandi kosningum. Vanbúnaður í víðum skilningi blasir við víða í heilbrigðiskerfinu og við því þarf að bregðast nú þegar efnahagurinn loks leyfir. Á þessu kjörtímabili hefur einmitt verið gengið í þá átt meðal annars með sérstökum auknum fjárframlögum til Landspítala, fjölgun heilsugæslustöðva og ríflegum launahækkunum til lækna. En betur má ef duga skal og ég tek undir það að hið opinbera setji heilbrigðismál ofar en margt annað á forgangslistann þegar kemur að því að deila út fé skattborgaranna. „Aukið fé til heilbrigðismála“ verður trúlega helsta kosningaloforð allra flokka.

En þá að hinu. Þarf eitt að útiloka annað? Nei, enda eru skattalækkanir ekki sérstakur útgjaldaliður ríkissjóðs. Það er ekki bara raunhæft að halda áfram að lækka skatta eins og við sjálfstæðismenn höfum gert á kjörtímabilinu samhliða uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu, heldur nauðsynlegt til langs tíma. Heilbrigðiskerfið þarf að búa við stöðugleika og geta brugðist við nýjum áskorunum á einu sviði án þess að það komi niður á öðrum. Til þess að svo megi verða þurfa fyrirtæki, launþegar og neytendur, á hverra fé heilbrigðiskerfið byggist, að fá frið til þess að búa til þetta fé. Eitt af því sem skapar óstöðugleika í þessum efnum er skattlagning sem við sammælumst þó um. Þess vegna er mikilvægt að hún sé réttlát og auðskilin öllum sem undir hana falla. Á því er nokkur brestur í dag en skref hafa verið stigin í jákvæða átt á þessu kjörtímabili. Afnám vörugjalda á fatnað og skó og afnám almennra tolla eru dæmi sem hafa haft jákvæð áhrif á efnahagslífið. Það skilar sér enda nú í kosningaloforðum allra flokka til handa heilbrigðiskerfinu.

Það kann að vera að það sé ekki sérstök „stemning“ fyrir því að ræða skattalækkanir. Það segir manni bara eitt, það að sumir átta sig ekki á hversu víðtæk, flókin og skaðleg efnahagslífinu skattlagningin er orðin á Íslandi. Jafn áfjáðir í alls kyns umræðu og stjórnmálamenn eru þá er það umhugsunarvert hversu lítið þeir ræða skattamál almennt. Það heyrir til undantekninga að skattar séu ræddir á alþingi. Það er helst þegar undanþiggja á einhvern frá sköttum. Það kann að vera ákveðið hagsmunamál sumra stjórnmálamanna að ræða ekki flókið skattkerfið. Í heimi þar sem allt á að vera „frítt“ eru það hins vegar kannski fréttir fyrir suma að ekkert er í raun frítt, nema kannski brosið eitt.

Forgangsröðun í þágu heilbrigðismála þýðir að fé skattgreiðenda sé veitt til heilbrigðismála fremur en í önnur mál. Um það virðist sátt.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 14. ágúst 2016. / saa@althingi.is.