Lykillinn að bættum lífskjörum og fleiri tækifærum er að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á umhverfi nýsköpunar hér á landi hafa leitt af sér frjósamt umhverfi fyrir frumkvöðla. Mikilvægt er að stjórnvöld skapi áfram umhverfi sem hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum atvinnulífsins.
Fyrir íslenskt atvinnulíf er mannauður lykilatriði. Hátt menntunarstig eykur framleiðni og bætir lífsgæði. Fjárfesting samfélagsins í menntun er fjárfesting í framtíðinni. Jákvæðir hvatar eru mikilvægir svo hægt sé að fjölga nemendum í svokölluðum STEAM greinum (raunvísindi og listgreinar) og auka framboð á námsgreinum í fjarnámi. Vísindi og rannsóknir eru hryggjarstykki þekkingarsköpunar. Það er mikilvægt að afrakstur í vísinda og rannsóknarstarfi skili sér í auknum mæli inn í atvinnulífið beint eða óbeint. Grunnvísindi eru mikilvæg en við eigum ekki síður að leggja áherslu á að úr vísindum verði til verðmæti í formi atvinnusköpunar.
Á næstu fimm árum mun okkur vanta þúsundir sérfræðinga í hugverkaiðnaði ef að vöxtur greinarinnar á að ganga eftir. Mikil samkeppni er um færustu sérfræðingana á hverju sviði og við eigum í samkeppni við heiminn um besta fólkið. Efla þarf hvata og gera það einfalt og eftirsóknarvert að búa og starfa á Íslandi.
Einfalt og skiljanlegt regluverk er hvetjandi fyrir erlenda fjárfesta. Með fjármagni frá erlendum fjárfestum stuðlum við að frekari framförum og auknum lífsgæðum.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur höfuðáherslu á að tryggja að á Íslandi sé til staðar frjór jarðvegur fyrir hvers kyns frumkvöðlastarfsemi, nýsköpun og verðmætasköpun sem byggist á hugviti. Þetta á við um skapandi greinar, menningu, listir og tæknigreinar, þar sem veruleg verðmæti geta orðið til ef réttar aðstæður eru fyrir hendi. Hugvitsdrifið atvinnulíf skapar verðmæti án þess að ganga á auðlindir náttúrunnar og býður upp á óþrjótandi tækifæri til áhugaverðra starfa sem standast alþjóðlega samkeppni. Ljóst er að Ísland býr að mörgum eiginleikum sem geta gert okkur mögulegt að vera góður vettvangur fyrir hvers kyns starfsemi sem byggist á hugviti. Samfélag þar sem fer saman menningarlegur auður, listræn gerjun, tæknileg þekking og hvetjandi umgjörð atvinnulífs býður upp á margvísleg tækifæri til þess að skapa alþjóðlega samkeppnishæf verðmæti og störf. Tryggja þarf að Ísland sé samkeppnishæft þegar kemur að fjármögnun hugvitsdrifinnar nýsköpunar. Stuðla þarf að því að í samfélaginu ríki jákvætt hugarfar gagnvart þeirri nauðsynlegu áhættutöku sem er forsenda kraftmikils nýsköpunarumhverfis. Þá þarf að tryggja að skapandi greinar og hugvitsdrifin nýsköpun á Íslandi eigi greiðan aðgang að alþjóðlegum markaði, meðal annars í því skyni að laða til landsins þann mannauð sem þörf er á til þess að tryggja samkeppnishæfni íslenskrar nýsköpunar í alþjóðlegri samkeppni. Sjálfstæðisflokkurinn minnir á að hugvit einstaklinga er mikilvægasta uppspretta verðmætasköpunar í samfélaginu . Þess vegna er það eitt meginverkefni stjórnvalda að tryggja að umgjörð og jarðvegur fyrir skapandi starfsemi sé eins og best er á kosið. Til lengri tíma litið ætti að stefna að fjármögnunarumhverfi þar sem aðkoma hins opinbera er óþörf.
Byggt á ályktun atvinnuveganefndar 44. landsfundar Sjálfstæðisflokksins 2022.