Skattamál

  • Lækka skal skatta og einfalda skattkerfið til að draga úr neikvæðum áhrifum og hvötum
  • Einfalt og skilvirkt skattaumhverfi er forsenda öflugs og blómlegs atvinnulífs
  • Lækka þarf tryggingagjald sem fyrst og einfalda virðisaukaskattskerfið
  • Mikilvægt er að endurskoða skattlagningu fjármagnstekna, þannig að skattlagning taki mið af raunávöxtun fremur en nafnávöxtun
  • Mikilvægt er að skattalegir hvatar séu fyrir hendi til að ýta undir fjárfestingu í nýsköpun

Samkeppnishæf starfsskilyrði og hagstætt fyrirtækjaumhverfi eru lykilatriði góðra lífskjara. Einfalda þarf skattkerfið og lækka tekjuskatt á einstaklinga. Stefna ber að því að tekjuskattur og útsvar einstaklinga lækki í áföngum í samtals 25% á næstu árum og að þessu markmiði verði náð árið 2025. Einfalt og skilvirkt skattaumhverfi er forsenda öflugs og blómlegs atvinnulífs, dregur úr freistni til undanskota og eykur vilja til atvinnuþátttöku.

Mikilvægt er að líta til heildaráhrifa skattkerfisins og á samspil þess og almannatrygginga. Skattstofnar eiga að vera breiðir og gæta þarf að því að jaðarskattar hafi sem minnst áhrif á ákvarðanatöku og velferð almennings. Lækka þarf tryggingagjald sem fyrst og einfalda virðisaukaskattskerfið. Nauðsynlegt er að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga með hliðsjón af verkaskiptingu, án þess að auka skattheimtu.  Landsfundur leggst gegn hvers kyns aukinni og óhóflegri skatt- og gjaldheimtu á nýbyggingar.

Landsfundur fagnar afnámi stimpilgjalds af lánaskjölum en áréttar að stefnt skuli að afnámi allra stimpilgjalda. Innheimta þjónustugjalda skal endurspegla raunkostnað við viðkomandi þjónustu. Mikilvægt er að endurskoða skattlagningu fjármagnstekna, þannig að skattlagning taki mið af raunávöxtun fremur en nafnávöxtun. Ennfremur skal endurskoða skattlagningu leigutekna en sú skattlagning leiðir, fyrst og fremst til hærra leiguverðs og meiri skattaundanskota.

Mikilvægt er að skattalegir hvatar séu fyrir hendi til að ýta undir fjárfestingu í nýsköpun.

Byggir á ályktun efnahags- og viðskiptanefndar á 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins