Samgöngu- og fjarskiptamál

Samgöngur – lífæð samfélagsins

Samgöngur eru lífæð samfélagsins og leggja þarf áherslu á að allar samgöngur séu mikilvægar hvort heldur sem er á lofti, láði eða legi. Sjálfstæðisflokkurinn leggur ríka áherslu á að ráðist verði í alvöru úrbætur í samgöngum þar sem áhersla er lögð á hraðari uppbyggingu með betri nýtingu fjármuna. Við gerð samgönguáætlunar ættu öryggissjónarmið og ábati samgönguúrbóta fyrir nærsvæði að hafa mest vægi. Með því móti er lagður grunnur að meira öryggi, sterkari byggðastefnu, atvinnusköpun, auknum hagvexti og umhverfisvænni samgöngum. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því átaki sem átt hefur sér stað í samgöngumálum. Ekki hafa verið settir jafn miklir fjármunir í vegakerfið í lengri tíma. Auknar framkvæmdir í samgöngum eru hagrænar aðgerðir sem skila sér í auknum hagvexti. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar áformum um stóraukin framlög til samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Skerpa þarf á framkvæmd samgöngusáttmálans og tímasetningum. Styrkja þarf rekstur og viðhald innviða samgöngumannvirkja og efla afkastagetu, t.d. með snjallvæðingu umferðarstýringa. Nauðsynlegt er að lokið verði sem fyrst við ófrágengna fjármögnun innviða og rekstrar. Aðilar sáttmálans þurfa að vinna saman að markmiðunum. Sérstök áhersla skal lögð á nýjar ljósastýringar, mislæg gatnamót á Bústaðavegi og Reykjanesbraut, jafnframt Arnarnesvegi og tengingu við Breiðholtsbraut. Með honum skal tryggja bættar samgöngur og frelsi einstaklinga þegar kemur að samgöngumáta, hvort sem um er að ræða almenningssamgöngur, almenna bifreiðaumferð, gangandi eða hjólandi. Einn samgöngumáti á ekki að þrengja að öðrum. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að þetta mikilvæga verkefni sé undirbúið vel, kynnt vel fyrir íbúum og um það sköpuð góð sátt. Mikilvægt er að tryggja arðbæra nýtingu fjármuna þannig að markmið um greiðari samgöngur, aukin lífsgæði og valfrelsi í samgöngum náist.

Ráðast þarf í flýtiframkvæmdir í samgöngum á grundvelli fjölbreyttari fjármögnunar og í samstarfi við einkaaðila en þannig er hægt að ná fram hraðari uppbyggingu samgöngumannvirkja. Sundabraut er gott dæmi um aðkallandi og nauðsynlega framkvæmd sem hægt væri að vinna með þeim hætti. Sundabraut er forgangsverkefni sem ber að flýta sem mest. Þrátt fyrir að stöðugt hafi verið þrengt að legu hennar er enn mögulegt að koma henni í framkvæmd. Með bættum innviðum í samgöngum eykst umferðaröryggi sem hefur verið ábótavant um langt árabil.

Stóraukin áhersla verði lögð á uppbyggingu stofn- og tengivega um land allt. Ferjuleiðir verði skilgreindar sem þjóðvegir og þannig litið á þær sem hluta af þjóðvegakerfinu. Mótuð verði áætlun um gerð jarðganga til lengri tíma, styrkingu ferjuleiða, m.t.t. tíðni og öryggis og viðhald flugvalla og uppbyggingu varaflugvalla fyrir Keflavíkurflugvöll á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík. Tryggja þarf áætlunarflug til og frá Vestmannaeyjum. Þá þarf að ráðast í að fækka einbreiðum brúm um land allt og breyta 2+1 vegum í 2+2. Ljúka þarf rannsóknum á gerð jarðgangna á milli lands og Vestmannaeyja. Greiðar og öruggar samgöngur eru mikilvægar undirstöður atvinnulífs og styrkja samkeppnishæfni byggðarlaga landsins. Ljúka þarf tvöföldun helstu leiða frá höfuðborgarsvæðinu, s.s. Reykjanesbraut, Vesturlandsveg og Suðurlandsveg og horft til bestu mögulegu leiða við útfærsluna, enda er það brýnt ef til rýmingar höfuðborgarsvæðisins kemur.

Til að orkuskipti í samgöngum geti gengið greiðlega í náinni framtíð þarf að mynda alvöru skattalega hvata fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Einnig þarf að tryggja nauðsynlega innviði, eins og raforkuöryggi og -framboð, um land allt. Nýjar áherslur í vegagerð á Íslandi eru orðnar mjög brýnar vegna aukinnar umferðar. Löngu er orðið tímabært að endurskoða vegalög og innleiða þær kröfur og alþjóðlega staðla sem vegakerfi nútímans þarf að uppfylla.

Sjálfstæðisflokkurinn áréttar að Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu öryggishlutverki fyrir allt landið. Brýnt er að flugvöllurinn verði óskertur í Vatnsmýri, ekki verði þrengt frekar að starfsemi hans en orðið er og ný flugstöð verði byggð sem allra fyrst. Öruggar flugsamgöngur innanlands geta verið lífsspursmál fyrir íbúa á landsbyggðinni og því þarf að efla sjúkraflug um land allt.

Innanlandsflug er hluti af almenningssamgöngukerfinu. Stórt skref var stigið til þess að jafna búsetuskilyrði með Loftbrú (skosku leiðinni) sem hefur haft jákvæð áhrif fyrir íbúa á landsbyggðinni.

Horfa verður til nýrra eldsneytiskosta eins og rafmagns og vetnis þegar kemur að flugsamgöngum á Íslandi. Stefna skal á orkuskipti í innanlandsflugi á Íslandi fyrir árið 2030. Samhliða þeim breytingum er nauðsynlegt að ráðast í uppbyggingu innviða á flugvöllum landsins m.t.t. hleðslumöguleika og sjá til þess að flugvellir landsins verði í stakk búnir fyrir aukna flugumferð

Flutningskerfi raforku

Innviðir samfélagsins skipta almenning og atvinnulífið miklu máli og eru þáttur í því að tryggja lífsgæði, velferð og samkeppnishæfni Íslands. Brýnt er að flýta frekari uppbyggingu flutningskerfis raforku, ekki síst til að bæta afhendingaröryggi í einstökum landshlutum og auka um leið samkeppnishæfni þeirra en ekki síður vegna loftslagsmarkmiðanna. Áfram skal lögð áhersla á dreifingu þriggja fasa rafmagns. Í því sambandi þarf að tryggja að flutningur og dreifing raforku sé örugg og verðlagning sanngjörn óháð staðsetningu. Stjórnvöld verða að tryggja með öllum tiltækum ráðum afhendingaröryggi raforku um allt land og ryðja þannig braut að grænni iðnaðaruppbyggingu og orkuskiptum. Hryggjarstykkið í því að ná markmiðum í loftslagsmálum er öflugt flutningskerfi raforku.

Fjarskipti

Mikil tækifæri felast í uppbyggingu fjarskiptainnviða um land allt eins og sést hefur með ljósleiðaravæðingu landsins sem Sjálfstæðisflokkurinn var í forystu fyrir. Enn eru eftir mikilvæg verkefni við lagningu ljósleiðara í þéttbýli um land allt sem ráðast þarf í tafarlaust.

Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því að lagning nýs gagnasæstrengs milli Íslands og Evrópu sé að verða að veruleika en fyrirhugað er að strengurinn verði kominn í gagnið í upphafi næsta árs. Nýr gagnasæstrengur mun opna mikla möguleika á uppbyggingu gagnavera um land allt á Íslandi.

Ísland nýtur gríðarlegrar samkeppni á innanlandsmarkaði í fjarskiptum en er hins vegar eina landið með einokun á millilandatengingum í kringum ríkisfyrirtækið Farice. Koma þarf á samkeppni í millilandatengingum og ríkinu út úr rekstri fjarskipta.

Sveitarstjórnarstigið – öflugri sveitarfélög

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á sjálfstæði sveitarfélaga. Stuðla þarf að aukinni samvinnu þeirra og sameiningu í samræmi við vilja íbúa.

Endurskoða þarf verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með hliðsjón af reynslu við yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk til sveitarfélaganna. Tryggja þarf að þeir sem nýta grunnþjónustu sveitarfélaga greiði fyrir hana. Endurskoða þarf skattstofn fasteignaskatta að fyrirmynd Norðurlandanna með það að markmiði að draga úr sveiflum á skattstofninum og þróun hans verði fyrirsjánlegri. Sveitarfélögum þarf að vera í sjálfsvald sett að ákveða hvernig fasteignagjöld eru ákveðin og innheimt með það að markmiði að draga úr skattbyrði einstaklinga og fyrirtækja.

Gera á sveitarfélögum kleift að flýta samgönguframkvæmdum á samgönguáætlun með því að taka málin í eigin hendur. Auðvelda þarf sveitarfélögum að útvista verkefnum og nýta krafta einkaaðila þegar það á við svo sem í leikskólum, grunnskólum og velferðarþjónustu. Leggja skal áherslu á samráð við íbúa.

Byggðamál – tækifæri landsbyggðanna

Frelsi til vals um búsetu er mikilvægt. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að með öflugri grunnþjónustu verði byggð um allt land best tryggð.

Tækifæri landsbyggðarinnar til aukinna lífsgæða íbúa verða best tryggð með öruggu og nægu rafmagni, fjölbreyttri menntun, góðum samgöngum, traustu aðgengi að heilbrigðisþjónustu og öflugum fjarskiptum.

Sjálfstæðisflokkurinn telur brýnt að nærsamfélög fái notið sanngjarns arðs af nýtingu auðlinda.

Byggt á ályktun umhverfis- og samgöngunefndar á 44. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2022.