Sjálfstæðisflokkurinn styður eindregið þjóðaröryggisstefnu Íslands og hvetur til þess að henni sé fylgt fast eftir í framkvæmd. Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna tryggja í grundvallaratriðum öryggi landsins. Náið samstarf við Bretland og Norðurlönd, svo sem á vettvangi Norræna varnarsamstarfsins (NORDEFCO), og sameiginlegu viðbragðssveitinni (JEF) eru öryggi þjóðarinnar einnig til styrktar.
Endurvakin landvinningastefna Rússaveldis stefnir öryggi heimsbyggðarinnar í hættu eins og innrás í Úkraínu og hótanir um beitingu kjarnavopna sýna. Pútín-stjórnin hefur sjálf staðfest að innrásin sé aðeins upphaf að umbyltingu þess öryggiskerfis sem Evrópuríki hafa búið við frá lokum kalda stríðsins. Alþjóðastofnanir og mannréttindasamtök hafa þegar fært sönnur á svívirðileg mannréttindabrot innrásarhersins í Úkraínu.
Sjálfstæðisflokkurinn fordæmir innrás Rússneska sambandsríkisins í Úkraínu, innlimunaráformum þess og ofsóknum á hendur úkraínsku þjóðinni.
Líkt og í kalda stríðinu felst helsta trygging heimsfriðar í samstöðu og varnarstyrk lýðræðisríkja. Atlantshafssáttmálinn kveður á um gagnkvæmar varnir, einn fyrir alla og allir fyrir einn. Íslendingar hafa staðið við skuldbindingar við bandalagið með því að taka þátt í rekstri og endurnýjun varnarmannvirkja í landinu og styðja við loftrýmisgæslu, sem þjónar í senn sameiginlegum vörnum og landvörnum. Við þær háskalegu aðstæður, sem nú ríkja og fyrirsjáanlegar eru í ljósi gjörbreyttrar heimsmyndar, telur Sjálfstæðisflokkurinn brýnt að treysta öryggi landsins í samræmi við þjóðaröryggistefnuna og skuldbindingar við Atlantshafsbandalagið. Ísland á sífellt að leita leiða til þess að taka þátt í verkefnum sem gagnast sameiginlegum vörnum Atlantshafsbandalagsins og vera verðuðugur bandamaður með því að leggja það af mörkum sem okkur er mögulegt og kemur raunverulega að gagni.
Veilur í vörnum Íslands og tillitsleysi við öryggi grannríkja geta aldrei afstýrt árásarhættu, heldur bjóða slíkri hættu beinlínis heim. Sjálfstæðisflokkurinn bendir á að eftir umsókn Finna og Svía í Atlantshafsbandalagið hafa allar Norðurlandaþjóðirnar fallið frá hlutleysi og komist að sömu niðurstöðu um gildi sameiginlegra varna Vesturlanda. Þessar þjóðir, að Íslendingum undanskildum, halda uppi herjum til landvarna og kappkosta nú að efla þá með ærnum tilkostnaði. Íslendingar hafa ekki fé og mannafla til slíkra varna, en þeir hvorki geta né mega skerast úr leik við að tryggja eigin varnir og sameiginlegar varnir á Atlantshafi, lífæð Vesturlanda.
Sjálfstæðisflokkurinn fagnar nýrri grunnstefnu NATO frá 29. júní 2022 og öryggis- og varnarmálayfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlandanna frá 15. ágúst 2022 og hvetur til þess að markvisst verði unnið að því að framkvæma þær skuldbindingar sem í þeim felast.
Nauðsynlegt er að takast á við nýjar ógnir sem snúa að netöryggi, fjölþátta ógnum og aðferðum sem beitt er til að hlutast til um innri málefni opinna lýðræðissamfélaga. Efla þarf öryggi almennings, stofnana og fyrirtækja gagnvart ágangi erlendra ríkja og skipulagðri glæpastarfsemi. Friðhelgi einkalífs ber að tryggja á þessu sviði eins og öðrum.
Sjálfstæðisflokkurinn tekur undir mótmæli íslenskra stjórnvalda gegn því að Alþýðulýðveldið Kína skuli hafa gert ráðstafanir til að beita íslenskan ríkisborgara refsingum fyrir að hafa tjáð skoðanir sínar opinberlega. Málfrelsi er bundið í stjórnarskrá Íslands og frá því verður ekki vikið.
Mikilvægt er að ríki heims virði samninga um bann við gereyðingarvopnum og takmörkun á fjölda þeirra.Markmiðið er að vopnunum sé útrýmt undir öruggu eftirliti.
Mikilvægi norðurslóða vex eftir því sem loftslag hlýnar og hafís bráðnar. Umhverfi norðurslóða er afar viðkvæmt og ætíð verður að taka tillit til þess við nýtingu auðlinda í sjó og á landi.
Íslensk stjórnvöld eiga að beita sér fyrir því að ákvæði hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna um skiptingu hafsvæða séu virt.
Vegna innrásar Rússneska sambandsríkisins í Úkraínu hefur verið gert hlé á samvinnu við Rússa í Norðurskautsráðinu. Atlantshafsbandalagið hefur heitið því að auka viðbúnað sinn á norðurslóðum til mótvægis við aukna áherslu Rússa á eigin vígbúnað, einkum fjölgun og þróun kjarnavopna.
Þrátt fyrir vaxandi viðsjár hvetur Sjálfstæðisflokkurinn til að áfram verði reynt að viðhalda samstarfi norðurslóðaríkja í þágu gagnkvæmra hagsmuna. Langtímamarkmiðið er afvopnun á norðurslóðum undir öruggu eftirliti en ekki vopnakapphlaup.
Meginstef íslenskrar utanríkisstefnu er að tryggja frjáls viðskipti og aðgang þjóðarinnar að alþjóðamörkuðum. Leiðarljósið er að staðinn sé vörður um grunnatvinnuvegi þjóðarinnar. Fæðuöryggi telst til lífshagsmuna Íslendinga.
Viðskipta-, stjórnmála- og menningartengsl við Evrópuríkin og Bandaríkin eru Íslendingum augljóslega mikilvægust. Brýnt er að tryggja áfram opinn og frjálsan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins (ESB) á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og treysta jafnframt viðskiptasambönd við Bandaríkin og Bretland.
Sjálfstæðisflokkurinn fagnar frumvarpi sem liggur fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings um aukin umsvif á norðurslóðum, sér í lagi heimild fyrir Bandaríkjastjórn til fríverslunarsamninga við ríkisstjórn Íslands. Flokkurinn hvetur ríkisstjórnina til að fylgja því áformi sínu eftir af festu til að slíkir samningar náist sem fyrst.
Fyrir 30 árum réð Sjálfstæðisflokkurinn úrslitum um aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu (EES) og þar með hófst eitt mesta framfaratímabil í sögu þjóðarinnar.
Áríðandi er að halda áfram að efla hagsmunagæslu Íslendinga innan ramma EES og tryggja að tækifæri til áhrifa á öllum stigum mála séu nýtt til fulls, meðal annars með aukinni skilvirkni í samræmi við tillögur sérfræðihópa um framkvæmd EES-samningsins. Mikilvægt er að tryggja framkvæmd EES-samningsins á grundvelli tveggja stoða kerfisins. Sjálfstæðisflokkurinn telur framsal valdheimilda til stofnana Evrópusambandsins óheimilt brjóti það gegn tveggja stoða kerfi EES.
Tengsl Íslands við ESB eru almennt í farsælum farvegi með EES-samningnum. Sjálfstæðisflokkurinn áréttar þá stefnu sína frá 2009 að hag þjóðarinnar og yfirráðum hennar yfir auðlindum sínum sé best borgið utan ESB. Ekki verði sótt aftur um aðild að sambandinu nema Íslendingar hafi áður samþykkt það í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Íslandi ber að axla ábyrgð í samfélagi þjóða, meðal annars með þátttöku í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og framlagi til mannúðarmála. Mikilvægt er að leggja aukna áherslu á að nýta krafta íslensks atvinnulífs í þróunarsamvinnu í samræmi við breyttar áherslur í alþjóðasamstarfi. Aðalmarkmið skal ætíð vera að bæta líf og hag fátækra þjóða.
Ísland er alþjóðleg fyrirmynd í jafnréttismálum og ber að beita sér áfram á alþjóðavettvangi fyrir jafnrétti kynjanna og gegn allri mismunun á grundvelli kynferðis, stjórnmálaskoðana og/eða trúarbragða. Mikilvægt er að jafnrétti og mannréttindi setji áfram svip á utanríkisstefnu þjóðarinnar. Ísland á einnig að nota rödd sína til að vera talsmaður mikilsverðrar mannréttinda, svo sem tjáningarfrelsis og mikilvægis frjálsra skoðanaskipta, á alþjóðlegum vettvangi.
Hvað sem líður hættuástandi í veröldinni, vill Sjálfstæðisflokkurinn að Ísland styðji af einurð raunhæfa friðarviðleitni, eflingu mannréttinda og gagnkvæma afvopnun undir traustu eftirliti. Íslendingum ber að taka áfram virkan þátt í baráttu gegn hungri, sjúkdómum, háskalegum loftslagsbreytingum og fátækt í heiminum.
Byggt á ályktun utanríkismálanefndar 44. landsfundar Sjálfstæðisflokksins 2022.