Bessastaðir
'}}

Bessastaðir á Álftanesi eiga sér um þúsund ára sögu með þjóðinni. Sennilega hefst búseta þar fljótlega eftir að land byggðist. Það er svo eftir aldamótin 1200 að Snorri Sturluson eignast Bessastaði. Þá verða Bessastaðir höfðingjasetur. Eftir víg Snorra Sturlusonar eignast Noregskonungur Bessastaði og jörðin verður aðsetur æðsta valdsmanns konungs á Íslandi. Á Bessastöðum voru einnig fangar geymdir, sérstaklega þegar beðið var með að senda þá til afplánunar erlendis, ellegar þegar beðið var með aftökur. Þannig er því lýst í Íslandsklukkunni þegar Jón heitinn Hreggviðsson bíður örlaga sinna í svartholinu á Bessastöðum, áður en það varð ljóst að hann var þjóðhagi og gat gert gagn í Þrælakistunni. Þar hitti Jón nafna sinn Þeófílusson, bónda að vestan, sem reynt hafði fyrir sér í göldrum, ætlaði að galdra til sín konu en allt farið úrskeiðis. Það átti að brenna Jón Þeófílusson en menn voru ekki aflögufærir um hrís fyrir vestan. Jón Þeófílusson bað þess í heilan vetur að verða höggvinn í staðinn fyrir brenndur, og kjökraði mikið. Jón Hreggviðsson huggaði nafna sinn og sagði; Þú verður áreiðanlega brenndur.

Grímur Thomsen eignast Bessastaði

Eftir að setur valdsmanna fluttist frá Bessastöðum hófst þar skólahald um sinn. Ekki eru geymdir þar skálkar lengur, utan eitt sinn rétt fyrir síðara stríð. Að lokum komust Bessastaðir úr konungseign þegar Grímur skáld Thomsen, sem fæddist á Bessastöðum, eignaðist jörðina í skiptum fyrir jörðina Belgsholt í Melasveit. Grímur hafði um skeið verið embættismaður og skáld í Danaveldi en sneri heim og hóf afskipti af stjórnmálum sem hann stundaði eins og íþrótt. Grímur var heimsmaður án þess að verða útlendingur. Grími og konu hans, Jakobínu, varð ekki barna auðið. Eftir hans dag verða tíð eigendaskipti á Bessastöðum. Frá 1897 til 1940 eru sex eigendur að jörðinni. Árið 1940 keypti Sigurður Jónasson, forstjóri Tóbakseinkasölu ríkisins, Bessastaði af Björgúlfi Ólafssyni lækni. En Björgúlfur hafði verið læknir í nýlenduher Hollendinga í Austur-Indíum. Hugðist hann stunda heldrimannabúskap á þessari jörð norður í Dumbshafi.Fyrirætlanir Sigurðar á Bessastöðum hafa verið öllum ráðgáta í heil 75 ár. Kannski hefur Sigurður ætlað að gera góð kaup eða láta draum sveitapiltsins um búskap nærri þéttbýli rætast.

Embætti ríkisstjóra

Þannig háttaði til í upphafi síðari heimsstyrjaldar árið 1940 að Danmörk var hernumin af þýskum her en Ísland af breskum her. Það komu upp álitamál á hvern veg skyldi farið með konungsvaldið á þessum tíma. Í júní 1941 var lagt fram frumvarp til laga um ríkisstjóra Íslands. Í 1. gr. frumvarpsins sagði: „Alþingi kýs ríkisstjóra til eins árs í senn og fer hann með vald það, sem konungi er falið í stjórnarskránni.“ Alls er frumvarpið um ríkisstjóra í 10 greinum auk ákvæðis um gildistöku. Virðist sem reiknað hafi verið með að sá er embættinu gegndi skuli hafa dómgreind til að fara vel með vald sitt.Í 10. gr. er fjallað um hvar ríkisstjóri skuli búa; „Ríkisstjóri hefur aðsetur í Reykjavík eða næsta nágrenni.“

Íslenska ríkið fær Bessastaði að gjöf

Af umræðum á Alþingi má draga þá ályktun að strax hafi þótt álitlegt að ríkisstjóri og væntanlegur forseti sæti á Bessastöðum. Önnur hugmynd var sú að ríkisstjóri skyldi búa að Fríkirkjuvegi 11 í Reykjavík. Í bréfi sem ríkisstjóri skrifar á Þorláksmessu 1943 telur ríkisstjóri að Fríkirkjuvegur 11 hefði aldrei orðið nógu virðulegt ríkisstjórasetur eða embættisbústaður fyrir væntanlegan lýðveldisforseta. Forsætisráðherra spurðist fyrir um jörðina hjá Sigurði. Sigurður svarar ráðherra; „Ég hafði eigi hugsað mér að selja jörðina fyrst um sinn og þær fyrirætlanir sem ég hafði um jörðina hnigu eigi í þá átt að selja hana í heilu lagi.“ Svo heldur Sigurður áfram; „ég er sömu skoðunar og þeir menn, sem telja jörðina sökum legu lands og náttúrufegurðar vel til þess fallna til þess að vera bústaður æðsta valdsmanns íslenska ríkisins og vil því gefa ríkinu kost á að fá jörðina til eignar í því skyni.“Sigurður Jónasson keypti jörðina ári áður fyrir kr. 150.000. Beinn umreikningur þessarar fjárhæðar til verðlags í dag jafngilti um 30 m. kr. sem fullyrða má að sé víðs fjarri líklegu markaðsvirði nú. Einhverjar endurbætur hafði hann gert á jörðinni á þessu eina ári sem hann hafði átt jörðina. Þrátt fyrir það á forstjórinn bágt með að nefna verð: „Söluverð vil ég eigi nefna vegna þess að ég geri ráð fyrir að mat mitt myndi þykja nokkuð hátt, einkum þar sem ríkið væri kaupandi. Þess vegna býð ég yður fyrir hönd íslenska ríkisins að taka við Bessastöðum ásamt Lambhúsum og Skansi og 1/3 hluta Breiðabólstaðaeyrar sem gjöf.“

Á móti óskaði Sigurður eftir að fá greiddan kostnað af endurbótum frá því hann tók við jörðinni en jafnframt lagði hann fram bankabók með innistæðu fyrir öllum lánum, sem á jörðinni hvíldu. Sú bankabók er meðal skjala um Bessastaði í Þjóðskjalasafni Íslands. Ríkisstjórnin tók þessu boði og afsal var gefið út fyrir jörðinni 21. júní 1941.

Þetta var höfðingleg gjöf á sínum tíma. Af umræðum á Alþingi í júní 1941 virðist mikil samstaða um málið, þótt nokkrir þingmenn hafi talið Bessastaði langt frá Reykjavík. Bessastaðir eru og verða höfðingjasetur, frá dögum Snorra Sturlusonar til okkar daga.

Sigurður Jónasson hafði ráðið Gunnlaug Halldórsson arkitekt til að vinna að endurbótum á húsakosti. Var því haldið áfram eftir að ríkið eignaðist Bessastaði. Lengst af bjuggu forseti og fjölskylda í Bessastaðastofu. Sem betur fer hefur verið byggt sérstakt hús fyrir heimili forseta. Sigurður óskaði eftir því að skógi yrði plantað í Gálgahraun, að þeim hluta er snýr að Bessastöðum. Það hefur ekki verið gert og óvíst hvort það yrði til bóta fyrir ásýnd Bessastaða. Bessastaðir eiga að blasa við í traustum einfaldleik sínum.

Góðar óskir

Það er von og ósk að hver sá er fer með forsetavald á Bessastöðum fari vel með það vald. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Forseti er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum. Forseti ber ekki ábyrgð á Alþingi og Alþingi ber ekki ábyrgð á forseta. Hvorir tveggju skulu sýna hinu gagnkvæma virðingu.Forseti skal þess minnugur að þegar hann telur sig ómissandi, þá er mjög sennilegt að forseti hafi setið of lengi á valdastóli. „Ekki skaltu freista drottins Guðs þíns, og þá ekki heldur þjóðar þinnar af þrásetu. En það kalla ég þrásetu, að sjá ekki sitt aldursmark. Nýjar kynslóðir vaxa upp, en vér sem erum á áttæðisaldri, vöxum fram af.“ Svo mælti einn ágætur forseti.

Megi góðar óskir fylgja nýkjörnum forseta í æðsta embætti lýðveldisins.

Höfundur er alþingismaður.