Íslendingar eiga mikið undir umhverfinu og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Sjálfbær þróun mætir kröfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða. Hún byggist á þremur meginstoðum; vistfræðilegri, félagslegri og efnahagslegri, sem eru óaðskiljanlegar og háðar hver annarri. Aðgerðir og ákvarðanir varðandi nýtingu og vernd náttúrunnar skulu teknar með sjálfbærni og framtíðarafkomu þjóðarinnar að leiðarljósi.
Loftslagsbreytingar sökum of mikils koldíoxíðs í lofti og sjó er ein stærsta ógnin við öryggi og efnahag þjóðarinnar. Metnaðarfull markmið Íslands um samdrátt í losun og bindingu kolefnis og markmið um kolefnishlutleysi kalla á skýra sýn og nálgun sem á að byggja á frumkvæði og framtaki einstaklinga og atvinnulífs. Hlutverk stjórnvalda er að skapa það umhverfi að hægt sé að ná settum markmiðum og vega þar þungt aðgerðir sem hvetja til orkuskipta í lofti, láði og legi. Í því samhengi er ljóst að afla þarf grænnar orku svo hægt sé að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir græna orkugjafa. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því að orku- og loftslagsmál séu nú í sama ráðuneyti, enda sitthvor hlið á sama peningnum þar sem óframkvæmanlegt er að ná settum markmiðum í loftslagsmálum nema til komi aukin græn orka.
Íslendingar eiga að beita sér af fullum krafti fyrir verndun lífríkis sjávar, þar á meðal aðgerðum sem beinast gegn súrnun og hækkun hitastigs, enda eigum við mikið undir gjöfulum auðlindum hafsins. Líkt og með hönnun og setningu aflamarkskerfisins, á Ísland að vera leiðandi í öruggri, sjálfbærri og framsýnni þróun á reglum og hvötum til að bregðast við versnandi heilsu sjávar. Gera á greiningu á helstu hættum sem steðja að sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda vegna koldíoxíðsmengunar og hafinu gerð sérstök skil í aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.
Einkaframtakið og eignarétturinn er besta náttúruverndin. Greiða skal leið einkaframtaks til að hafa jákvæð umhverfisleg áhrif og auka með því líkur á árangri. Líta ber á nýsköpun og samstarf frumkvöðla, fyrirtækja og opinberra aðila sem jákvæða viðbót í sameiginlegt átak til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Ljóst er að á næstu árum munu eiga sér stað grundvallarbreytingar á hagkerfum heimsins sökum loftslagsbreytinga og vegna viðbragða stjórnvalda, atvinnulífs, og einstaklinga við þeim. Ísland býr að einstökum náttúruauðlindum, aðgengi og þekkingu á hafinu, sterku vísinda- og frumkvöðlasamfélagi og ímynd um sjálfbærni og er því í kjöraðstöðu til að vera leiðandi í uppbyggingu á nýjum iðnaði á sviði föngunar, förgunar og nýtingar kolefnis. Mikilvægt er að öll sú kolefnisförgun og binding sem stefnir í að verði stunduð á Íslandi telji inn í losunarbókhald landsins eða nýtist varðandi markmið Íslands í loftslagsmálum.
Hvetja skal til nýsköpunar og notkunar á helstu tækninýjungum þegar kemur að endurvinnslu og flokkun úrgangs með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og samræma flokkunarreglur og aðferðir um land allt og skapa aðstæður fyrir aukna samkeppni. Til að fyrirtæki geti þróað nýjar lausnir á þessu sviði þurfa þau að geta nálgast hráefni og orku til að skapa verðmæti. Með því að auka aðgengi að ónýttum afurðum framleiðsluferla ýtum við undir nýsköpun. Lögð skal áhersla á eflingu hringrásarhagkerfisins með aukinni fullendurvinnslu innanlands.
Ráðast þarf í markvissar aðgerðir til þess að draga úr plastmengun á landi sem og í sjó.
Mikilvægt er fyrir náttúruvernd Íslendinga að vinna að uppgræðslu og jarðvegsbindingu. Það verður best gert í samstarfi við þá sem hafa, vilja og geta grætt og ræktað landið. Brýnt er að endurskoða lög um skógrækt og landgræðslu, með tilliti til eftirfylgni. Tímabundin kolefnisbinding fæst ekki bara með að planta trjám heldur er einnig mikilvægt að grisja þá skóga sem fyrir eru og nýta afurðir sem mest innan hringrásarhagkerfisins.
Uppbygging þjóðgarða verður að vera í sátt við sveitarfélög, landeigendur, nýtingarréttarhafa og aðra hagaðila. Eigi að auka umfang þjóðgarða og friðlýstra svæða, má ekki fara út fyrir markmið friðlýsingar og ávinningur þarf að vera ljós. Líta þarf til þess að tryggja ferðafrelsi um hálendi Íslands, öruggan flutning raforku sem og nauðsynlega nýtingu auðlinda. Leggja ber áherslu á að stjórnun og umsjón friðlýstra svæða og þjóðgarða sé sem mest í höndum heimamanna í samráði við þá sem nýta og njóta svæðisins. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar þeirri ákvörðun að lögheimili Vatnajökulsþjóðgarðs hafi verið flutt á Höfn í Hornafirði.
Fiskeldi, hvort heldur sem er í sjó eða á landi, er mikilvæg viðbót við öflugan sjávarútveg sem stundaður er á Íslandi. Mikil tækifæri felast í fiskeldi og útflutningsverðmæti eru mikil. Stíga þarf varfærin skref og gera ströngustu kröfur í umhverfismálum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi þegar kemur að fiskeldi í sjó og á landi.
Þegar kemur að nýtingu náttúruauðlinda Íslands hefur reynst vel að nýtingar- og afnotaréttur sé í höndum einkaaðila. Ráðstöfun nýtingarréttinda á auðlindum í opinberri eigu skal vera gagnsæ með almannahag að leiðarljósi. Virða ber eignar- og nýtingarrétt einstaklinga á auðlindum og ekki grípa til þjóðnýtingar eða skerðingar á réttindum einstaklinga, nema nauðsyn beri til. Að sama skapi ber að vinna gegn þeim sjónarmiðum að ríkið þurfi að eignast allt land sem er mikilvægt m.t.t. náttúruverndar.
Innviðir samfélagsins skipta almenning og atvinnulífið miklu máli og eru þáttur í því að tryggja lífsgæði, velferð og samkeppnishæfni Íslands. Brýnt er að flýta frekari uppbyggingu flutningskerfis raforku, ekki síst til að bæta afhendingaröryggi í einstökum landshlutum og auka um leið samkeppnishæfni þeirra en ekki síður vegna loftslagsmarkmiðanna. Áfram skal lögð áhersla á dreifingu þriggja fasa rafmagns. Í því sambandi þarf að tryggja að flutningur og dreifing raforku sé örugg og verðlagning sanngjörn óháð staðsetningu. Stjórnvöld verða að tryggja með öllum tiltækum ráðum afhendingaröryggi raforku um allt land og ryðja þannig braut að grænn iðnaðaruppbyggingu og orkuskiptum. Hryggjarstykkið í því að ná markmiðum í loftslagsmálum er öflugt flutningskerfi raforku.
Unnuð upp úr ályktun umhverfis- og samgöngunefndar á 44. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2022.