Viðskiptafrelsi, virk samkeppni og skilvirkt skattkerfi eru grunnforsendur fyrir sterkt efnahagsumhverfi. Atvinnugreinar á Íslandi þurfa að búa við sambærileg skilyrði og atvinnugreinar í þeim löndum sem við eigum í viðskiptum við. Heimurinn breytist hratt og minnkar stöðugt. Því fylgir að samkeppni um fólk verður meiri og mikilvægt er að tryggja að auðvelt sé fyrir fólk og fyrirtæki að starfa á Íslandi óháð atvinnugreinum og bakgrunni.
Einfalt á að vera að stofna fyrirtæki á Íslandi og að ráða fólk til starfa. Forsenda uppbyggingar og nýrra tækifæra er nýsköpun. Ríkið á ekki að þvælast standa í vegi fyrir framtaksömu fólki sem vill láta hugmyndir verða að veruleika heldur á að auðvelda því að stofna fyrirtæki. Bæta þarf samkeppnisumhverfið þannig að hagsmunir almennings séu alltaf hafðir að leiðarljósi og tryggja þarf að málefni fyrirtækja sem leita þurfa til Samkeppniseftirlitsins fái eins skjóta málsmeðferð og kostur er. Skoða skal hvort ávinningur sé af því að sameina Samkeppniseftirlitið og Neytendastofu. Mikilvægt er að tryggja jafnræði fyrirtækjareksturs innan EES.
Lítil og meðalstór fyrirtæki eru hornsteinn í íslensku atvinnulífi og því þarf að tryggja að álögur og reglur séu sniðnar að þeim sem vilja stofna fyrirtæki til að standa ekki í vegi fyrir framtaksemi einstaklinga.
Skattaumhverfið þarf að vera sanngjarnt og ekki með þeim hætti að sértækar ívilnanir þurfi eða afslátt af opinberum gjöldum til að hér getum við keppt á alþjóðamarkaði. Skattar þurfa að vera einfaldir og skattkerfið má ekki letja fólk og fyrirtæki. Mikilvægt er að skattalegir hvatar séu áfram til að ýta undir fjárfestingu í nýsköpun. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einn flokka raunverulega staðið fyrir lægri skatta í gegnum tíðina og mikilvægt er að fara í endurskoðun á skattkerfinu og auka skilvirkni þess. Endurskoða þarf tekjuskattskerfið samhliða barnabótakerfinu með það að markmiði að búa til einfalt, gagnsætt og skilvirkt skattkerfi. Eitt skattþrep með stiglækkandi persónuafslætti auk upptöku „barnapersónuafsláttar“ í stað barnabóta tryggir lága skattbyrði og stuðning fyrir þá sem sérstaklega þurfa á honum að halda.
Einfalda þarf virðisaukaskattskerfið með sameiningu skattþrepanna auk þess að skoða megi niðurfellingu virðisaukaskatts á afmarkaðar vörur eða þjónustu eins og t.d. matvæli til að breyting sem þessi yrði til þess að heimilin í landinu fyndu ábata af breytingunum. Búa þarf til hvata sem styðja við uppbyggingu og nýsköpun. Þá þarf að fylgja því eftir að sértækir skattar á fjármálafyrirtæki verði að fullu afnumdir til að bæta vaxtakjör fólks og fyrirtækja.
Mikilvægt er að taka lífeyriskerfið á Íslandi til sérstakrar skoðunar og velta upp hvort of stór hluti sparnaðar Íslendinga sé bundinn í kerfinu. Lífeyrissjóðir á Íslandi eru stórir fjárfestar í fyrirtækjum á markaði og geyma jafnframt stærstan hluta af sparnaði Íslendinga. Í dag er hann fyrst og fremst í gegnum samtryggingu og séreign.
Auka þarf frelsi launafólks til að ráðstafa séreignasparnaði sínum til að byggja upp lífeyri. Ráðstöfun séreignasparnaðar til kaupa á fyrstu eign er mikilvægt skref í þeim efnum. Með lögfestingu tilgreindrar séreignar opnast frekari möguleikar á að veita launafólki frelsi til að byggja upp eigin sparnað með beinni þátttöku í atvinnulífinu. Heimila á einstaklingum að nýta tilgreinda séreign til að byggja upp eigið eignasafn í formi hlutabréfa og annarra verðbréfa. Jafnframt ætti að veita einstaklingum heimild, með ákveðnum takmörkunum, til að draga frá tekjuskatti kaup á skráðum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og hlutabréfasjóða. Með skattaafslætti og heimild til að ráðstafa tilgreindri séreign til að byggja upp verðbréfasafn er stuðlað að beinni þátttöku launafólks í atvinnurekstri og hagsmunir þeirra og atvinnulífs tvinnaðir betur saman, sem leitt getur til meiri meðvitundar meðal almennings um stöðu hagkerfisins og þeirra áhrifa sem breytingar í rekstrarumhverfi fyrirtækja, t.d. skattbreytingar eða almenn launaþróun, kunna að hafa í för með sér.
Þá þarf að tryggja að frítekjumark ellilífeyrisþega sé ekki það lágt að það hindri þátttöku einstaklinga á vinnumarkaði eftir að lífeyrisaldri er náð. Hækka skal lífeyrisaldur í 70 ár.
Ríkið á ekki að standa í samkeppnisrekstri og því er mikilvægt að ráðast í sölu ríkiseigna með opnu og gegnsæju ferli. Halda þarf áfram að losa um eignarhald ríkisins í fjármálastofnunum og klára sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka og hefja söluferli á Landsbankanum.
Skoða skal sölu ríkisins á verslunum ÁTVR samhliða afnámi á einokunarstöðu ríkisins á sölu áfengis. Þá á að selja Fríhöfnina, dótturfyrirtæki Isavia enda engin þörf á því að ríkið standi í sælgætis- og ilmvatnssölu.
Tryggja þarf stöðugleika á vinnumarkaði og að reglur vinnumarkaðarins séu virtar. Virða á félagafrelsi, auðvelt þarf að vera fyrir starfsfólk í hvaða geira sem er að velja hvort og hvaða stéttarfélagi það vill tilheyra Launagreiðendur og stéttarfélög þurfa að tryggja raunverulegt félagafrelsi á vinnumarkaði. Rýmka þarf heimildir fyrir einstaklinga sem koma utan EES til að starfa á Íslandi. Þörf sé að rýmka heimild þeirra sem náð hafa 70 ára aldri að sinna störfum hjá hinu opinbera. Aldursamsetning þjóðarinnar mun breytast hratt á næstu árum og nauðsynlegt er að gera fólki kleift að starfa lengur en til sjötugs, kjósi það svo, enda með víðtæka þekkingu og reynslu.
Ísland þarf að nýta þau tækifæri sem felast í örum tæknibreytingum. Meðal þeirra áskorana eru auknar kröfur almennings og atvinnulífs um sjálfsafgreiðslu og stafræna opinbera þjónustu. Vinnu við Stafrænt Ísland miðar vel áfram þar, sem þjónustuferlar hins opinbera eru færðir yfir á stafrænt form. Innleiðingin eykur framleiðni hjá hinu opinbera og bætir þjónustu til almennings og fyrirtækja. Varast skal að ríkið fari í samkeppni við einkaaðila með framþróun á tækni.
Byggt á ályktun efnahags- og viðskiptanefndar 44. landsfundar Sjálfstæðisflokksins 2022.