Sérstök umræða um ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum

Ræða Vilhjálms Árnasonar í sérstakri umræðu um ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum

9. október 2023

 

Virðulegi forseti

,,Hvernig nýtum við eigur þjóðarinnar sem best fyrir þjóðina sjálfa‘‘ er spurningin sem við ræðum hér í dag.

Ég vil því byrja á að þakka hæstvirtum fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að koma til þessarar umræðu. Ísland er velferðarsamfélag sem sést best á því að hver mælikvarðinn á fætur öðrum sýnir að Ísland er best í heimi og að hvergi sé betra að búa en hér á landi. Enn stöndum við þó frammi fyrir ýmsum áskorunum svo að við getum hlúið að velferð íslensku þjóðarinnar og einstakra hópa sem þarf að hlúa betur að.

Sterkir og öflugir innviðir skipta þar mestu máli, að við getum gert enn betur, gera gott velferðarkerfi enn betra. Leysa áskoranir.

Gunninnviðir eru samgöngu-, orku- og fjarskiptainnviðir. Allt eru þetta innviðir sem tryggja aukið öryggi í daglegu lífi, auka frelsi til búsetu, auka hagkvæmni bæði við heimilis- og atvinnurekstur og eru, síðast en ekki síst, grunnurinn að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu sem eykur hagvöxt og lengi mætti telja áfram. Þessir innviðir gefa okkur aukið svigrúm til að gera betur fyrir fólkið í landinu.

Þetta eru einmitt þeir innviðir sem við sjáum verða fyrst fyrir skaða í þeim löndum sem nú geisar stríð í. Það er hörmulegt að þurfa að horfa upp á þá eyðileggingu sem þar fer fram, þegar þær þjóðir þurfa einmitt á uppbyggingu þessara innviða að halda til að tryggja öryggi sitt og velferð: líkt og Marshall aðstoðin studdi við uppbyggingu innviða á Íslandi á árunum eftir seinni heimstyrjöldina þá mun þurfa álíka stuðning í þeim löndum þar sem nú ríkir stríð til þess að byggja upp þá innviði sem þar hafa orðið eyðileggingunni að bráð.

Töluverð innviðaskuld hefur safnast jafnt og þétt upp á Íslandi. Fólksfjölgun hefur orðið, ferðaþjónustan hefur byggst upp sem heilsárs atvinnugrein, samhliða orkuskiptum hefur eftirspurn eftir orku stóraukist og framleiðsla til útflutnings hefur aukist um allt land svo nokkur dæmi séu nefnd.

Því er spurningin hvernig byggjum við upp ofantalda innviði með skuldsettan ríkissjóð?

Í mínum huga og í huga okkar í Sjálfstæðisflokknum skiptir mestu að fara eins vel með opinberar eigur og opinbert fé eins og hægt er. Þetta eru jú ekkert annað en skattpeningar okkar sem búum í þessu landi.

Því tel ég mikilvægt að við veltum við hverjum steini varðandi þær eignir sem ríkissjóður og þjóðin á, sjá hvort við séum að láta þær eignir vinna eins vel fyrir þjóðina eins og hægt er. Ríkið er jú einn stærsti eigandi og rekstraraðili á flestu og um leið, að mínu mati, einn sá versti.

Þar er ég að hugsa um ríkið sem fasteignaeiganda, sem rekstraraðila í sölu vöru- og þjónustu, sem framkvæmdaaðila fasteigna- og innviða og sem landeiganda. En ég hef oft sagt í þessum ræðustól áður að ríkið er versti landeigandinn.

Sem dæmi vill ég nefna að í nýliðinni kjördæmaviku hittum við þingmenn Suðurkjördæmis fjölda sveitarfélaga sem höfðu öll sömu söguna að segja. Að þau væru með áhugasama aðila um nýtingu opinbers lands til atvinnu- og verðmætasköpunar sem sveitarfélögin voru áfram um að gengu eftir. En enginn þessara aðila sem voru í viðræðum við sveitarfélögin vildu vera undir ríkisvaldinu komin með sína uppbyggingu. Um leið gekk ekkert hjá neinu sveitarfélaginu að semja við ríkið um afnot eða kaup á ríkislandinu. Á meðan er ríkislandið ónotaður mói sem skapar engin verðmæti fyrir íslenska þjóð.

Sömu sögu hafa bændur og aðrir einstaklingar um land allt að segja vegna þeirra fjölda bújarða sem ríkið á. Að ekki sé nú talað um þjóðlendurnar og friðlýst svæði. Ég trúi því ekki að ríkið vilji eiga allt þetta land til að drepa allt frumkvæði einstaklinganna í dróma. Viljum við ekki frekar koma þessu landi í opinberri eigu í vinnu til verðmætasköpunar og innviðauppbyggingar?

Fasteignir eru annað dæmi, við heyrum ítrekuð dæmi um viðhaldsskort og kostnaðarsamar endurbætur á opinberu húsnæði, hvort sem það eru hjúkrunarheimili, skólar eða aðrar stofnanir ríkisins.  Hvort sem það séu endurbæturnar eða nýframkvæmdirnar fara alltaf langt fram úr kostnaðaráætlun.

 

Svo eru það opinberu fyrirtækin, ISAVIA, fjármálafyrirtækin eins og Íslandsbanki, Íslandspóstur, Orkusalan, ÁTVR, Ríkisútvarpið og áfram mætti telja. Þarna eru töluverðar eignir bundnar inni, skapa ríkissjóði aukna áhættu en skila ríkissjóði litlum sem engum arði. T.d. ISAVIA sem er líklega metið á rúmlega 200 milljarða og borgar ekki arð til ríkissjóðs. Þar eru miklar framkvæmdir í gangi sem eykur fjárhagslega áhættu ríkissjóðs sem eina eiganda fyrirtækisins. Væri ekki ráð að losa um 100 milljarða út úr þessu fyrirtæki og greiða upp í skuldir, þá annars vegar innviðaskuld og hinsvegar fjárhagslegar skuldir ríkissjóðs. Þá færi þessi eign að skila okkur arði í gegnum minni fjármagnskostnað og aukna verðmætasköpun í gegnum betri innviði.

Því spyr ég hæstvirtan fjármálaráðherra

 

  • Hvaða ríkiseignir sér fjármála- og efnahagsráðherra tækifæri til að selja á komandi misserum?
  • Hvaða upphæðir telur fjármála- og efnahagsráðherra að hægt fá fyrir sölu á þessum ríkiseignum?
  • Í hvaða mikilvægu innviðum væri hægt að fjárfesta fyrir söluandvirði þessara ríkiseigna?