Stjórnvöld eiga að skapa heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir atvinnulífið svo nýta megi krafta einstaklinganna til fulls. Öflugt atvinnulíf er forsenda framfara og undirstaða velferðar.
Við stöðugleika, hóflega skattheimtu og hagkvæma nýtingu auðlinda landsins felast tækifæri til uppbyggingar og velferðar. Hið opinbera á að skapa umgjörð þar sem fyrirtæki og fjárfestar geta horft til framtíðar við áætlanagerð. Fjármagn leitar þá í arðbær verkefni og samkeppni ríkir milli fyrirtækja.
Stjórnvöld eiga að stuðla að stöðugleika og skýrri umgjörð fyrir atvinnulífið
Allar atvinnugreinar þurfa skýra umgjörð og stöðugleika til langs tíma. Skattkerfið og regluverk atvinnulífsins á að vera einfalt og sanngjarnt og stuðla að fjárfestingum og eðlilegri samkeppni. Jafnræðis skal gætt í hvers kyns gjaldtöku sem snýr að atvinnutækjum eða atvinnugreinum. Mikilvægt er að einfalda opinbert eftirlit og tryggja að það hamli ekki nýsköpun og framþróun. Jafnframt þarf að einfalda og auka skilvirkni við opinberar leyfisveitingar. Afar brýnt er að auka framleiðni og styðja við alþjóðlega samkeppnishæfni fyrirtækja. Það er ekki hlutverk ríkisins að stýra uppbyggingu atvinnulífsins og koma í veg fyrir hagræðingu heldur að tryggja jafnræði og vinna gegn lögbrotum. Afnumin verði lög um opinber hlutafélög (ohf). Fyrirtæki í eigu hins opinbera eiga að starfa undir sömu hlutafélagalögum og fyrirtæki í eigu einkaaðila. Ríkið skal setja sér skýra eigendastefnu fyrir fyrirtæki í eigu ríkisins. Hið opinbera á ekki að vera í samkeppni við einkaaðila.
Mikilvægt er að standa vörð um náttúruna og að hún sé nýtt með sjálfbærum hætti þjóðinni allri til hagsbóta, bættra lífsgæða og velferðar. Þeir sem eiga nýtingarrétt á náttúruauðlindum greiði fyrir það sanngjarnt gjald. Slík gjaldtaka á að taka mið af hagsmunum þjóðarinnar til langs tíma litið. Nauðsynlegt er að gjaldtakan dragi ekki úr fjárfestingu og framþróun innan atvinnugreina enda er fjárfesting og nýsköpun forsenda almennrar framþróunar og velmegunar þjóðarinnar.
Heilnæmi íslenskrar matvælaframleiðslu og hreinleiki náttúrunnar eru eftirsótt gæði í heimi sívaxandi eftirspurnar eftir matvælum og vatni. Nýta þarf þessa sérstöðu Íslands og leggja frekari grunn að sókn íslenskrar matvælaframleiðslu í landbúnaði og sjávarútvegi. Í þeirri sókn þarf að nýta að fullu kosti og þekkingu íslenskra tæknifyrirtækja og sveigjanlegar lausnir fyrir matvælaframleiðendur. Tryggja þarf að opinbert fjármagn nýtist markvisst til nýsköpunar um allt land. Huga þarf sérstaklega að regluverki svo það hamli ekki nýsköpun og framþróun s.s. sölu afurða beint frá býli og framleiðslu fiskafurða beint á neytendamarkað. Ferðaþjónusta, orkuiðnaður og matvælaframleiðsla eiga mikla sameiginlega vaxtarmöguleika.
Íslenskur sjávarútvegur, sem er burðarás í atvinnulífi um land allt, er leiðandi í heiminum hvað varðar sjálfbærni, þróun og arðsemi. Íslenskur sjávarútvegur er í daglegri samkeppni við erlendan ríkisstyrktan sjávarútveg. Nauðsynlegt er að gjaldheimtu í sjávarútvegi sé stillt í hóf, hún dragi ekki úr samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði og fjárfestingu í greininni. Ljóst er að há auðlindagjöld lenda þyngst á minni sjávarútvegsfyrirtækjum, sem oft eru hornsteinar samfélaga um allt land. Tryggja þarf stöðugleika í rekstrarumhverfi íslensks sjávarútvegs sem byggir á núgildandi aflamarkskerfi svo að greinin haldi áfram að vaxa á grundvelli sjálfbærrar nýtingar fiskistofna. Í ljósi minnkandi fyrirsjáanleika í heimsmálum er mikilvægt að sjávarútvegurinn hafi sveigjanleika í tilhögun veiða. Með öflugum sjávarútvegi vex nýsköpun og vöruþróun. Grundvöllur arðsemi sjávarútvegs mun byggja á samþættingu veiða, vinnslu og markaðar. Góðar samgöngur innanlands og milli landa eru forsenda þess að tryggja gæði og afhendingaröryggi sjávarafurða.
Fiskeldi er vaxandi hluti íslensks sjávarútvegs og felur í sér aukin tækifæri til verðmætasköpunar bæði í sjókvía- og landeldi. Mikilvægt er að tryggja fyrirsjáanleika rekstrarumhverfis greinarinnar. Uppbygging á að byggjast á bestu vísindum og viðurkenndum alþjóðlegum aðferðum þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi og tillit tekið til umhverfis-, rekstrar- og samfélagslegra þátta. Leggja ber áherslu á góða umgengni og öflugar smitvarnir svo að álag á vistkerfi sé lágmarkað og réttur komandi kynslóða tryggður. Jafnframt er mikilvægt að fiskeldið myndi byggðafestu og að margfeldisáhrif greinarinnar skili sér sem mest inn í íslenskt hagkerfi.
Lagst er gegn fyrirhuguðum skattahækkunum á fiskeldi og hvatt til hóflegrar skatt- og gjaldheimtu svo gjaldtaka hamli ekki áframhaldandi vexti greinarinnar um allt land.
Hverri þjóð er mikilvægt að vera sjálfbær um matvöru eftir því sem kostur er. Landbúnaður á Íslandi er burðarás í atvinnulífi hinna dreifðu byggða og byggðafestu í landinu. Öflugur landbúnaður er hornsteinn góðs þjónustustigs um allt land. Starfsskilyrði greinarinnar þurfa að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar, sjálfbærni, fjölbreytileika og nýsköpunar. Virða þarf frelsi og sjálfsákvörðunarrétt íslenskra bænda og stuðla þannig að aukinni hagkvæmni og fjölbreytni. Strangar kröfur eiga að gilda um dýravelferð, hreinleika og heilbrigði. Tryggja skal að innflutningur hrárra landbúnaðarafurða feli ekki í sér sýkingarhættu fyrir innlenda bústofna. Traust umgjörð um merkingar á búvöru og rekjanleiki sameinar hagsmuni bænda og neytenda. Tryggja verður matvælaöryggi og fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar. Gera verður sömu kröfur til framleiðslu innfluttra búvara og gerðar eru til innlendrar framleiðslu. Gæta þarf þess að reglugerðir innleiddar í gegnum EES séu aðlagaðar að íslenskum aðstæðum. Íslenskur landbúnaður er í daglegri samkeppni við erlendan landbúnað. Atvinnugreinin þarf að hafa frelsi til að takast á við sveiflur og vinna að langtímahagsmunum neytenda og bænda. Hágæðaafurðir og ímynd landsins gefa landbúnaðinum ný tækifæri innanlands og erlendis.
Tækifæri eru til eflingar skógræktar sem atvinnuvegar á viðskiptalegum forsendum. Endurskipuleggja þarf starfsumhverfi gróðurverndarmála.
Verslun og þjónusta þarf, eins og aðrar atvinnugreinar, að búa við samkeppnishæft umhverfi.
Mikilvægt er að stjórnvöld stuðli að heilbrigðri samkeppni á neytendavörumarkaði. Löngu tímabært er að afnema samkeppnisrekstur ríkisins í smásölu og gefa verslun með áfengi frjálsa.
Heimila ætti lausasölu ólyfseðilsskyldra lyfja í almennum verslunum.
Endurskoða þarf fyrirkomulag leigubifreiðaaksturs. Tímabært er að afnema aðganshindranir á markaðnum, afnema hámark leyfisfjölda og hleypa fleiri rekstraraðilum að, bæði innlendum og erlendum.
Ísland er ríkt af náttúruauðlindum sem fela í sér tækifæri til framleiðslu grænnar orku. Sjálfbær nýting auðlinda er og á að vera grundvallaratriði í öllum ákvörðunum. Íslensk orkufyrirtæki eru í fararbroddi á sínu sviði og sú þekking sem Íslendingar hafa skapað á umliðnum áratugum er orðin að mikilvægri og gjaldeyrisskapandi útflutningsvöru. Íslenskt atvinnulíf hefur færi á að sækja enn frekar fram á alþjóðavettvangi á þessum sterka grunni og efla útflutning þekkingar.
Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið í loftslagmálum og til þess að þau náist þarf m.a. að leggja áherslu á orkuskipti í lofti, láði og legi. Í þágu orkuskipta og í ljósi niðurstöðu grænbókar um orkumál er nauðsynlegt að afla nýrrar grænnar orku, bæta nýtingu núverandi raforkukerfis og framleiða grænt raf- og lífeldsneyti. Hagsmunum Íslands er best borgið með því að byggja upp grænan iðnað í tengslum við orkuskipti hér á landi og tengjast ekki raforkukerfi annarra ríkja. Sjálfstæðisflokkurinn stendur heilshugar á bak við hugmyndir um atvinnuuppbyggingu innanlands á grunni hagkvæmrar nýtingar orkuauðlinda. Lögð er áhersla á að hlúa enn frekar að uppbyggingu grænna iðngarða enda styðja þeir við sjálfbærni með því að innleiða félagsleg, efnahagsleg og umhverfisleg sjónarmið í skipulagningu, stýringu og framkvæmd.
Íslensk útflutnings- og framleiðslufyrirtæki skulu njóta þess samkeppnisforskots sem felst í notkun á grænni íslenskri orku.
Nauðsynlegt er að ríkið setji skýra eigendastefnu gagnvart orkufyrirtækjum og raforkuflutningsfyrirtækjum í eigu ríkisins sem tryggi m.a. að þau styðji stjórnvöld í að ná markmiðum sínum í loftslagsmálum. Stjórnvöld þurfa að skilgreina ábyrgð á því að tryggja fullnægjandi framboð raforku til heimila og annarra almennra notenda og tryggja jafnframt orkuöryggi landsins.
Ísland á að vera miðpunktur orkusækins iðnaðar með samkeppnishæfu raforkuverði.
Einfalda þarf regluverk um byggingariðnað og gera það skilvirkara. Draga þarf úr skriffinnsku og flækjustigi og flýta fyrir uppbyggingu nýs húsnæðis. Þær kröfur sem gerðar eru til byggingaraðila taki mið af umfangi framkvæmda og tegund bygginga. Í þessu skyni er brýnt að endurskoða og einfalda byggingarreglugerðina, stuðla að vistvænni mannvirkjagerð og auðvelda uppbyggingu á minni og ódýrari húsakosti. Við þessar breytingar ber að hafa í huga öryggis-, mannvirkja- og heilsufarssjónarmið. Sjálfstæðisflokkurinn leggst gegn samkeppnishömlum í útboðum hins opinbera, sérstaklega reglum sem hefta frelsi einstaklinga og fyrirtækja, stuðla að fákeppni og hafa leitt til hærri kostnaðar útboðsverka.