Löggæslumál: Bregðast þarf við undirmönnun lögreglunnar sérstaklega á landsbyggðinni. Refsistefna í fíkniefnamálum hefur ekki virkað og því þarf að fara aðrar leiðir. Neysla fíkniefna og varsla neysluskammta ætti ekki að vera refsiverð. Fíkn er heilbrigðismál en ekki löggæslumál. Leggja ætti áherslu á að einstaklingar sem glíma við fíknivanda fái heilbrigðisþjónustu við hæfi svo sem í samræmi við hugmyndafræði skaðaminnkunar. Á sama tíma þarf að tryggja forvarnir, fræðslu og aðstoð vegna vímuefnafíknar. Mikilvægt er að veita lögreglu rannsóknarheimildir svo hún geti tekist á við alþjóðlega glæpastarfsemi með fullnægjandi hætti. Samhliða því skal efla eftirlit með störfum lögreglu og tryggja í hvívetna að ekki sé gengið lengra á kostnað friðhelgis einkalífs heldur en ýtrasta nauðsyn krefur.
Almannavarnir: Verulega reyndi á innviði almannavarna í heimsfaraldrinum. Ljóst er að innviðir stóðust prófið. Nýta ætti þessa reynslu til að fara í gegnum fyrirkomulag almannavarna, sóttvarna, lokunar landamæra og öryggismála almennt og ganga úr skugga um að það sé eins og best verður á kosið. Alþingi á að taka ákvarðanir um sóttvarnarráðstafanir og lokun landamæra. Hafa þarf í huga að slíkt getur bjargað mannslífum, en um leið skert mannréttindi og frelsi og kippt fótunum undan lífsviðurværi fólks.
Fangar og ósakhæft fólk: Efla þarf betrunarhlutverk fangelsa með auknu aðgengi að námi, atvinnu og heilbrigðisþjónustu og bættri þjónustu við fanga sem glíma við fíknivanda og geðsjúkdóma. Einnig þarf að bæta aðstöðu ósakhæfs fólks og geðheilbrigðisþjónustu við það. Gæta þarf hófs þegar frelsi fólks er takmarkað og aðeins á að grípa til slíkra aðgerða ef brýn nauðsyn er til.
Kynbundið ofbeldi: Kynbundið ofbeldi er alvarlegt samfélagsmein sem þarf að taka á af fullum þunga. Leggja þarf áherslu á að stytta ferli réttarvörslukerfisins þegar kemur að slíkum málum og tryggja að til staðar séu úrræði fyrir þolendur og gerendur. Einnig þarf að huga að því hvernig skólakerfið getur lagt sitt af mörkum þegar kemur að fræðslu um þessi mál.
Dómstólar: Skipun dómara á að vera gagnsætt ferli byggt á heildstæðu hæfnismati ásamt öðrum sjónarmiðum sem líta þarf til við skipan dómstóls hverju sinni. Skipan dómara á að vera í höndum ráðherra, sem hefur til þess lýðræðislegt umboð, en ekki embættismanna eða nefnda sem ekki bera ábyrgð á stjórnarathöfnum. Stefna á að sameiningu héraðsdómsstólanna til að auka skilvirkni réttarkerfisins og efla starfsstöðvar dómstólanna á landsbyggðinni
Stjórnmálaflokkar: Afnema ætti opinbera styrki til stjórnmálaflokka Samhliða ætti að hækka hámarks framlag annarra til þeirra.
Sýslumenn: Starfsstöðvar sýslumanna um allt land tryggja einstaklingum aðgengi að nauðsynlegri þjónustu ríkisins. Leggja skal kapp á að gera þjónustu sýslumanna og annarra stofnana aðgengilega með rafrænum hætti. Þá skal stefna að því að sameina embætti sýslumanna með það í forgrunni að auka skilvirkni og efla starfsstöðvar á landsbyggðinni.
Byggt á ályktun allsherjar- og menntamálanefndar 44. landsfundar Sjálfstæðisflokksins 2022.