Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á traust, trúnað, gagnkvæma virðingu, uppbyggileg samskipti og jafnræði. Flokksmönnum ber að temja sér kurteisi og háttvísi í framkomu og sýna hver öðrum virðingu.
Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða ofbeldi af öðru tagi er ekki undir nokkrum kringumstæðum látið viðgangast. Kjörnir fulltrúar til sveitarstjórnar eða þings og trúnaðarmenn flokksins sem með orðum, látbragði eða atferli ógna eða ögrar öðrum, leggur einstakling í einelti eða sýnir honum kynferðislega áreitni, kynbundið áreiti eða ofbeldi, telst brjóta gegn grundvallarreglum flokksins um samskipti meðal fólks. Slík hegðun getur leitt til áminningar og/eða þess að miðstjórn skori á geranda að láta af öllum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Flokkurinn skuldbindur sig til að tryggja það að þolandi hafi greiðan aðgang að ráðgjafafyrirtæki sem mun taka málið til skoðunar. Sjálfstæðisflokkurinn skuldbindur sig til að bregðast við ábendingum frá ráðgjafafyrirtækinu til þess að fyrirbyggja að óviðeigandi hegðun fái viðgengist innan flokksins.
Í skilgreiningum er horft til reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
Mikilvægt er að kjörnir fulltrúar, frambjóðendur á vegum flokksins og til embætta innan flokksins, formenn og stjórnir landssambanda, kjördæmisráða, fulltrúaráða, félaga og málefnanefnda og allir þeir sem gegna trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn fari fram með góðu fordæmi og stuðli að því með framkomu sinni að skapa menningu þar sem flokksmönnum líður vel, gagnkvæm virðing ríkir og hvatt sé til opinna samskipta.
Kjörnir fulltrúar þurfa að vera meðvitaðir um aðstæður sem geta ýtt undir einelti, áreitni og ofbeldi og fyrirbyggja óviðeigandi hegðun s.s. með því að taka strax á neikvæðu tali, vera fyrirmynd í framkomu og samskiptum. Það er á ábyrgð allra að viðhafa tillitsemi og umburðarlyndi í samskiptum.
Aðili sem telur sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi á viðburði[1] á vegum Sjálfstæðisflokksins, í innra starfi[2] á vegum flokksins eða af hálfu kjörins fulltrúa og eða aðila sem gegnir trúnaðarstarfi fyrir Sjálfstæðisflokkinn[3] getur tilkynnt slíkt til: Attentus (attentus@attentus.is / sími 519-7510) sem muna vinna að úrlausn málsins í samráði við meintan þolanda.
Telji ráðgjafafyrirtækið að grípa þurfi til ráðstafana/aðgerða skal málinu, í samráði við þolanda, vísað til miðstjórnar. Miðstjórn getur gripið til viðeigandi ráðstafana. Sé málið þess eðlis að það varði við lög skal því umsvifalaust í samráði við þolanda vísað til lögreglu. Á meðan á ferli stendur ber að notast við hugtökin meintur þolandi og meintur gerandi. Öll gögn sem fram koma eru meðhöndluð sem trúnaðarmál og varðveitt á öruggum stað í samræmi við lög og reglur um persónuvernd. Á meðan á athugun stendur yfir skal reynt að tryggja að gerandi og þolandi þurfi ekki að vera í samskiptum í málefnum er varðar flokkinn.
Stefna þessi var samþykkt á fundi miðstjórnar 13. ágúst 2019 og kemur þegar til framkvæmda.
[1] Á meðan á viðburði stendur sem haldinn er og auglýstur í nafni flokksins og félaga innan hans. [2] Fundir, kosningabarátta og annað almennt félagsstarf á vegum Sjálfstæðisflokksins. [3] Kjörinn fulltrúi til sveitarstjórnar eða þings, frambjóðendur á vegum flokksins og til embætta innan flokksins, formenn og stjórnir landssambanda, kjördæmisráða, fulltrúaráða, félaga og málefnanefnda og allir þeir sem gegna trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.