Ferðaþjónustan er einn af máttarstólpum íslenskrar atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar. Langtímastefnumótun í samstarfi ríkisins, sveitarfélaga og greinarinnar sjálfrar hefur reynst farsæl og á því samstarfi þarf að byggja áfram. Tryggja þarf öryggi ferðamanna allt árið um kring og bæta upplýsingagjöf. Ásókn ferðamanna þarf að dreifa um landið til að jafna álag og til þess þarf að bæta samgöngur og vetrarþjónustu, auka hlutdeild annara gátta en Keflavíkurflugvallar. Áhersla verði þannig lögð á áfangastaðinn Ísland utan háannatíma. Nauðsynlegt er að uppbygging innviða sé í samræmi við þarfir og þróun greinarinnar. Ríkið ætti að bjóða út þjónustu á þeim ferðamannastöðum sem eru í eigu þess.
Í uppbyggingu ferðaþjónustu felast mikil sóknarfæri samfélagsins til lengri tíma til aukinnar hagsældar og jákvæðrar byggðaþróunar.
Regluverk skal vera sem einfaldast og ekki takmarka nýtingarrétt einstaklinga á eignum sínum. Stjórnvöld skulu tryggja jafnræði í samkeppnisumhverfi og gjaldtöku greinarinnar.
Byggt á ályktun atvinnuveganefndar á 44. landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2022.