Dr. Bjarni Benediktsson:
Rök Íslendinga í sjálfstæðismálinu
— utanríkisstaða landsins og stofnun lýðveldis 17. júní 1944
Ræða flutt á Þingvöllum 18. júní 1943 af Bjarna Benediktssyni borgarstjóra.
PDF útgáfa af Lýðveldi á Íslandi
Með sambandslagasáttmálanum árið 1918 var fullveldi Íslands sem ríki í konungssambandi við dönsku krúnuna staðfest, en þar var jafnframt kveðið á um að samningnum gæti hvort ríki um sig, Ísland sem Danmörk, sagt upp að 25 árum liðnum eða árið 1943. Á ofanverðum fjórða áratugnum styttist í þessi tímamót og nokkuð um þau rætt á íslenskum þjóðmálavettvangi.
Skjótt skipast þó veður í lofti, því að hinn 9. apríl 1940 var Danmörk hernumin af Þjóðverjum, svo Íslendingar þurftu fyrirvaralaust að taka öll mál í sínar hendur. Rétt rúmum mánuði síðar, hinn 10. maí, var Ísland svo hernumið af Bretum, sem gerði stöðuna enn vandasamari, en allt benti til — eins og kom á daginn — að ófriðurinn gæti orðið langvinnur. Í því andrúmslofti urðu sambandslögin og lýðveldisstofnun skyndilega brýnt viðfangsefni, en þótt flestir væru á einu máli um að Ísland ætti að verða lýðveldi, þá greindi menn á um aðferð, tímasetningar og önnur álitamál, þar sem sumir vildu fara hraðar en aðrir hægar.
Bjarni Benediktsson, borgarstjóri og síðar forsætisráðherra, var þá fremsti þjóðréttarfræðingur landsins og mjög áfram um að ekki væri eftir neinu að bíða með að efna uppsagnarákvæði sambandslagasáttmálans og stofna lýðveldi. Bæði af því að það væri rétt lögum samkvæmt, en einnig þótti honum óvarlegt að bíða með það til styrjaldarloka eins og sumir vildu, því að ógerningur væri að segja fyrir um stöðuna þá, hagsmuni annarra ríkja, áhuga eða tillit til hagsmuna Íslendinga.
Árið 1943 var ákveðið að boða til landsfundar Sjálfstæðisflokksins, en hann hafði þá ekki verið haldinn um þriggja ára skeið í ljósi umróts í þjóðlífinu. Fundurinn var settur í Reykjavík en svo færður til Þingvalla. Þar, hinn 18. júní 1943, hélt Bjarni hina eftirminnilegu ræðu sína um sjálfstæðismálið, sem hér er birt. Fundargestir voru á einu máli um að þeir hefðu þar lifað sögulega stund og sömu hrifningu mátti lesa í blöðum daginn eftir. Morgunblaðið birti ræðuna nokkru síðar í þremur hlutum, en miðstjórn Sjálfstæðisflokksins lét prenta hana í sérriti, sem sent var inn á hvert heimili landsins, svo þjóðarathygli vakti. Hún var síðar gefin út á bók af Almenna bókafélaginu 1970 og einnig birt í sérstöku aldamótablaði Morgunblaðsins árið 2000. Hún er hér birt með sama sniði og í sérritinu 1943, en stafsetning hefur verið færð til nútímahorfs.
Ræðan hafði feikileg áhrif og má segja að hún hafi rutt úr vegi öllum mótbárum við lýðveldisstofnunina árið eftir. Hún er jafnframt glöggur vottur um fádæma skarpskyggni og framsýni Bjarna, rökfestu og yfirburðaþekkingu hans á sjálfstæðismálinu, jafnt á sviði hins lagalega sem hins pólitíska. Þar er vel farið yfir aðdragandann og röksemdir fyrir lýðveldisstofnuninni og ræðan því athyglisverð út frá sögulegu sjónarmiði, en hið merkilega er, að röksemdirnar eiga enn við og flest af því sem hann sagði um land, þjóð og ríki okkar, á engu síður erindi við okkar daga.
Það er því vel við hæfi á 50 ára ártíð dr. Bjarna, Sigríðar Björnsdóttur konu hans og Benedikts Vilmundarsonar dóttursonar þeirra, að Sjálfstæðisflokkurinn endurbirti ræðuna, honum til heiðurs og okkur til áminningar.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Á síðustu tímum eru sumir farnir að kalla alla lífsbaráttu þjóðarinnar sjálfstæðisbaráttu hennar. Um þetta væri eigi nema gott allt að segja ef það væri gert til að efla skilning þjóðarinnar á mikilvægi þessarar baráttu, en í þess stað sýnist það beinlínis gert til þess að villa þjóðinni sýn. Draga huga hennar frá hinni eiginlegu sjálfstæðisbaráttu, fá hana til að trúa að stjórnskipulegt sjálfstæði sé algert aukaatriði sjálfstæðismálins, heldur séu það allt önnur málefni sem þar hafi mesta þýðingu.
En hvert er þá hið rétta eðli sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar?
Hún er hliðstæð baráttu ánauðugs manns fyrir að fá fullt frelsi og mannréttindi. Sá sem í ánauð er heldur lífi og limum þrátt fyrir ánauð sína. Hann getur haft nóg að bíta og brenna. Og vel má vera að honum líði allt eins vel eða betur en sumum frjálsum mönnum. Þrátt fyrir það unir enginn, sem einhver manndómur er í blóð borinn, því að vera í ánauð. Hann finnur og veit að ánauðin skerðir manngildi hans og er ósamboðin hverjum mennskum manni. Honum er og fullljóst að þótt vel sé séð fyrir öllum efnahagslegum þörfum hans, þá eru þó allar líkur til að hann beri meira úr býtum ef hann er sjálfur eigandi starfsorku sinnar, en ef annar ráðstafar henni fyrst og fremst sjálfum sér til hags.
Afstaða þjóðar, sem seld er undir yfirráð annarrar, er hin sama og þess sem í ánauð er. Slík var afstaða íslensku þjóðarinnar allt til 1918 þrátt fyrir nokkra rýmkun á rétti hennar síðustu áratugina þar á undan.
En sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar að þessu leyti lauk með sigri 1918, segja sumir. Vissulega má til sanns vegar færa að þá hafi ánauð hennar verið lokið. En var fullt stjórnskipulegt frelsi hennar þar með fengið? Voru verkefni hinnar eiginlegu sjálfstæðisbaráttu þar með úr sögunni?
Myndi sá bóndi telja sig að fullu frjálsan, sem að vísu mætti ákveða sjálfum sér og heimafólki sínu reglur til að fara eftir, en þyrfti þó að leita samþykkis óðalsbónda á fjarlægri jörð til þess að fyrirmælin hefðu nokkra þýðingu? Ef hann mætti ekki hafa skipti við nágranna sína nema fyrir milligöngu óðalsbóndans eða öllu heldur vinnumanna hans, yrði að hafa einhvern þessara vinnumanna með í förinni ef hann skryppi í kaupstað og engin þessara viðskipta hefðu lögformlegt gildi nema óðalsbóndinn samþykkti? Ef hann að vísu mætti hafa eigin hund til að reka úr túninu, en hefði þó, til þess að víst væri að fjárreksturinn færi fram eftir öllum listarinnar reglum, jafnframt sérstaklega vaninn hund frá óðalsbóndanum til túngæslunnar? Og myndi bóndi telja þann eignarrétt á jörð sinni mikils virði sem því skilyrði væri háður að þrjátíu menn aðrir mættu hafa af henni öll hin sömu not og sjálfur hann?
Slíku frelsi myndi enginn íslenskur bóndi una til lengdar. Auðvitað þættu honum þessi kjör betri en alger ánauð, en honum myndi þykja það furðulegt ef honum væri sagt að nú væri frelsisbaráttu hans lokið. Og honum myndi þykja það óþörf spurning ef hann væri að því spurður hvort hann vildi nú ekki una þessum kjörum sínum enn um sinn, þegar sá tími væri kominn að hann ætti rétt á algeru frelsi.
En aðstaða íslensku þjóðarinnar er eftir sambandslögunum einmitt hin sama og bónda þess sem nú var lýst.
Íslendingar mega að vísu setja sér lög en þau hafa ekki stjórnskipulegt gildi nema konungurinn í Kaupmannahöfn samþykki þau. Íslendingar fara ekki með utanríkismál sín og mega enga samninga gera við önnur ríki nema í samráði við eða fyrir atbeina danska utanríkisráðuneytisins, og konungurinn í Kaupmannahöfn verður að samþykkja þá til þess að þeir hafi nokkurt gildi. Íslendingum er að vísu heimilt að hafa eigin varðskip til gæslu landhelgi sinnar, en þeim eru jafnframt til frekara öryggis fengin dönsk skip til gæslunnar. Íslendingar eiga að vísu land sitt, en þeir eru skyldir til þess að þola þrjátíu sinnum mannfleiri þjóð, Dönum, öll hin sömu not af landinu og þeir sjálfir hafa.
Ætla mætti að ekki þyrfti að hvetja neinn Íslending til að una slíku frelsi eigi lengur en hann er skyldur til samkvæmt ströngustu lögum. En sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar er orðin löng og í henni hefur margt furðulegt komið fyrir.
Hin langa sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar hefur verið þríþætt.
Engan getur undrað þó að hin gamla yfirráðaþjóð okkar, Danir, hafi verið tregir til að sleppa völdum sínum hér á landi. Slíkt er í samræmi við mannlegt eðli. Óvild þeirra til Íslendinga hefur áreiðanlega ekki ráðið afstöðu þeirra, enda hefur hún sjálfsagt aldrei verið fyrir hendi. Metnaður og hagnaðarvon hafa eflaust haft einhver áhrif. Þetta hafa samt ekki verið aðalorsakirnar. Bein góðvild hefur sennilega ráðið mestu um. Eftir aldalanga stjórn Dana á landinu var hag íslensku þjóðarinnar svo komið að bestu menn þeirra trúðu því í alvöru að Ísland væri ómagi sem Danmörk mætti eigi hendi af sleppa, heldur yrði með ærnum kostnaði að treina í lífið.
Engan getur heldur undrað þó að erlendar þjóðir hafi yfirleitt látið sig sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar litlu skipta. Af eðlilegum ástæðum hefur þekking þeirra á málefnum Íslands verið lítill og áhuginn á þeim enn minni. Þeim sem lítið þekkja til lands eða þjóðar hlýtur að sýnast það ganga kraftaverki næst ef svo lítil þjóð sem Íslendingum tækist að halda uppi sjálfstæðu ríki í jafnerfiðu landi sem Íslandi. Menn eru tregir að trúa kraftaverkum nú á dögum og hafa því löngum látið sér fátt um finnast tilraunir okkar til að öðlast fullt frelsi.
Hitt hefði mátt ætla að Íslendingar hefðu ekki þurft að eiga í innbyrðis baráttu um hvort þeir ættu að heimta fullt frelsi og sjálfstæði sér til handa. Svo hefur samt verið. Aðal örðugleikinn hefur einmitt verið sá, að sameina þjóðina sjálfa um frelsis- og réttarkröfur sínar. Þegar það hefur tekist, hefur sigranna sjaldan verið langt að bíða. Einmitt vegna þess að tálmananna hefur eigi fyrst og fremst verið að leita í óvild heldur áhuga- og skilningsleysi umheimsins á okkar högum.
Hafa þá verið til Íslendingar sem eigi vildu algert stjórnskipunarlegt frelsi þjóðar sinnar? Vonandi ekki. En hinir hafa stundum verið allt of margir sem töldu þjóðina frekar hafa þörf á einhverju öðru en þessu. Sögðu, að fyrst bæri að tryggja efnahaginn eða þjóðernið sjálft, eða eitthvað enn annað sem þeim þá sýndist vera á glötunarinnar barmi. Þessir menn hafa aldrei sagst vera á móti stjórnskipulegu sjálfstæði þjóðarinnar. Síður en svo. Þeir hafa einungis eigi viljað heimta það í dag, heldur draga það til morgundagsins. Við þá á þýski málshátturinn: Morgen, Morgen, nur nicht heute, sagen alle faulen Leute. Á morgun, á morgun, bara ekki í dag, er orðtak letingjans. Í allri sjálfstæðisbaráttunni hefur þessi sónn sí og æ kveðið við, hvenær sem ráðgert var að stíga spor, stór eða smá, fram á við. Þessir menn hafa ekki viljað illa, en illt verk hafa þeir engu að síður unnið. Þeir gerðu sér ekki grein fyrir, og hafa enn ekki í dag gert sér grein fyrir, að frumskilyrði þess að allt annað gott fái dafnað og náð fullum þroska með þjóðinni, er að hún njóti fulls frelsis og sjálfstæðis.
Hugarletin og vantrúin hafa þó smám saman orðið að þoka úr seti.
Í síðustu heimsstyrjöld[1] og á áratugunum þar á eftir lærðu allir forráðamenn þjóðarinnar að stjórnskipulegt sjálfstæði var eitt af lífsskilyrðum þjóðarinnar og að hún varð þess vegna að heimta það í sínar hendur svo fljótt sem nokkur kostur var á. Þeim duldist þó ekki að enn var gamla vantrúin lifandi í sumum hlutum þjóðarlíkamans og viðbúið var að hún sýkti frá sér ef glöggar gætur væru eigi á hafðar. Eins vildu þeir í tæka tíð aðvara hina fornu yfirrráðaþjóð og aðra, sem þessi mál létu sig skipta, um að Íslendingar væru einráðnir í því að taka sér algert stjórnskipulegt frelsi, svo fljótt sem verða mætti.
Af þessum orsökum spurði Sigurður Eggerz að því á Alþingi 1928, hvort ríkisstjórnin vildi „vinna að því að sambandslagasamningnum verði sagt upp eins fljótt og lög standa til“. Og af þessum ástæðum svaraði ríkisstjórnin og allir þingflokkar því með öllu afdráttarlaust að það sé „alveg sjálfsagt mál“ að svo verði gert.
Tæpum áratug síðar, eða 1937, tók Alþingi málið til enn frekara öryggis upp að nýju og ályktaði í einu hljóði um undirbúning þess „er Íslendingar neyta uppsagnarákvæða sambandslaganna og taka alla meðferð málefna sinna í eigin hendur“. Í umræðum á Alþingi þá heyrðist eigi fremur en 1928 nein úrtölurödd. Gleggst og greinilegast kvað formaður Sjálfstæðisflokksins, Ólafur Thors, að orði, er hann sagði það kröfu flokks síns að uppsagnarákvæði sambandslaganna væri „hagnýtt þegar í stað er lög leyfa, og taki þá Íslendingar í sínar hendur alla stjórn allra sinna mála og séu landsins gæði hagnýtt landsins börnum einum til framdráttar“. Enda telur hann vilja Íslendinga allra vera þann að segja upp sambandslögunum og „gera enga samninga í staðinn“, heldur fella samningana með öllu úr gildi.
Áður en Íslendingar gætu neytt uppsagnarákvæða sambandslaganna tóku atburðirnir sjálfir til máls og knúðu þá til enn skjótari aðgerða en ætlaðar höfðu verið.
Aðfaranótt 9. apríl 1940 var Danmörk hernumin af Þjóðverjum. Konungi og danska ríkinu varð þar með ómögulegt að gegna þeim skyldum né neyta þess réttar sem þeim er fenginn í sambandslögunum og íslensku stjórnarskránni. Alþingi neyddist því þegar næstu nótt, 10. apríl, til að taka við handhöfn konungsvalds og meðferð utanríkismála og landhelgisgæslu inn í landið að svo stöddu.
Ekki hefur verið um það deilt að aðgerðir Alþingis 10. apríl 1940 hafi verið heimilar og nauðsynlegar að íslenskum lögum og alþjóðarétti. Einstaka menn hreyfðu því hins vegar einkum eftir á — þótt þeir hefðu átt kost á að hreyfa því fyrr hefðu þeir þá viljað — að ályktanir Alþingis væru eigi nógu róttækar. Er svo að skilja sem þessir menn hafi viljað slíta sambandinu við Dani og stofna lýðveldi þá þegar.
Alger sambandsslit þá þegar hefðu hins vegar verið ákaflega hæpin eða e.t.v. með öllu óheimil að alþjóðalögum. Samkvæmt eðli sambandsins og fjarlægðar Íslands og Danmerkur gat a.m.k. það eitt, að ekki næðist til konungs í nokkra daga eða jafnvel vikur, trauðla heimilað riftingu sambandsins.
Ályktanirnar frá 10. apríl 1940 kváðu hins vegar berum orðum svo á, að ráðstafanirnar samkvæmt þeim væru einungis gerðar „að svo stöddu“, þ.e. til bráðabirgða. Menn gerðu sér þá þegar grein fyrir því að svo kynni að fara að síðar yrði bæði ótvíræður réttur og þörf til frekari aðgerða. Því til sönnunar skal þess getið, að ég sem hafði verið meðal þeirra er ríkisstjórnin kvaddi til undirbúnings ályktananna, lét svo um mælt í grein er ég ritaði í maí–júní 1940 og birtist þá um sumarið í Andvara:
Kemur síðan fram að ég tel riftingarrétt Íslendinga hljóta að vera ótvíræðan ef ástandið verði eigi breytt þegar fram á árið 1941 komi.
Fyrri hluta árs 1941 kom upp nokkur ágreiningur um hvort rifta ætti sambandslögunum þá þegar og stofna lýðveldi, eða una ætti enn um sinn við bráðabirgðaskipan þá sem á var.
Reyndu menn þá að gera sér grein fyrir hver réttarstaða landsins væri. Kom þá í ljós að einstaka lögfræðingar vildu lítið um málið segja, en sögðust ekki geta „ábyrgst“ að riftingarréttur á sambandslögunum væri fyrir hendi.
Nú er það svo, að hið síðasta af öllu sem góður lögfræðingur gerir, er að „ábyrgjast“ um úrslit mála. Svo er margt sinnið sem skinnið. Og úrslitin velta ákaflega oft á því hver úrslitadóminn kveður upp. En það veit enginn fyrirfram. Þegar leitað er álits lögfræðinga á vandasömu máli, biður því enginn skyni gæddur maður um „ábyrgð“ þeirra, heldur rökstudda greinargerð fyrir skoðunum þeirra.
Hinu mikla máli sem hér var um að ræða var með öllu ósamboðið að ætla að ráða því til lykta á þeim grundvelli hvort einhver vildi „ábyrgjast“ eitthvað, án rökstuðnings en einungis eftir tilfinningu sinni eða skapgerð. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, Ólafur Thors og Jakob Möller, leituðu því til mín og óskuðu þess að ég semdi rökstuddda greinargerð um málið.
Við þeim tilmælum varð ég. Til grundvallar lagði ég þá staðreynd sem Alþingi hafði slegið fastri með samþykkt sinni 10. apríl 1940 og Danmörk sjálf hafði viðurkennt, að Danmörk hefði eigi um nær eins árs bil „getað rækt umboð til meðferðar“ þeirra mála Íslands sem henni var fengið með sambandslögunum. Síðan rakti ég réttarreglur þær sem um þvílíkt tilfelli giltu, ekki eftir mínu eigin áliti, því að það hafði enga þýðingu, heldur eftir samhljóða áliti helstu þjóðréttarfræðinga, bæði meðal engilsaxneskra þjóða og á meginlandinu, þ.á.m. hinna nafnkunnustu dönsku lögfræðinga. Skoðanir allra þessara manna voru á eina leið, að riftingarréttur væri ótvíræður í þvílíku tilfelli sem þessu.
Álitsgerð þessi var síðan afhent ráðherrunum og sumum þingmanna. Birti ég og höfuðatriði hennar í Andvara síðar á árinu 1941. Hefi ég hvorki heyrt né séð nein rökstudd andmæli gegn skoðunum þeim sem þar eru raktar, né síðan vitað einn einasta íslenskan lögfræðing í eigin nafni draga í efa að þær væru réttar.
Alþingi Íslendinga samþykkti og þegar 17. maí 1941 ályktun sem hvíldi á greindum kenningum hinna erlendu höfunda um riftingarréttinn, og lýsti þess vegna yfir „að það telur að Ísland hafi öðlast rétt til fullra sambandsslita við Danmörk“.
Alþingi taldi rétt Íslands skýlausan en þótti samt ekki „að svo stöddu tímabært, vegna ríkjandi ástands, að ganga frá formlegum sambandsslitum og endanlegri stjórnskipun ríkisins, enda verði því ekki frestað lengur en til styrjaldarloka“, svo sem segir í ályktuninni frá 17. maí 1941.
Hvert var „hið ríkjandi ástand“, sem gerði það að verkum, að Alþingi þótti eigi tímabært að ganga frá formlegum sambandsslitum þegar í stað þótt rétturinn til þess væri talinn tvímælalaus?
Um það leyfi ég mér að vísa til ummæla minna í Andvara 1941 þar sem þetta mál er rakið á hlutlausan hátt svo eigi hefur verið að fundið. Þar segir:
Ég hafði og þegar árinu áður í Andvaragrein minni 1940 bent á, að gildi ákvarðananna 10. apríl 1940 væri
Þessar tilvitnanir, sem út af fyrir sig herma ekki frá minni skoðun heldur þeirra er þá réðu málefnum landsins, sanna tvímælalaust að menn töldu varhugavert að gera úrslitaákvarðanir í sjálfstæðismálinu á meðan landið væri hernumið, og þess vegna þótti Alþingi ekki tímabært að slíta sambandinu formlega strax 1941.
Rétt er og að geta þess, að alveg eins og Íslendingar töldu vegna sinna hagsmuna varhugavert að slíta sambandinu fyrir fullt og allt á meðan hernáminu stæði, þá töldu Bretar það eigi heldur heppilegt vegna sinna hagsmuna. Einmitt af því að Bretar höfðu hernumið landið, sneri breski sendiherrann sér til íslensku ríkisstjórnarinnar og réð frá því að sambandinu væri slitið þegar í stað og ráðlagði þess í stað að halda sér alveg að ákvæðum sambandslaganna. Ráðlegging þessi er sem sagt skiljanleg af þeirri ástæðu, að Bretar vildu ekki að þeim yrði kennt um, vegna hertöku landsins, að sambandinu væri slitið fyrir tilskilinn tíma, þ.e. árslok 1943. Hitt er annað mál að Bretar urðu fyrstir til þess af erlendum þjóðum að viðurkenna í verki að sambandslögin hefðu misst gildi sitt. Því að þeir höfðu strax 10. maí 1940 sent hingað sendiherra, sem var alveg óheimilt samkvæmt sambandslögunum.
Ástæðan til þess að sambandinu var eigi slitið strax 1941 var sem sagt sú að landið var þá hernumið og fullveldi þess þar með skert.
En hernámið stóð skemur en nokkurn hafði grunað í maí 1941. Strax í næsta mánuði var gerður um það samningur milli Breta og Bandaríkjamanna annars vegar og Íslands hins vegar að hernámi Breta skyldi aflétt og þar með vera úr sögunni sú skerðing á fullveldi Íslands sem því hafði verið samfara. Í stað þess samdi Ísland um það við Bandaríkin að þau skyldu taka að sér hervarnir landsins til ófriðarloka.
Samningsgerð þessi er um margt merkileg.
Sjálf sýnir samningsgerðin svo ótvírætt sem verða má að Bretland og Bandaríkin töldu að sambandslögin væru ekki í gildi, a.m.k. þegar samningurinn var gerður, því að ef svo hefði verið, þá var með öllu óheimilt að gera slíkan samning við íslensku ríkisstjórnina í Reykjavík, heldur hefði orðið að gera hann við danska utanríkisráðherrann og konunginn í Kaupmannahöfn.
Þá er það rækilega tekið fram í samningunum að bæði þessi stórveldi viðurkenni „algert frelsi og fullveldi Íslands“, og um það samið að Bandaríkin og Ísland skiptist á diplómatískum sendimönnum, sem beinlínis brýtur í bága við fyrirmæli sambandslaganna.
Að sjálfsögðu voru samningar þessir skildir af Íslendingum á þann veg, enda beinlínis orðaðir með það fyrir augum að Bretland og Bandaríkin viðurkenndu að höft þau, sem verið höfðu á frelsi Íslands vegna sambandslaganna annars vegar og hernámsins hins vegar, væru úr sögunni.
En voru þá ekki nýjar viðjar á landið lagðar með hervörnum Bandaríkjanna?
Enn í dag tala ýmsir, m.a.s. þeir sem betur ættu að vita, svo sem hernámið haldist enn og á því hafi engin breyting orðið frá 10. maí 1940. Óþarfi ætti að vera að fara mörgum orðum um slíkt fáviskuhjal. Að vísu eru enn hermenn í landinu. En þeir eru hér ekki, eins og á meðan hernáminu stóð, gegn beinum mótmælum Íslendinga, heldur með skýru samþykki þeirra. Frá alda öðli hefur það tíðkast, að á ófriðartímum hafa ríki kallað á eða tekið á móti herafla annars ríkis sér til varnar. Bandaríkin hafa nú bæði herafla og herstöðvar, sjálfsagt enn öflugri en hér, víðsvegar í breska heimsveldinu og í Bretlandi sjálfu. Engum dettur í hug að halda því fram að fullveldi Breta sé skert með hersetu þessari.
Aðstaðan er ólík segja sjálfsagt þeir sem bitið hafa sig fasta í að landið sé enn hernumið. Víst er það að Bretland myndi öflugra til varnar, ef Bandaríkin ætluðu að nota herafla sinn þar til skerðingar frelsis þess og fullveldis, en Ísland myndi, ef svo færi hér. En réttarmunurinn er enginn. Réttarstaðan er hin sama hér og þar.
Og hverjum er það til góðs að vera með bollaleggingar um að Bandaríkin kunni að ganga á gerða samninga? Enn hafa þau staðið við alla sína samninga við Íslendinga. Til hvers hefðu þau og átt í þessari samningagerð ef þau ætluðu sér ekki að halda þá? Trúir nokkur því að Bretland og Bandaríkin hefðu ekki getað flutt hingað bandarískt lið án okkar samþykkis ef þessi voldugu stórveldi hefðu viljað? Það er einmitt vegna þess að Bandaríkin vildu ekki og ætluðu sér ekki að skerða frelsi eða fullveldi landsins að hervarnarsamningurinn var gerður.
En hervarnarsamningurinn hafði einnig mikil áhrif að öðru leyti og braut í bága við sambandslögin enn frekar en áður var á drepið. Með honum varð gerbreyting á utanríkisstefnu Íslands.
Þangað til höfðu Íslendingar stranglega fylgt því fyrirmæli 19. gr. sambandslaganna að Ísland lýsti ævarandi hlutleysi sínu. Af þessari stefnu leiddi algert athafnaleysi í utanríkismálum, öðrum en þeim sem varða verslun og viðskipti. Reglan varð sú ein að bíða og sjá hvað setti.
Með hervarnarsamningnum var í fyrsta skipti og á eftirminnilegan hátt horfið frá þessari reglu. Hlutleysisyfirlýsingin í 19. gr. sambandslaganna var brotin. E.t.v. ekki þegar í stað, en að því var stefnt þar sem allir bjuggust við að Bandaríkin myndu áður en lyki lenda í ófriðnum svo sem brátt varð.
Eigi verður um það deilt að horfið var frá hinu algera hlutleysi af ríkri nauðsyn. En þarna er enn eitt dæmi þess að straumur tímans ber í brott hvert fyrirmæli sambandslaganna af öðru, og að þessu sinni áttu Bretland og Bandaríkin beinan hlut að.
Mikilsverðara er þó hitt, að atburðirnir höfðu kennt Íslendingum að einangrun þeirra var úr sögunni. Þeir urðu að taka upp athafnasemi í utanríkismálum. Sjá landi sínu borgið með samningum við stórveldin og þora að velja á milli.
En þetta hlaut að leiða til þess að Íslendingum sýndist tímabært að koma stjórnskipun sinni og utanríkisþjónustu í fast horf.
Að öllu þessu athuguðu var það sjálfsagt mál að allir þingflokkar urðu sammála um það sumarið 1942 að þá væri tímabært að ganga frá formlegum sambandsslitum við Danmörk og endanlegri stjórnskipun íslenska ríkisins.
Þessu varð þó ekki svo skjótt lokið sem fyrirhugað hafði verið, því að fyrir tilmæli Bandaríkjastjórnar var þessu frestað um sinn. Skal sú saga ekki rakin að öðru leyti en því, að skýrt skal frá því hvað kom fram af hálfu Bandaríkjanna um réttarstöðu landsins því að málaleitanir þeirra hafa verið affluttar á hinn freklegasta hátt.
Í fyrstu orðsendingu Bandaríkjastjórnar, sem er dagsett 31. júlí 1942, er að því vikið að á Íslandi séu uppi ráðagerðir um ógildingu sambandslagasamningsins milli Íslands og Danmerkur fyrir tilskilinn tíma og þess farið á leit, að vegna hagsmuna beggja, Íslands og Bandaríkjanna, sé frá því horfið að samningurinn sé nú einhliða ógiltur, gagnstætt ákvæðum sambandslaganna í þessu efni.
Annað og meira en þetta segir ekki um réttarstöðuna. Ljóst er að lögð er áhersla á, að einhliða ógilding samningsins fyrir tilskilinn tíma er talin geta haft óheppileg áhrif. En hvergi er að því vikið hvort ógildingin eða riftingin sé heimil eða óheimil samkvæmt almennum reglum þjóðarréttarins. Um réttarstöðuna skipti þetta þó mestu. Íslendingum var að sjálfsögðu ljóst að samkvæmt bókstaf sambandslaganna var ógilding þeirra óheimil á árinu 1942. Þeir byggðu riftingarréttinn á allt öðrum reglum, en eigi síður viðurkenndum í þjóðaréttinum. Hvort skilyrði til riftingar séu fyrir hendi samkvæmt þeim er sem sagt látið liggja milli hluta í fyrstu orðsendingu Bandaríkjanna.
Þessu næst var af Íslands hálfu í ítarlegri orðsendingu m.a. gerð grein fyrir á hverju Íslendingar byggðu riftingarrétt sinn.
Eftir að ríkisstjórn Bandaríkjanna hafði að eigin sögn „íhugað gaumgæfilega“ þessa orðsendingu svarar hún með annari dagsetningu 20. ágúst 1942, hinni fyrri sýnu ítarlegri. Þar er ekki, gagnstætt hinni fyrri, vikið einu orði að því að Íslendingar ætli gagnstætt ákvæðum sambandslagasamningsins að ógilda hann fyrir tilskilinn tíma. Nú segir aftur á móti orðrétt:
Meira er ekki um réttarstöðuna sagt í þessari orðsendingu, enda geta Íslendingar vart óskað skýrari viðurkenningar á rétti sínum en þarna kemur fram. Getur nokkrum dottið í hug að ríkisstjórn Bandaríkjanna viðurkenndi beinlínis berum orðum að Íslendingar ættu að taka ákvörðun um réttarbrot gegn Danmörku, „eftir eigin óskum sínum og þörfum“? Eða hún talaði um „athafnafrelsi“ íslensku þjóðarinnar til að fremja brot á alþjóðalögum? Hvorki menn né ríki hafa frelsi til lögbrota. Það, að maður sé frjáls að einhverju, merkir einmitt að honum sé það heimilt, að það sé löglegt.
En úr því að Bandaríkin fallast á skoðun Íslendinga um réttarstöðuna, hvernig stendur þá á afskiptum þeirra?
Nú eru ekki friðartímar, heldur ófriðar. Ekki tímar réttarins, heldur rægivaldsins, a.m.k. á meginlandi Norðurálfu. Bandaríkin eru í ófriði, þar sem þau telja að um allt sé að tefla, bæði fyrir Bandaríkin og Ísland. Þau eru að vísu viss um sigur, en þau þurfa samt á öllu að halda. M.a. telja þau sér nauðsynlegt að halda vináttu undirokuðu þjóðanna á meginlandinu. Þau vilja ekki gefa andstæðingum sínum færi á að rógbera sig fyrir að í þeirra skjóli séu gerðar ráðstafanir sem undirokuðu þjóðirnar af einhverjum ástæðum taka óstinnt upp.
Bandaríkin hafa hervarnir Íslands með höndum og töldu því mögulegt að Danir tæki bæði þeim og Íslendingum óstinnt upp ógilding sambandslagasamningsins fyrir tilskilinn tíma, þ.e. árslok 1943, hvað sem öllum réttarskoðunum liði. Eftir árslok 1943 telja Bandaríkin aftur á móti allar ástæður til hugsanlegrar gremju Dana brottu fallna. Þess vegna lyktaði orðsendingum Bandaríkjanna á þann veg, eftir að Íslendingar höfðu ákveðið að fresta málinu um óákveðinn tíma, að hinn 14. okt. sl. tilkynnti sendiherra Bandaríkjanna hér, að stjórn hans myndi alls ekkert hafa á móti því að Ísland verði gert að lýðveldi 1944.
Endalok þessara mjög vinsamlegu orðaskipta Bandaríkjanna og Íslands urðu því þau, að annars vegar gafst Íslendingum færi á að sýna, að þótt þeir mætu algert stjórnskipulegt sjálfstæði sitt svo mikils, að þeiri yndu illa öllum drætti þess, þá mátu þeir þó ennþá meira baráttuna fyrir því, að stjórnskipulegt sjálfstæði smáríkja yrði í framtíðinni viðurkennt og einhvers virði í reynd, en hins vegar lýstu Bandaríkin viðurkenningu sinni á að Ísland yrði lýðveldi 1944.
Sumir kalla þetta raunasögu. Ég kalla það stórfelldan ávinning í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.
Einkum þegar athugað er að afnám konungdæmisins er einmitt hið eina atriði í öllu sjálfstæðismálinu sem efasamt er hvort unnt er að framkvæma á strangformlegan hátt, þótt hins vegar verði eigi brigður á það bornar að frumréttur viðurkenndrar fullvalda þjóðar sé að ákveða sjálf stjórnarfyrirkomulag sitt, og þar með hvort hún vill heldur hafa konungsríki eða lýðveldi. Nú er fengin ótvíræð viðurkenning voldugasta lýðveldisins fyrir réttmæti ákvörðunar Íslendinga um þetta eina umdeilanlega atriði.
Þetta er því þýðingarmeira sem samhliða þessu var samþykkt stjórnarskrárbreyting er stórlega greiddi fyrir stofnun lýðveldis og afnámi sambandslaganna. Áður en síðari stjórnarskrárbreytingin á árinu 1942 öðlaðist gild, þurfti til þessara ákvarðana samþykkt tveggja þinga með þingrofi og almennum kosningum á milli, þjóðaratkvæði og staðfesting konungs eða handhafa konungsvalds. Samkvæmt hinum nýju stjórnarskrárfyrirmælum nægir samþykki einungis eins þings og staðfesting þeirrar samþykktar með þjóðaratkvæði. Í þessu er m.a. fólgið það mjög mikilsverða nýmæli, að ekki þarf samþykki konungs eða handhafa valds hans á afnámi konungdæmisins, heldur er það þjóðin sjálf, sem endanlega kveður á um þetta, svo sem vera ber.
Síðari hluta ársins 1942 horfði sjálfstæðismálið því svo við, að úr sögunni virtist vera sá ágreiningur sem um skeið hafði verið um það hvort fara skyldi svokallaða hraðfara eða hægfara leið. Allir, eða svo nær, voru horfnir frá því að láta sambandsslit og stofnun lýðveldis taka gildi fyrr en eftir árslok 1943 nema því aðeins að að höndum bæri sérstök atvik sem sjálfsagt gerðu að skjótara yrði við brugðið, og höfðu menn einkum í huga, ef ófriðarlok yrðu fyrr en við var búist. Hinu hafði þá um langa hríð enginn haldið fram á almannafæri, að draga bæri sambandsslitin lengur en eitthvað fram á árið 1944, þegar þau voru heimil eftir ótvíræðum ákvæðum sambandslaganna sjálfra.
Í milliþinganefndinni í stjórnarskrármálinu reyndist og svo, að þar urðu allir sammála. Höfðu einstakir nefndarmenn þó á sínum tíma, þ.e. fyrri hluta árs 1941, verið mjög ósammála um hvort hægt eða hratt skyldi farið. Undir öruggri forystu Gísla Sveinssonar, forseta sameinaðs Alþimgis, varð nefndin nú í vor einhuga um að leggja til að sambandinu yrði slitið og lýðveldi stofnað hér á landi eigi síðar en 17. júní 1944.
Um minni háttar atriði ríkti smávægilegur ágreiningur. Meiri hluti nefndarinnar vildi að forsetinn yrði fyrst um sinn kosinn af Alþingi til fjögurra ára í senn. Allir lögðu til að vald hans yrði sem líkast valdi konungs, þó svo, að hann fengi ekki skilyrðislausan rétt til synjunar lagafrumvarpa. Að öðru leyti er stjórnarskránni ekki breytt nema að því leyti sem beinlínis leiðir af sambandsslitum, enda er ráð fyrir því gert að nefndin starfi áfram til frekari endurskoðunar stjórnarskrárinnar.
Tillögur nefndarinnar eru í samræmi við síðari stjórnarskrárbreytinguna 1942. Er það og höfuðnauðsyn að halda þessum breytingum stjórnarskrárinnar alveg sér og blanda eigi sjálfri stofnun lýðveldisins inn í önnur minni háttar atriði sem verða mættu til sundrunar þjóðinni og tafar málinu. Geta menn og væntanlega nú glögglega greint hvort það hefði orðið til fyrirgreiðslu sambandsslita ef þau hefðu t.d. átt að tengjast við svo umdeilt atriði sem breytingu á kjördæmaskipun landsins.
Ef nokkuð mátti marka fyrri yfirlýsingar og afstöðu, varð að ætla að allir Íslendingar yrðu sammála um tillögur nefndarinnar og ekki síst þá, að stofna skyldi íslenskt lýðveldi 17. júní 1944. Við skulum og vona að svo verði er á reynir.
En ef sú von á að rætast, þá megum við ekki loka augunum fyrir því að síðustu mánuðina hefur blásið til undanhalds. Þann hljóm verður að kæfa áður en hann nær að æra landslýðinn eða einhvern hluta hans.
Þytur í þessa áttina heyrðist fyrst þegar kunnugt varð um undirskriftir nokkurra góðra og gegnra borgara á síðast liðnu sumri til mótmæla því að sjálfstæðismálið yrði þá afgreitt. Undirskrifendur þessir hurfu þó von bráðar í skuggann af orðsendingum Bandaríkjanna og er rétt að láta þá eiga sig þar, aðra en þá sem úr skugganum hafa skotist.
Næst var sami hljómur, en þó sýnu háværari, í ræðu dr. Björns Þórðarsonar 1. desember sl. Er og sagt, að hann hafi verið einn af undirskrifendunum. Ræða þessi var síðar birt á prenti í tímaritinu Helgafelli, en þó að líkindum eigi fyrr en eftir að doktorinn hafði tekið við ráðherratign. Mun ég síðar víkja nánar að ræðu þessari.
Þá ber að minnast úrslita svokallaðrar skoðanakönnunar sem tímaritið Helgafell birti fyrst og Alþýðublaðið blés mjög upp. Samkvæmt þeim neitaði naumur meiri hluti þeirra sem svöruðu, því að stofna skyldi lýðveldi hér á landi árið 1943. Spurning þessi var borin upp og svarað eftir að vitað var samkomulag þingflokka um að þetta skyldi eigi gert fyrr en á árinu 1944. Svörin sanna því þegar af þeirri ástæðu ekkert um vilja manna til lýðveldisstofnunar 1944, en þó verður ekki hjá því komist að vekja athygli á að spurningin eðli sínu samkvæmt var til þess löguð að villa hugi manna og trufla um hvað fyrir lægi.
Hafa ber og í huga unditektir tveggja þeirra blaða sem að almennings áliti eru ómerkust og fjarlægust að njóta nokkurs manns virðingar. Með öllu væri þó óviðeigandi að eyða orðum að úrtölum þeirra.
Enn ber að geta frásagnar danska blaðsins Frit Danmark sem gefið er út í London. Þar er frá því hermt að 28. apríl sl. hafi verið svo að skilja á danska útvarpinu frá Kaupmannahöfn sem danska stjórnin hafi sent íslensku stjórninni orðsendingu til mótmæla tillögum stjórnarskrárnefndar og hafi þar verið sérstök áhersla á það lögð að sambandsslit ættu sér ekki stað fyrr en viðræður hefðu farið fram um þau milli Íslands og Danmerkur.
Þegar síðast fréttist hafði orðsending þessi enn eigi borist íslensku stjórninni fyrir milligöngu réttra aðila. Hins vegar hefur ríkisstjórninni borist, og hún gert sér alveg sérstakt far um að koma á framfæri, ályktun Íslendingafundar sem haldinn var í Kaupmannahöfn 7. maí sl. Í ályktun þessari er þeirri eindregnu áskorun beint til stjórnar og alþingis að fresta úrslitum sambandsmálsins „þangað til báðir aðilar hafa talast við. Sambandsslit án þess að viðræður hafi farið fram, eru líkleg til að vekja gremju gegn Íslandi annarsstaðar á Norðurlöndum og gera aðstöðu Íslendinga þar erfiðari, þar sem einhliða ákvörðun Íslendinga í þessu máli, yrði talin andstæð norrænum sambúðarvenjum“.
Eftir að þessi skilaboð bárust frá Danmörku hefur svo við brugðið að Alþýðublaðið hefur birt hverja greinina á eftir annarri þar sem hvatt er til undanhalds. Er þetta framferði blaðsins í algerri andstöðu við skýlausar yfirlýsingar fulltrúa flokksins í stjórnarskrárnefndinni. En þar lögðu bæði formaður flokksins og annar aðalmaður eindregið til að lýðveldi yrði eigi stofnað síðar en 17. júní 1944. Bendir þessi klofningur til að rétt sé það sem Þjóðviljinn hvað eftir annað hefur sagt, að alger sundurþykkja sé með forráðamönnum Alþýðublaðsins og þingflokknum. Vonandi verða hin góðu öfl þingflokksins ráðandi í flokknum í heild um þetta mál áður en lýkur.
Verið er að læða því út að Danir hafi fyllst gremju yfir ráðagerðum Íslendinga.
En hvaða ástæðu hafa Danir til að láta sér gremjast fyrirætlanir Íslendinga? Því hefur Sigurður Eggerz[2] svarað best með ummælum í grein sem Vísir birti 29. mars 1941. Þar segir svo:
Nú er ekki lengur um að ræða að rifta sambandslögunum fyrir þann tíma sem í þeim sjálfum er tilskilinn. Ætlunin er þvert á móti sú að slíta sambandinu nær hálfu ári síðar en samkvæmt sambandslögunum sjálfum er heimilt. Ástæðan til hugsanlegrar gremju Dana er því gersamlega brottu fallin, enda er ljóst að afstaða Bandaríkjanna hlýtur að byggjast á því að slík gremja sé með öllu ástæðulaus ef beðið er með framkvæmd lýðveldisstofnunar þar til eftir árslok 1943.
Undanhaldsmennirnir íslensku segja eflaust að því fari fjarri að ímynduð gremja Dana spretti af því að fyrirhugað er að þeir missi sín aldagömlu ráð yfir Íslandi fyrir fullt og allt, heldur komi hún til af hinu að ekki eigi að tala við þá.
En um hvað á að tala við Dani? Hver eru þau ákvæði sambandslaganna sem til mála geta komið að verði látin halda gildi?
Konungdæmið? Íslendingar urðu að taka konungsvaldið inn í landið á hættunnar stund. Ekki vegna eigin óska, heldur til þess neyddir af ofurþunga atburðanna. Síðan hafa liðið yfir landið hættusamari tímar en nokkrru sinni fyrr. Við kvöddum til okkar eigin þjóðhöfðingja, búsettan í landinu sjálfu, til að hjálpa til við að ráða fram úr vandanum. Kemur nokkrum til hugar að Íslendingar reki hann af höndum sér og semji um að fela erlendum manni í fjarlægu landi aftur æðsta vald í málefnum ríkisins?
Utanríkismálin? Eru þeir margir Íslendingarnir sem vilja á ný fela Dönum meðferð utanríkismálanna, eftir að við urðum óviðbúnir að taka þau að öllu í okkar hendur í miðju ölduróti styrjaldarinnar?
Landhelgisgæslan? Dreymir nokkurn Íslending um það að danski fáninn sjáist framar við hún á þeim skipum sem eiga að gæta íslenskrar landhelgi?
Gagnkvæmur ríkisborgararéttur? Fullvíst er að Íslendingar semja ekki framar um það að þrjátíu sinnum mannfleiri þjóð hafi sama afnotarétt af landinu og Íslendingar sjálfir. Hitt höfum við alltaf talið sjálfsagt, og það leggur stjórnarskrárnefndin til, að Danir sem hér dveljast nú þegar, haldi öllu jafnrétti við Íslendinga. Og dettur nokkrum í hug að Danir fari ekki á sama veg með Íslendinga þá sem nú dveljast í Danmörku? Áreiðanlega ekki þeim sem mest tala um norrænar sambúðarvenjur. Hvað er fjarlægara norrænum drengskap en að hugsa sér að Íslendingar í Danmörku væru látnir gjalda þess að Íslendingar á Íslandi vildu að land þeirra yrði sjálfstætt? Slíkum fjarstæðum er ekki eyðandi á orðum.
En þá er upp talið það efni sambandslaganna sem hugsanlegt væri að tala um eða semja, þegar frá er fallið fyrirmælið um ævarandi hlutleysi Íslands sem áður er á drepið og Dani varðar engu. Hvert af þessum ákvæðum kemur til mála að Íslendingar endurnýi í einhverri mynd? Og ef menn eru sammála um að það sé ekkert, um hvað á þá að tala?
Jú, segja undanhaldsmennirnir, að vísu getum við ekki tilgreint neitt ákveðið atriði sem við þurfum um að semja eða tala um við Dani, en norrænum sambúðarreglum verðum við að fylgja.
En á hverju hvílir hin norræna samvinna? Á gagnkvæmri virðingu fyrir frelsi, lýðræði og menningu hverrar einstakrar Norðurlandaþjóðar. Er þessi grundvöllur rofinn með því, að Íslendingar með alþjóðaratkvæði treysti menningu sína með stofnun alfrjáls lýðveldis? Nei, þvert á móti. Samvinnan er gerð haldbetri en nokkru sinni fyrr, hornsteinar hennar fleiri og öruggari en áður.
Á glundroðann í viðhorfi þessara ríkja til heimsviðburðanna verður hins vegar ekki aukið frá því sem nú er. Eða hvernig hafa Norðurlönd brugðist við atburðum ófriðarins?
Noregur er ein af öndvegisþjóðunum í liði Bandamanna í baráttu við Þjóðverja. Finnland er í bandalagi með Þjóðverjum. Ísland hefur falið Bandaríkjunum hervarnir sínar á meðan ófriðnum stendur. Danmörku er gegn mótmælum sínum haldið í hernámi Þjóðverja. En Svíþjóð er hlutlaus og hefur þó leyft Þjóðverjum nokkra herflutninga um land sitt.
Hvaða fimm ríki í veröldinni, skyld eða óskyld, hafa valið sér eða neyðst til að velja sér ólíkari stöðu í ófriðnum en þessar fimm friðsömu frændþjóðir?
Eða er nokkur sá, að hann haldi að Norðurlöndum hefði orðið það til styrktar í þessum ægilega hildarleik, sem svo herfilega hefur sundrað þeim, þótt einstök þeirra hefðu verið tengd nánari stjórnskipulegum böndum en var? Varð Dönum styrkur að sambandinu við Ísland á örlagastund sinni? Höfðu Íslendingar gagn af yfirráðum Dana? Þvert á móti. Þau færðu aukna hættu yfir landið. Ætli Svíum hefði tekist að halda sér hlutlausum ef þeir enn hefðu ráðið yfir Finnlandi eins og þeir gerðu fram í Napóleonsstyrjaldirnar? Myndi Svíþjóð enn vera friðsæll reitur í styrjaldarrótinu ef samband hennar við Noreg hefði haldist fram á þennan dag?
Ef til vill segja undanhaldsmennirnir að þetta komi málinu ekki við. Allir séu sammála um að sjálfsagt sé að slíta hinum stjórnskipulegu tengslum milli Íslands og Danmerkur. Deiluefnið sé einungis það hvort slitin eigi að fara fram í samræmi við norrænar sambúðarvenjur.
En hverjir vilja brjóta gegn norrænum sambúðarvenjum með sambandsslitunum? Hvernig hafa sambandsslit áður fram farið með þessum þjóðum? Hverjar eru sambúðarvenjur þeirra í þessu efni?
Við skulum einungis líta á síðustu sambandsslitin á Norðurlöndum, milli Noregs og Svíþjóðar 1905. Þá höfðu Norðmenn og Svíar átt í áratugalöngum illvígum deilum. Hinn 27. maí 1905 skarst í odda. Þá sagði norska stjórnin af sér vegna ósamkomulags við Svíakonung. Í ellefu daga reyndi konungur, hinn ágætasti maður, árangurslaust að jafna ágreininginn eða mynda nýja stjórn. Hinn 7. júní töldu Norðmenn sér eigi fært að bíða lengur. Þá samþykkti Stórþing þeirra með samhljóða atkvæðum að sambandinu við Svíþjóð væri slitið, vegna þess að „konungurinn hefur lýst sér ómögulegt að útvega landinu nýja stjórn og þar sem hin þingbundna konungsstjórn hefur þannig hætt störfum“.
Íslendingar höfðu þessa samþykkt m.a. til fyrirmyndar 10. apríl 1940. En Íslendingar fóru ekki að eins og Norðmenn, að bíða bara í ellefu daga eftir því hvort konungur gæti gegnt þeim störfum sem honum er skylt að fara með. Íslendingar eru búnir að bíða í þrjú ár og þeir eru reiðubúnir að bíða í fjögur.
Og ætla Íslendingar að þessum fjórum árum liðnum fyrst og fremst að bera fyrir sig sömu ástæðuna og Norðmenn gerðu eftir ellefu daga? Nei. Þeir ætla að fylgja þeim tímamörkum sem sambandssáttmálinn sjálfur, gerður fyrir aldarfjórðungi, ákveður.
Segja má að Norðmenn hafi, gagnstætt Íslendingum, farið harkalega að. En hvað hefur fremur eflt samvinnu Norðurlanda en sjálfstæði Noregs? Og hvað hefur fremur varpað ljóma á Norðurlönd en frelsisþrá Norðmanna? En víst er, að þeir sem hana lofa, ættu ekki að tala um óbilgirni Íslendinga.
Óþart ætti að vera að fara fleiri orðum um þessa lúðurþeytara undanhaldsins og uppgjafarsón þeirra, en áður frá þeim er horfið verður þó að víkja sérstaklega að ræðu dr. Björns Þórðarsonar[3], sem áður var á drepið. Ber þar til, að hann gerir gleggsta grein fyrir máli sínu, að hann er góðviljaður maður og grandvar og hefur eftir ræðuna, að vísu án nokkurs sambands við hana, hlotið þá stöðu, að orðum hans hlýtur að fylgja sérstakur þungi.
Skylt er þó að geta þess að dr. Björn segir hvergi berum orðum að hann sé andvígur tillögum þeim sem stjórnarskrárnefndin hefur eftir flutning ræðunnar borið fram. En bæði er, að rök hans hníga mjög að því að svo sé, og að þau eru frumflutt eftir að vitað var að Alþingi ætlaði ekki að leggja til að lýðveldisstofnun kæmist í framkvæmd fyrr en á árinu 1944, nema ófriðarlok yrðu fyrr. Ummæli hans eru því með öllu út í hött ef þeim er ekki stefnt gegn ráðagerðunum um að ljúka málinu strax á árinu 1944. Svo hafa og ummælin verið skilin, sem sjá má af því að þeir ólánsmenn sem nú hafa brugðist foringjum sínum og rita í Alþýðublaðið hverja úrtölugreinina af annarri, vitna til orða dr. Björns sem sérstaklega „viturlegra“. Loks varð alger þögn dr. Björns um tillögur stjórnarskrárnefndar er hann talaði til þjóðar sinnar 17. júní sl. eigi skilin á annan veg en þann að enn væri hann sömu skoðunar og í ræðunni 1. desember 1942.
Í ræðu sinni 1. des. talar dr. Björn Þórðarson um það sem með öllu úreltan hugsunarhátt, „að sambandslagasamnngurinn við Danmörk sé fjötur um fót frelsi voru og framtíð“ (Helgafell, I. árg. S. 298). Að vísu segir hann, að því hafi verið yfirlýst af Íslendinga hálfu að samningurinn yrði ekki endurnýjaður. En hann bætir við: „Báðum þjóðum var ljóst, og öllum er ljóst, að minnsta kosti hér á landi, að semja þurfti og semja þarf um margs konar hagsmunamál, sem hvor þjóðin átti og á innan umdæmis hinnar“ (s. 296).
Orð hans verða eigi skilin á annan veg en þann að hann telji óþarft að líta á þá skipun sem nú er hér á meðferð hins æðsta valds sem bráðabirgðafyrirkomulags, því hann vekur athygli á að hún sé hliðstæð því sem í Ungverjalandi hefur haldist í hálfan þriðja tug ára (s. 297). Enda segir hann síðar orðrétt:
Enn segir hann:
Í beinu framhaldi þessara orða víkur hann síðan að meðferð sjálfstæðismálsins á árinu 1942, og segir m.a.:
Og skömmu síðar eru þessi spekinnar orð:
Allt er þetta á 300. síðu Helgafells og undirstrikanirnar[4] gerðar af doktornum sjálfum.
Enginn getur meinað neinum íslenskum doktor að hafa vantrú á rétti þjóðar sinnar, jafnvel þótt Alþingi hafi með einhuga samþykkt lýst honum þjóðinni til handa. Og ef einhver hyggur að hann varpi ljóma á doktorshatt sinn með því að gangast í berhögg við kenningar hinna frægustu þjóðréttarfræðinga og afneita þeim rétti sem Íslandi samkvæmt þessum kenningum skýlaust ber, þá er honum það að sjálfsögðu heimilt. Það er meira að segja sennilegt að nafn hans verði lengi í minnum haft þó að með öðrum hætti kunni að verða en ágætt ævistarf að öðru leyti gefur efni til. En sá sem svo vill fara að, verður að setja fram skoðanir sínar í eigin nafni og reyna að færa rök fyrir þeim. Hann má ekki reyna að læða sinni eigin vantrú inn hjá þjóðinni sem skoðun Bandaríkjanna. Honum er slíkt með öllu óheimilt, þegar Bandaríkin þvert á móti berum orðum hafa beinlínis viðurkennt að sambandsslitin og afnám konungdæmis séu mál sem „íslenska þjóðin ætti á friðartímum að taka ákvörðun um, eftir eigin óskum sínum og þörfum“ og hafi sjálf „athafnafrelsi“ um, jafnvel þótt ófriður sé. Og enn óheimilla er að ógna með „aðvörun í þriðja sinn“, þegar Bandaríkin þá þegar höfðu lýst yfir viðurkenningu sinni á stofnun íslensks lýðveldis 1944, hvort sem Dönum líkar betur eða verr, við þá er „talað“ eða ekki.
Vissulega er svo að sjá sem sumum þyki þessar viðurkenningar „raunalegar“. En verða þeir margir Íslendingarnir sem fá sig til að tárast yfir því að lýðveldið okkar eigi innan árs að hætta að vera „konunglegt“ og verði í staðinn einungis íslenskt?
En hvað á að kalla þann anda sem býr undir þvílíkum ummælum svo ágæts manns sem dr. Björns Þórðarssonar? Um það get ég ekki sagt. Hitt vil ég segja að bæði er, að dr. Björn Þórðarson var ekki orðinn forsætisráðherra þegar hann flutti ræðu sína, og að hann hafði þá ekki heyrt nýársræðu herra ríkisstjóra. Þar ríkti annar andi. Herra ríkisstjóri réð mönnum þar til að lesa fjallræðuna sér til sálubótar.
Í þeirri ræðu segir hvergi að um hin helgustu mál megi ekki tefla á tæpasta vað svo maður fái ekki aðvörun í þriðja sinn. Heldur segir:
Og annars staðar í hinni helgu bók er í sambandi við þessi orð sögð svofelld dæmisaga:
Síðan hafa menn ekki aðeins fylgt þessari reglu hinnar helgu bókar um að öruggasta ráðið til að upp lokið verði sé að knýja á, — og þar er hvergi dregið af, hvernig að er farið, þegar vinur knýr á dyr vinar til að fá framgengt greiða, — þegar einstakur maður kallar guð sinn sér til hjálpar í nauðum, heldur einnig þegar ríkin hafa verið sköpuð á örlagastundum í tilveru þeirra.
Hafa margar þjóðir öðlast frelsi, losnað úr erlendum viðjum og hlotið viðurkenningu umheimsins án þess að knýja á?
Lítum á Bandaríkin, sem um skeið fara með hervarnir Íslands.
Nú eru þau meira en þúsundfalt mannfleiri en við. En rétt fyrir frelsisstríð þeirra, um 1760, er talið að nýlendurnar sem í upphafi stofnuðu Bandaríkin hafi þá aðeins verið 13 sinnum mannfleiri en Íslendingar eru í dag. Þessi þjóð, sem þá var lítil, tefldi svo á tæpasta vað um rétt sinn og mannorð meðal þjóðanna að hún gerði byltingu gegn bókstaf laganna, sleit tengslin við móðurlandið án heimildar í nokkrum samning og setti þar með konunginn af.
Hún var vissulega ekki hrædd þótt hún fengi aðvörun og jafnvel áminningu. — Í heilt ár þurfti Benjamín Franklín að bíða í París þangað til hann fékk endanlega viðurkenningu frönsku stjórnarinnar á frelsi þjóðar sinnar. Og á meðan hann var þar sendiherra þá gat hann ekki þverfótað á skrifstofu sinni — ekki vegna aðstoðarmanna, heldur vegna sendiherra sem Bandaríkin höfðu sent til höfuðborga álfunnar, en konungshirðirnar þar vildu ekki veita móttöku af virðingu fyrir yfirráðarétti Englands.
Örlög kotríkisins Íslands verða áreiðanlega um margt ólík örlögum hinna voldugu Bandaríkja. — En um hinn smæsta sem hinn stærsta gildir, að ef ekki er knúið á, þá mun ekki heldur upp lokið verða.
Lítum til annarrar þjóðar, þeirrar sem okkur er skyldust, Norðmanna.
Árið 1905 biðu þeir ekki lengur en í ellefu daga með það sem við viljum draga í fjögur ár, og ekki gera fyrr en sá tími er kominn sem þegar fyrir aldarfjórðungi var umsaminn. Halda menn að Norðmenn hafi þá verið að hugsa um að sleppa við aðvaranir eða jafnvel áminningar fyrir að standa á rétti sínum? Sannarlega ekki. A.m.k. fengu þeir aðvörun í því formi að þeir urðu að bíða í nærri hálft ár þangað til erlend ríki sendu þeim sendiherra, og eindregin mótmæli fengu þeir frá Svíakonungi.
Nú eru þeir ein mesta hetjuþjóð heims. Vegna þess að þeir 1939 og síðan hafa lifað eftir sömu meginreglunni og 1905, að frelsið væri þess vert að á væri knúið til að öðlast það og varðveita.
Lítum á okkar eigin sögu.
Ætli Jón Sigurðsson hafi hugsað um það á Þjóðfundinum 1851, er hann reis upp og mótmælti gerræði konungsfulltrúa í nafni konungs og þjóðarinnar, að hann mætti nú vara sig á að fá ekki aðvörun og áminningu? Og ætli þeir þjóðfundarmenn, sem í einu hljóði tóku undir mótmæli hans og sögðu: „Vér mótmælum allir“, hafi verið búnir að grandskoða huga sinn um það að þeir yrðu ekki fyrir mannorðsspjöllum í augum konungsvaldsins?
Víst er það, að umheimurinn veitti þeim engar þakkir fyrir að þeir mótmæltu að rofinn væri sá réttur sem Íslendingar byggðu á heitorði konungs.
Friðrik VI. launaði ekki Jóni Sigurðssyni fyrir að hann hélt kongungsorðum í heiðri með því að gera hann að ráðherra yfir Íslandi. Nei, en danska stjórnin aðvaraði Íslendinga með að hrekja helstu fylgismenn Jóns Sigurðssonar úr embættum og sjálfan áminnti hún hann með því að sjá um að hann fengi aldrei lífvænlega stöðu í föðurlandi sínu og yrði því að lifa sem útlagi alla ævi. En í minningu þeirrar litlu þjóðar, sem þessir menn lögðu á tæpasta vaðið fyrir, munu nöfn þeirra ætíð verða ljóma vafin.
Þetta er að vísu stórfenglegasta dæmið úr sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. — En aðferðin var ætíð hin sama. — Landsmenn stóðu fast á rétti sínum og héldu áfram að klifa um hann þrátt fyrir aðvaranir og áminningar, ekki þrisvar sinnum, heldur þrisvar sinnum þrem sinnum og enn oftar. Hvers var „þref“ Jóns Sigurðssonar og annara föðurlandsvina um Gamla sáttmála metið? — Ekki einungis Danir, heldur jafnvel einstöku Íslendingar sögðu að hann hefði enga þýðingu.
En Íslendingar héldu áfram. Þeir knúðu á þangað til upp hefur verið lokið í hálfa gátt. Eiga þeir nú að staðnæmast í dyrunum að salarkynnum hinna alfrjálsu þjóða af óttanum við að réttur þeirra kunni að vera vefengdur af einhverjum, svo að þeir fái aðvörun eða áminningu fyrir að ryðjast inn? Eiga þeir að doka við í dyrunum af því að þeir þurfa að tala við svo marga áður en þeir vinda sér inn fyrir dyrastafinn? Bara að hurðinni verði ekki skellt á þá áður en inn er komið. Við skulum tala við vini okkar fyrir innan dyrnar en ekki í dyragættinni. Sá er hæverskra manna háttur, enda sjáum við af móttökunum þegar inn er komið enn betur en áður, hverjir eru vinir okkar.
Ég er ekki hræddur um móttökurnar. Bandaríkin hafa fyrirfram boðið okkur velkomna nú eftir áramótin. Bretland, Noregur og Svíþjóð hafa þegar sent okkur sendimenn slíka sem ósamrýmanlegt er sambandslögunum. Og stórveldið rússneska hefur beinlínis þurft að sækja á um að veita okkur viðurkenningu með vist sendiherra hér.
Við vonum að enn líði ekki mörg ár til ófriðarloka. Fram að þessur hefur það verið yfirlýst stefna Íslendinga að stofna hér lýðveldi fyrir ófriðarlok og þó ekki síðar en á árinu 1944. Á þeim grundvelli hvíldu ályktanirnar 17. maí 1941 og samkomulag það, sem um þær varð.
Nú segja undanhaldsmennirnir að þetta megi ómögulega gera fyrr en eftir ófriðarlok. En hafa þessir menn gert sér grein fyrir afleiðingum þess að við bíðum svo lengi með fullnaðarlok málsins?
Eftir beinum forsendum ályktananna 10. apríl 1941 þá eru ráðstafanirnar samkvæmt þeim úr sögunni jafnskjótt og leiðin til Danmerkur hefur opnast að nýju.
Samkvæmt kenningum undanhaldsmanna eiga Íslendingar því að búa sig undir friðarsamningana á þá leið að hrekja ríkisstjórann frá völdum og fá konunginum í Kaupmannahöfn aftur í hendur hið æðsta vald í málefnum ríkisins. Með því að vísa sendiherrum erlendra ríkja til Kaupmannahafnar og segja að nú skuli þeir ræða við utanríkisráðuneytið danska, hjá okkur fái þeir ekki framar áheyrn. Með því að kalla sendimenn okkar úti í löndum heim, eða gera þá að undirtyllum í dönsku sendisveitunum þar. Með því að afþakka lýðveldisviðurkenningu Bandaríkjanna og segja að verið geti að við þurfum einhvern tímann síðar á henni að halda, en nú viljum við ekkert með hana hafa að gera.
Myndu hagsmunir Íslands alveg tryggir við friðarsamningana ef svo væri farið að?
Danir vilja áreiðanlega ekkert mein gera okkur í meðferð utanríkismála Íslands.
En við friðarsamningana 1814 fóru þeir með utanríkismál Noregs. Þeir vildu áreiðanlega ekki láta Noreg af hendi og ennþá síður gera Norðmönnum eitthvað á móti skapi. En þeir voru neyddir til að afsala Noregi til Svíakonungs, þvert ofan í mótmæli Norðmanna sem héldu þvi fram að þvílíkt afsal væri með öllu heimildarlaust.
Við friðarsamningana 1864 fóru Danir með utanríkismál Íslands. Þeir vildu áreiðanlega ekki missa Ísland og ekki skaða okkur á nokkurn hátt þótt þeir teldu landinu best borgið undir sinni stjórn. En sjálfir hafa þeir frá því sagt að þá hafi verið í ráði að bjóða Þjóðverjum Ísland, ef það mætti verða til þess að Danmörk héldi því meira af Slésvík.
Í þessari heimsstyrjöld hefur oft verið sagt að úrslitin yltu á orustunni um Atlantshafið. Ætli Þjóðverjar vildu nú ekki fremur eiga Ísland og hafa getað búið um sig hér, en einhvern landskika í Slésvík sem þeir hvort eð er hafa í hendi sinni? Hafa menn gleymt því, að um það bil sem byrlegast blés fyrir Þjóðverjum, var hamrað á því af þeirra hálfu að Ísland væri „dönsk“ eyja?
Í dag eru sigurlíkurnar í stríðinu breyttar, og það er víst að Danir ráðstafa okkur aldrei gegn okkar vilja ef þeir eru frjálsir. En stríðsgæfan er völt. Og vert er að hafa það í huga að ófrjáls maður er ekki aðeins háður eigin veikleika heldur og veikleika þess sem með mál hans fer.
Vera kann og að réttur okkar verði að engu hafður, hvað sem við gerum. En víst er það, að sá sem ekki viðurkennir sinn eigin rétt, fær heldur ekki viðurkenningu annarra.
Aðferðin til þess að upp lokið verði er að knýja á.
Stígum þess vegna á stokk og strengjum þess heit að við skulum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess, að er sólin rennur upp hinn 18. júní 1944 skuli Ísland vera lýðveldi. Ekki konunglegt lýðveldi, heldur aðeins eigið lýðveldi íslensku þjóðarinnar.
[1] Fyrri heimsstyrjöld.
[2] Þingmaður 1911-1931, ráðherra Íslands 1914–1915, forsætisráðherra 1922–1924.
[3] Forsætisráðherra utanþingsstjórnarinnar (16. desember 1942–21. október 1944).
[4] Hér feitletrað.