Nýsköpun, rannsóknir og vísindastarf

  • Stjórnvöld skapi umhverfi sem hvetji til nýsköpunar
  • Tryggja þarf samkeppnishæfni Íslands til að laða að fólk og fyrirtæki í sem flestum starfsgreinum
  • Opinberir styrkir til nýsköpunar skili sem mestum árangri
  • Leggja skal sérstaka áherslu á sprotastarf
  • Efla skal samvinnu milli ólíkra stétta og þekkingarsviða
  • Rannsóknir og nýsköpun er mikilvægt hlutverk háskóla

Aukin framleiðni er forsenda hagvaxtar. Mikilvægt er að stjórnvöld skapi umhverfi sem hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum atvinnulífsins. Tryggja þarf samkeppnishæfni Íslands þannig að hér sé aðlaðandi fyrir fólk og fyrirtæki að starfa í sem flestum starfsgreinum. Þeirri áherslu sem ríkisstjórnin leggur á nýsköpunarstarf er fagnað. Tryggja þarf að opinberir styrkir til nýsköpunar skili sem mestum árangri. Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að leggja sérstaka áherslu á sprotastarf á komandi árum og að samvinna milli ólíkra stétta og þekkingarsviða sé efld.

Menntun, vísindi og nýsköpun er aflvaki uppbyggingar og þróunar atvinnulífs. Starfsemi háskóla og rannsóknarstofnana gegnir lykilhlutverki við að tryggja bætt lífsgæði til frambúðar. Rannsóknir og nýsköpun er mikilvægt hlutverk háskóla og sérstaklega ber að styðja við frumkvöðla- og nýsköpunarstarf og hvetja til sterkra tengsla við atvinnulífið. Ákveðnar atvinnugreinar hafa verið vanræktar hvað rannsóknarstarf varðar svo sem landbúnaður og ferðaþjónusta en aðrar greinar hafa verið til fyrirmyndar svo sem sjávarútvegur. Bæði háskólar og viðkomandi atvinnugreinar þurfa að huga betur að þessum þætti.

Byggir á ályktun atvinnuveganefndar og á ályktun allsherjar- og menntamálanefndar á 43. Landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2018